sunnudagur, 9. ágúst 2009

Laugardagur til lukku

Í gærmorgun þeystum við Birkir niður fjallshlíðina í átt að Changuinola til að fara í bankann. Útibú HSBC bankans er með fínni húsum í Changuinola og vel varið. Tveir vopnaðir öryggisverðir í skotheldum vestum fengu bæði að sjá skilríki og ofan í töskuna mína áður en okkur var hleypt inn. Auk þess var bannað að fara með vopn, dýr og sólgleraugu inn í bankann. Inni mætti okkur hrollkalt loft en það þykir merki um góða fjárhagsstöðu að geta kælt verulega hjá sér. Aumingja starfsmennirnir voru þó allir í ullarpeysum. Virðuleg kona á háum hælum benti á einn þjónustufulltrúann og sagði: „I would like her to tend to you“. Við settumst því hjá Señoru Inéz sem hjálpaði okkur með erindið sem var að opna bankareikning fyrir Birki. Við vorum vel undirbúin og afhentum Señorunni meðmælabréf undirskrifuðu af skrifstofustjóra CCWJV. Í því var gerð grein fyrir faðerni Birkis og stöðu hans hjá fyrirtækinu auk fagurra orða um ábyrgð Birkis í fjármálum.

Annars gekk þetta bara ágætlega, tók ekki nema 80 mínútur í skýrslutöku og 11 undirskriftir og þá var Birkir komin með debitkort og umsókn um internetaðgang að bankareikningi sínum.

Fyrst við vorum komin í bæinn þá ákváðum við að kíkja í Úlfakringlu (Wolf Mall) en þar fæst allt mögulegt svona í anda gömlu kaupfélaganna. Okkur vantaði handþeytara og fundum einn slíkan eftir stutta leit. Eins og alltaf koma starfsstúlkurnar aðvífandi, taka vörurnar og bera þær fyrir mann að kassanum. Í þetta skipti benti stúlkan mér að koma með sér að næstu innstungu þar sem hún tók þeytarann upp úr kassanum, stakk honum í samband og sýndi mér hreykin að hann virkaði. Þetta kallar maður góða þjónustu!

Eftir matarinnkaup hjá Romero sem er okkar 10-11 búð, þ.e. dýr og opin allan sólarhringinn, þá fórum við til kínverks ávaxtasala. Þar gátum við keypt kókoshnetu og látið fræsa kókosinn úr skelinni í leiðinni. Þetta hafði ég aldrei séð gert áður og fannst algjör snilld.

Þegar heim var komið vígði ég þeytarann góða og bjó til súkkulaðiköku Nigellu sem aldrei svíkur. Ég prófaði líka að gera karamellusósu með því að sjóða dós með niðursoðinni mjólk í klukkutíma. Þessa „uppskrift“ fékk ég hjá samstarfskonu minni í vetur en gat aldrei prófað því dósamjólkin hafði selst upp á Íslandi þegar ég reyndi að kaupa hana. Ég verð nú að segja að ég hef smakkað betri karamellusósu.

Dagurinn endaði svo á dýrindis matarveislu í Klúbbnum. Þjóðhátíðardagur Perú var fyrir stuttu og af því tilefni var boðið upp á perúanskan mat sem reyndist vera ákaflega ljúffengur. Það eru 10-15 manns hér frá Perú en þeir hjálpuðu til við matartilbúninginn í gær og mættu svo allir í fötum í fánalitunum (rauðu og hvítu) um kvöldið. Því miður gleymdum við alveg að taka myndir af því ...

5 ummæli:

  1. Sæl frábæra fjölskylda, þetta er mín þriðja tilraun í sumar til að kommenta hér á þetta bráðskemmtilega blogg en því miður hefur tæknin strítt mér við að senda langar lofræður hér inn og týnt herlegheitunum í leiðinni. Nú hef ég á nýjan leik safnað kjarki í að reyna í þriðja sinn nokkuð vongóð um að allt er þá þrennt er! :D

    Fyrst langar mig að segja að ég er hér fastagestur og kíki hér inn nánast daglega, ég var svo sniðug að þegar þið senduð mér linkinn í e-mail þá dreif ég mig í að setja þetta bara strax inn hjá mér í favorites stikuna á vafraranum. Svo í hvert sinn sem ég fer í tölvuna þá blasir við mér tengillinn "Panama" mitt á milli "FB" og "KB" (banka) svo þetta er orðið partur af mínum daglega netrúnti :D Það er alveg frábært að fylgjast svona með ferðum ykkar og daglegu lífi og skoða myndir og myndskeið.

    Héðan er annars allt gott að frétta. 3ja mánaða sumarfríið mitt líður senn undir lok (ekki NEMA 3 vikur eftir) :D. Veisluhöld hafa einkennt þetta sumar, fyrst ferming heimasætunnar, (takk fyrir fallegar kveðjur af því tilefni), útskrift Jóhönnu Bjarkar, flott stelpupartí og svo fórum við fjölskyldan með henni í brunch á nítjándu hæðina, þar sem við áttum góða stund saman. Hápunkturinn var svo auðvitað brúðkaup Hildar og Helga í alveg rjómablíðu eins og best gerist á fróni. Síðast en ekki síst voru svo sumarleikarnir þar sem ykkar var auðvitað sárast saknað. Veðrið var þó ekki eins gott og oft áður en þrátt fyrir hörmulega spá fyrir helgina rættist úr veðrinu á sjálfan keppnisdaginn og sólin lét meira að segja sjá sig. Pollagallar sem nær öll ættin var búin að fjárfesta í voru því óþarfir. Margir gerðu langa helgi úr þessu og þrátt fyrir skítaveður gistu við þarna 5 fjölskyldur á tjaldsvæðinu við Hlíðarsel, Gummi B, Jóhanna K, Halli, Hildur, Heimir og fjölskildur. Margir aðrir keyrðu þó á milli og nokkrir gistu eina nótt inni í bústað. Frábær helgi að vanda.

    Núna um helgina var fiskidagurinn á Dalvík og var slegið met þar í aðsókn, nærri 40 þúsund manns sóttu hátíðina að þessu sinni og ég held ég hafi aldrei séð jafn þéttar tjaldbúðir áður. Svo skildist mér að sama dag hafi um 90 þúsund manns tekið þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík, samanlagt hefur því hálf þjóðin verið annaðhvort í miðbæ Reykjavíkur eða á Dalvík.

    Jæja, þá er að krossa putta og vona að í þetta sinn sendist þetta inn án vandkvæða, en núna hef ég sýnt smá fyrirhyggju og coperað textann svo ég týni honum nú ekki alveg. Alveg ótrúlegar gáfur á ferð hér!

    Bestu kveðjur úr nepjunni að norðan.
    Linda

    SvaraEyða
  2. YEEEEEESSSSSSSSSSSSS!!!!!!!!

    SvaraEyða
  3. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  4. Það er svo skemmtilegt að lesa þessa pistla frá ykkur, veltist oft um af hlátri
    bestu kveðjur

    SvaraEyða
  5. Þessi lýsing á ferð ykkar í bankann minnti mig á þegar ég sem námsmaður á Ítalíu var að skipta ávísun frá elsku pabba. Í fyrsta skiptið þurfti ég að snúa frá af því að ég var ekki í réttum banka, næst vegna þess að það var síðdegi en ávísunum er bara hægt að skipta fyrir hádegi og þriðja skiptið af því að ég fór í útibú en ekki höfuðstöðvar. Það var því ekki fyrr en í 4ja skiptið sem mér tókst að skipta ávísuninni ;-)

    SvaraEyða