Í dag var tekið manntal í Panama. Öllum íbúum landsins var gert að vera heima hjá sér þangað til búið var að telja þá. Þetta vakti ekki mikla lukku hér í campnum og fólk tuðaði yfir því að þurfa að vera heima á sunnudegi. Ég lét því lítið bera á ánægju minni yfir að fá að taka þátt í þessum merkilega viðburði. Hef sennilega verið eina manneskjan á svæðinu sem þótti manntalið vera svona gasalega áhugavert (vinnuskaði). Ekki var fólki alveg treyst til að vera heima hjá sér að fúsum og frjálsum vilja því okkur var sagt að lögreglan myndi handtaka alla þá sem ekki gætu framvísað þar til gerðri sönnun á því að þeir hefðu verið taldir.
Við gátum kynnt okkur spurningarnar fyrirfram því í síðustu viku sendi aðalskrifstofan okkur enska útgáfu af spurningalistanum. Honum fylgdi leiðbeiningar og svör við nokkrum sameiginlegum spurningum eins og til dæmis úr hvaða efni húsin okkur væru byggð. Ég hefði getað útilokað stráþök og moldargólf en ekki mikið meira svo það var fínt að fá þau svör fyrirfram.
Sumar spurningarnar myndu seint sjást í íslensku manntali því lítill áhugi er til dæmis að vita um ræktun grænmetis eða húsdýraeign Íslendinga. Eins þarf varla að spyrja þá hvort þeir hafi aðgang að drykkjarvatni innanhúss eða vatnssalerni.
Klassískar spurningar var þó að finna innan um – þær voru bara ekki orðaðar á hefðbundinn hátt. Það var til dæmis ekki spurt um ríkisfang heldur: „Í hvaða landi bjó móðir þín þegar þú fæddist?“. Konur voru líka spurðar hvort þær hefðu eignast börn á síðustu 12 mánuðum og þá hvort þau væri ennþá lifandi. Hér er verið að kanna ungbarnadauða en hann er einn af þeim alþjóðlegu mælikvörðum sem við notum til að mæla velmegun þjóða.
Sumar spurningar þóttu okkur skondnari en aðrar en ástæðan var þó oft léleg ensk þýðing. Til dæmis eftirfarandi spurningar um heilsu: „Still with deft earphones do you have earring problems?“ Og: „Still using eyeglasses, do you have seen problems?“
Að lokum eitt mikilvægt atriði sem við þurftum að ræða hér á heimilinu áður en talningarfólkið kom en það var hver væri höfuð fjölskyldunnar. Spurningalistinn var nefnilega þannig uppbyggður að fyrst var höfuð fjölskyldunnar tilgreint og svo þar á eftir allir aðrir á heimilinu. Við hvert nafn voru síðan tilgreind tengsl viðkomandi við höfuð fjölskyldunnar. Öll svör okkar eru auðvitað trúnaðarmál :-)

Hér situr
Yajaira Y. Joseph og spyr Reyni spjörunum úr.

Bleikur miði var límdur á öll hús að lokinni talningu.
Ég fann því miður ekki spurningalistann á heimasíðu
Censos Nacionales 2010 en ég get sent hann áhugasömum.