sunnudagur, 14. júní 2009

Kaupstaðarferð

Changuinola (borið fram Tjanginóla) er í um hálftíma fjarlægð frá staðnum sem við búum. Til að komast þangað keyrum við niður um "fjöll og firnindi", þ.e.a.s. svona krókóttan fjallaveg. Þegar verið er að útskipa bönunum þá keyra stórir gámabílar líka þennan veg því þeir flytja banana frá plantekrunum við Changuinola til hafnarbæjarins Almirante. Þetta eru víst flutningabílar sem ekki ná skoðun lengur í Bandaríkjunum og því í mismunandi ásigkomulagi. Ekki alveg víst alltaf hvort þeir drífi upp lengstu brekkurnar.

Tilgangurinn með kaupstaðarferðinni er að versla. Aðalbúðin á svæðinu heitir Wolf Mall og er svona eins og kaupfélögin í gamla daga þar sem öllu ægir saman. Þarna er fjórhjólum stillt upp við hliðina á karlmannanærbuxum (kannski bara lógískt :-)) og hækjurnar eru hjá íþróttavörunum. Það truflar aðeins Íslendinginn að um leið og komið er inn í búðina þá fylgir manni starfsmaður. Það er sem sagt stelpa sem gengur í humátt á eftir manni (innan við 2 metra fjarlægð) og tekur og heldur á vörunum sem maður vill kaupa (einskonar innkaupakarfa). Þegar maður gefur svo til kynna að innkaupunum sé lokið þá fer hún með vörurnar á kassann og las upp verðin fyrir stúlkuna á kassanum. Þetta telst víst til góðrar þjónustu ... :-)


Götumynd frá Changuinola.

2 ummæli:

  1. Karlmaðurinn í mynstraða gula dressinu er eins og maður gæti ímyndað sér týpískan Jamaika búa, ekki það að ég hafi einhvern tímann séð slíkan íbúa ;-) Skemmtilegt hvað klæðnaðurinn er litskrúðugur.

    SvaraEyða
  2. Já, enda gæti hann vel verið frá Jamaika. Við rákumst á þetta fólk dansandi eftir aðalgötunni - afhverju vitum við ekki.

    SvaraEyða