Nefndin fór strax í málið en komst að þeirri niðurstöðu að til að gera þetta almennilega þyrfti meira fé en við höfðum. Því var fleiri sjóðum stefnt saman og ákveðið að kaupa búnað fyrir yngri flokka í Almirante. Þörfin er mikil. Það er ekki mikið við að vera og nefndin sem við hittum upplýsti að hafnaboltaiðkun væri í raun eina afþreyingin og mikilvæg til að halda krökkunum frá eiturlyfjum og annarri óáran. Það var því mikil ánægja með stuðninginn.
Þegar öllu var slegið saman var keyptur búnaður fyrir um 2.000 dollara. Fyrir það fengust treyjur á um 60 krakka, hjálmar, kylfur, boltar og annað það sem til þarf í þessa íþrótt.
Það var svo á sunnudagsmorgni klukkan níu að fulltrúar gefenda voru kallaðir til hátíðarhalda á hafnaboltavellinum í Almirante. Okkur brá nú svolítið þegar við sáum umfangið. Þarna var mikill hópur barna, þjálfarar, fulltrúar íþróttahreyfingarinnar, presturinn og fulltrúar Lion klúbbsins í Almirante.
Krakkarnir í nýju búningunum sínum.
Fyrst var farið í skrúðgöngu um bæinn, öll hersingin í lögreglufylgd.
Nokkuð er síðan við höfum farið í skrúðgöngu en við vorum sett fremst fyrir aftan fánabera og ýlfrandi lögreglubíl. Eitthvað hefðu Íslendingar nú sagt ef þeir hefðu verið vaktir með sírenum snemma á sunnudagsmorgni!
Þessi stóð við vegarkantinn en hér þykir ekkert tiltökumál að viðra sig með rúllur í hárinu.
Við inngang vallarins var hægt að kaupa mangó í poka sem í hafði verið bætt sykri og sætum safa.
Þegar komið var tilbaka á völlinn, hófst hátíðin. Ræður voru haldnar af prestinum, fulltrúa íþróttahreyfingarinnar, Lions manni og Leilu sem er í forsvari fyrir ungmennadeildina. Fulltrúi okkar hélt líka stutta tölu. Það var augljóst á öllu saman að þakklætið var mikið og við vorum líka stolt af að hafa getað aðstoðað í svona góðu málefni hér í nágrenninu.
Að hátíðarhöldunum loknum hófst keppni milli liðanna. Þessir eru greinilega mjög efnilegir.