mánudagur, 31. maí 2010

Risaskjaldbökur

Í ágúst í fyrra gistum við eina nótt á Playa Bluff Lodge sem er lítið strandhótel á Colon eyju (Bocas) sem er hér rétt fyrir utan. Gestgjafarnir sögðu okkur þá frá risaskjaldbökum (e. leatherback turtles) sem grafa egg sín í holur á ströndinni í apríl og maí á hverju ári. Þær koma annað hvert ár og leggja 6-7 sinnum á ströndinni með nokkurra daga millibili. Í hvert sinn leggja þær um 90 egg svo hver skjaldbaka leggur um 600 egg annað hvert ár. Ungarnir klekjast svo út þremur mánuðum seinna og skríða út í hafið. Skjaldbökurnar koma svo ekki aftur fyrr en tuttugu árum seinna þegar þær eru orðnar kynþroska. Þær verða risastórar og allt að 120 ára. Stærsta skjaldbakan sem gestgjafarnir sögðust hafa séð var um 600 kg og á stærð við Volkswagen bjöllu. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Alla vega þá sigldum við út í eyjuna einn laugardag í maí til að freista þess að sjá risaskjaldbökur. Um klukkan hálf níu um kvöldið gengum við niður á strönd en þá var komið niðamyrkur og skyggnið því takmarkað. Við máttum ekki nota vasaljós því skjaldbökurnar koma ekki upp úr hafinu ef þær sjá ljós. Fljótlega sáum við eina skríða upp á land og byrja að leita sér að hentugum stað til hreiðurgerðar. Við héldum okkur í hæfilegri fjarlægð og biðum eftir því að hún færi að leggja eggin en þá fara þær í trans og óhætt að nálgast þær. Því miður þá fylltist holan sem skjaldbakan var byrjuð að grafa af sjó og hún hætti við og skreið aftur út. Við sáum því miður ekki fleiri þetta kvöld en háflóð var og mikill öldugangur. Við fréttum seinna að engar skjaldbökur hefðu lagt egg í nokkra daga vegna þessa. En við sáum eina þó hún hafi verið á „hraðferð“.


Við gátum ekki tekið neinar myndir í myrkrinu svo ég fékk þessa lánaða af heimasíðu Playa Bluff hótelsins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli