sunnudagur, 21. júní 2009

Á ströndinni

Þessi helgi er fríhelgi, þ.e. ekki var unnið í gær, laugardag. Þá bruna hvítu vinnubílarnir af stað með fólk sem vill nota tækifærið til að komast aðeins úr vinnubúðunum. Við vorum engin undantekning og fórum til eyja sem liggja hér rétt fyrir utan meginlandið. Tekinn er báta-strætó frá Almirante og siglt til Bocas sem er vinsæll ferðamannabær.

Báta-strætóstoppistöð í Bocas

Til Bocas flykkist fólk sem vill kafa og "surfa" á brimbretti. Í þessum litla bæ eru tvær búðir sem selja vörur sem eru ómótstæðilegar fyrir túrista, svo sem sænskt hrökkbrauð (keypti tvo pakka), ítalskt pasta, þýskt morgunkorn, danskir ostar og Häagen-Dazs ís (stóðst það alls ekki).


Þaðan lá leiðin með öðrum hraðbát til strandar rauða frosksins (Red Frog Beach) á Bastimento eyju.



Þetta hlýtur að vera ströndin þar sem myndirnar eru teknar fyrir auglýsingabæklingana því aðra eins dýrð höfðum við ekki séð. Hvítur sandur, hreint og hlýtt haf þar sem öldurnar skella manni á bólakaf á fyrstu mínútunum (ég rétt náði að bjarga sólgleraugunum ...).










Á leið heim frá Bastimento eyju

Áður en við sigldum frá Bocas þá fengum við okkur að borða á ítölskum veitingastað.


Birkir aðeins að teygja sig eftir matinn ...

Í dag erum við svolítið bíldótt því eitthvað hefur farist fyrir að strjúka sólarvörninni jafnt yfir. Útsettir staðir eins og ristar, hnésbætur, hálf mjöðm og önnur öxlin hafa því fengið extra umgang af Aloa Vera "Burn Relief Gel" í dag.

2 ummæli:

  1. Sæl veriði og hjartans þakkir fyrir bloggið! Verð að viðurkenna að ég hef aldrei tekið inn tilganginn í svona tækni fyrr en núna. Hlakka mikið til að fá að fylgjast með ykkur áfram.
    Ykkur - segi ég og hef ekki ennþá fengið að sjá mynd af ykkur hjónum í Panamaleikmyndinni! Vænti þess að úr verði bætt, hóta annars að bera út sögur um að þetta sé allt saman ein allsherjar blekking og þið flissandi inni í Teigum í beinni, á vegum búlgarskrar sjónvarpsstöðvar.
    Saknaðarkveðjur
    Þorvaldur Þ

    SvaraEyða
  2. Vá ekkert smá flott strönd - hefði ekkert á móti því að flatmaga þarna í sólinni. Þetta með að brenna á ólíklegustu stöðum og gleyma sólarvörn á einum og einum bletti hefur oft komið fyrir mig ;-) Ég hef meira að segja einu sinni brunnið á augnlokunum og vörunum - var rosa sæt þann dag ;-)

    SvaraEyða