þriðjudagur, 29. desember 2009

Hvernig voru jólin hér?

Nokkrir hafa spurt mig hvernig það hafi verið að halda jól hér í Langbortistan. Jólin er jú hátíð fjölskyldunnar og við erum hér “ein í útlöndum”. Auðvitað söknum við fjölskyldunnar en það er langt síðan að ég uppgötvaði að jólin koma til okkar hvar sem við erum stödd í heiminum.

Aðfangadagur hófst með hringingu vekjaraklukkunnar kl. sex. Eftir að hafa farið í sturtu og kíkt á netmiðlana bjó ég til botninn í límónuköku kvöldsins. Áður en ég fór til vinnu afhenti ég Lupé jólagjöfina sína sem ég hafði pakkað vandlega inn kvöldið áður. Ásamt henni fékk hún dollara í jólakorti sem þakkir fyrir vel unnin störf á árinu sem er að líða.

Unnið var til hádegis en tíminn leið ljúflega með jólastemninguna á Rás 2 í eyrunum. Um miðjan morguninn héldu starfsmennirnir á skrifstofunni sameiginlega jólaveislu svo ég gekk mett heim á leið rétt fyrir hádegi. Þá var stutt í að kirkjuklukkurnar hringdu jólin inn á Íslandi svo ég hringdi í nokkra fjölskyldumeðlimi með hjálp Skype forritsins og óskaði þeim gleðilegra jóla.

Eftir að ég hafði hrært kremið og sett á límónukökuna var komið að meistarakokknum Reyni og aðstoðakokknum honum Birki að taka yfir eldhúsið og steikja endurnar eftir kúnstarinnar reglum. Ég lét mig hverfa út í sólbað. Dúllaði mér svo við að vökva blómin og áður en ég vissi af var ég farin á kaf ofan í blómabeðin að reita arfa. Þegar mér var orðið óhætt aftur í eldhúsinu, bætti ég síðasta laginu á kökuna og skreytti.

Eftir að hafa lagt á borð, skruppum við Birkir í ræktina, hann hjólaði og ég hljóp 7 km á fínum tíma. Fínt að eiga inni fyrir jólamatnum.

Þá tóku við fastir liðir eins og venjulega, þ.e. jólabaðið, dásamlegur jólamatur á slaginu klukkan sex, uppvask, jólagjafir (sem bárust korteri fyrir jól!), yndisleg jólakort frá vinum og fjölskyldu og íslenskt nammi í skál.


Birkir ánægður með íslenska nammið sem kom upp úr einum jólapakkanum.

Sjálfur jóladagurinn leið eins og vera ber, á náttfötum með bækur og súkkulaði. Seinni partinn var okkur boðið í jólaboð til hollenskra vina okkar ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Þar fengum við dýrindis indónesískan mat.


Gestir og gestgjafar úti á verönd.


Yngsti veislugesturinn var aðeins 2 vikna. Stoltur bróðir og vinkona horfa á litlu Paulinu í fangi Reynis.

P.S. Á öðrum í jólum lá ég við sundlaugina með nýju bókina hans Henning Mankells. Bókin er ekki beint jólaleg en góð er hún.

1 ummæli:

  1. Hjólatúrarnir og líkamsræktarferðir hafa greinilega skilað góðum árangri hjá ykkur. Bestu áramótakveðjur.

    SvaraEyða