Okkur Lupé, heimilishjálpinni, kemur mjög vel saman. Hún ræður og ég brosi. Heimilið ljómar af hreinlæti og ekki amarlegt að koma heim úr vinnunni þar sem allt er sjænað hátt og lágt. Það vegur algjörlega upp á móti smá óþægindum við að finna hluti vegna reglulegrar endurskipulagningar á innihaldi skúffa og skápa.
Hún Lupé er sú eina sem er óþreytandi að tala við mig spænsku. Ég er farin að geta boðið henni góðan daginn skammlaust en ekki mikið meira en það. Hún spjallar við mig og ég reyni að skilja eftir bestu getu. Í síðustu viku dró hún mig út á verönd og benti á nokkur blóm og svo á garðinn. Ég held að henni hafi blöskrað fjöldinn af pottaplöntunum á veröndinni (ég missti mig aðeins í innkaupum um daginn ...) og finnist að nú sé tími til kominn að koma einhverju af þessu út í garð.
Eitthvað hefur Lupé verið orðið leið á að halda sig við skúffur og skápa því þegar við komum heim sl. fimmtudag þá vorum við ekki viss um að við værum í réttu húsi því slík var breytingin á innbúinu. Sófinn og innréttingar með sjónvarpi hafði skipt um höfuðátt. Rúmið í gestaherberginu og herbergi Birkis hafði snúist um 90 gráður. Við urðum „svolítið“ hissa yfir breytingunum en sáum fljótlega að þær væru til hins góða. Meira að segja Birkir var hrifinn í þetta skipti (sem ekki er mjög hrifinn af breytingum yfirleitt). Ég veit ekki hvernig Lupé gerir þetta ein því rúm og innréttingar eru engar léttavörur. Reyni finnst orðið nóg um flutningana en ekki ætla ég að reyna að útskýra að frekari flutninga sé ekki óskað.
Ég veit ekki hvort þessi extra þjónusta (flutningarnir) hafi verið undirbúningur fyrir viðskipti, en þegar ég kom heim í gær beið mín katalógur frá Avon og sætt bréf frá Lupé þar sem ég er hvött til að kaupa vörur á tilboði. Það er ekki spurning, ég mun auðvitað kaupa eitthvað þó það sé ekki nema til að gleðja Lupé. Ég stenst ekki bréf sem hefst á: „Mrs Ana, You like to buy Avon, these products are good, as clothing, shoes, after all“ og svo framvegis ...
miðvikudagur, 5. ágúst 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Góð hún Lupé og skemmtilegar sögurnar af henni!
SvaraEyðaEkki taka hana með Íslands samt....
SvaraEyðaYndislegt að lesa bloggið þitt - sendu kærar kveðjur til Reynis og ykkar allra. Sérstakar kveðjur til Lupé :)
SvaraEyðaRuth Bergs
Kveðja
SvaraEyðaGrétar/Ásdís