mánudagur, 12. júlí 2010

Havanavindlar

Ætli Havanavindlar séu ekki frægustu vindlar í heimi. Þeir eru ásamt rommi og sykri ein af aðalframleiðsluvörum Kúbu. Vindlarnir eru allir handgerðir og seldir dýrt. Einn af hápunktum ferðarinnar voru heimsóknir í tvær vindlaverksmiðjur og á bóndabæ þar sem tóbak er ræktað. Því miður var algjörlega bannað að taka myndir inni í verksmiðjunum svo við eigum engar myndir úr vinnslusölunum þar sem vindlarnir eru vafðir, pressaðir, merktir og pakkaðir. Í stærri verksmiðjunni unnu um 250 manns við að vefja vindlana í einum stórum sal. Þeir máttu reykja að vild í vinnunni og taka þrjá vindla með sér heim að loknum vinnudegi. Hver starfsmaður vefur á milli 80-120 vindla á dag, allt eftir stærð og gerð.

Það vakti athygli mína að tónlist hljómaði um salina og flestir sungu við vinnuna. Í minni verksmiðjunni var engin slíkur lúxus en aftur á móti var sérstakur “lesari” en hans hlutverk var að lesa upphátt úr dagblöðum o.fl. hinum starfsmönnunum til skemmtunar.

Meðal frægra Havanavindla má nefna Montecristo, Romeo Y Julieta og Cohiba en þeir síðast nefndu þykja þeir fínustu. Þeir voru upprunalega aðeins gerðir fyrir þjóðhöfðingja og annað forréttindafólk. Castro reykti aðeins Cohiba þangað til hann varð að hætta að reykja af heilsufarsástæðum. Ódýrustu Cohiba vindlarnir kosta um 4 dollara en það er hægt að fá þá upp í 35-40 dollara (um 5.000 krónur).


Þetta hús hýsir eina stærstu og elstu vindlaverksmiðju á Kúbu en hún var opnuð árið 1845 af Spánverjanum Partagas. Í dag vinna þar um 450 manns.


Eitt af þurrkhúsum bóndabæjarins sem við heimsóttum. Bændurnir eiga jörðina en eru skyldugir til að selja ríkinu tóbaksblöðin á fyrirfram ákveðnu verði. Það tekur sex mánuði á ári að rækta tóbakið en hina sex mánuðina mega bændurnir rækta (og selja) það sem þeir vilja. Svona hefur fyrirkomulagið verið síðan jarðirnar voru þjóðnýttar eftir byltunga og afhentar núverandi eigendum /bændum.


Útikamar á bak við þurrkhúsið.


Ung tóbaksjurt.


Annað þurrkhús.


Svona eru blöðin þurrkuð.


Skoðunarferðinni lauk með smá sölusýningu þar sem hægt var að kaupa heimaframleiðslu á góðu verði. Eigandinn stendur fyrir aftan og sýnir hvernig kveikja á í vindlum.

Kúbumenn eru stoltir af vindlunum sínum og reykingar mjög algengar. Allir reyktu alls staðar. Svo fyrir reykingamenn er Kúba sælustaður. Ég tala nú ekki um þá sem finnst romm og kók líka gott.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli