Heimsókn okkar á kaffiplantekru í
Boquete var ákaflega skemmtileg. Það var ekki síst leiðsögumanni okkar, Carlosi, að þakka en hann var hafsjór af fróðleik um kaffiræktun enda uppalinn á plantekrunni. Carlos er indjáni af Ngöble-Buglé ættflokknum og byrjaði aðeins tíu ára að tína ber af kaffitrjánum.
Cafe Ruiz er stór vinnustaður þar sem fastir starfsmenn eru um 200 en auk þess vinna um 600 indjánar við berjatínslu frá október til mars á hverju ári. Berin eru handtínd þegar þau eru orðin rauð en það tekur sex mánuði frá því að fyrstu berin roðna þangað til þau síðustu er tínd.

Kaffitré með ber. Hér er aðeins eitt ber orðið rautt.
Þegar berin hafa verið tínd er baununum fyrst smokrað úr aldinkjötinu (sem er sætt og bragðgott), síðan eru baunirnar þvegnar og þurrkaðar. Þær eru látnar eldast í 2-3 mánuði og síðan tvö önnur lög fjarlægð utan af baunum áður en hin endanlegu grænu baunir verða tilbúnar til brennslu. Fyrirtækið framleiðir aðeins lítið magn af fullunnu kaffi sjálft en selur 2.500 tonn af grænum baunum á ári.
Kaffitrén geta orðið tvö hundruð ára gömul og bera fyrstu berin 6 ára. Þau geta orðið 6 metrar á hæð en til að halda þeim í "mannhæð" eru þau snyrt á nokkurra ára fresti.

Indjánar að störfum. Dagslaunin fyrir gott tínslufólk er 18-20 dollarar sem er vel yfir meðallaunum Panamabúa. Börn þurfa að vera orðin 14 ára og mega ekki vinna nema í skólafríum.

Verksmiðjan þar sem baunirnar eru þvegnar, þurrkaðar og flokkaðar.
Það sem kom mest á óvart var hversu mikil áhersla er lögð á lífræna ræktun og virðingu fyrir náttúrunni. Árangurinn er líka heimsins besta kaffi. Þegar Carlos fullyrti þetta, hugsaði ég fyrst: „Já, já, den er god med dig“ eins og maður segir í Danaveldi og hélt að stolt hans á fyrirtækinu væri farið að lita fræðsluna eilítið. En það kom í ljós að kaffið þeirra hafði verið valið besta kaffið á heimsmeistaramóti árið 2001. Þrisvar sinnum síðan hefur panamískt kaffi unnið titilinn svo kannski er eitthvað sérstakt við frjóan jarðveginn í hlíðum
Barú eldfjallsins.
En þrátt fyrir mikla hefð og að kjörnar aðstæður til kaffiræktunar í nágrenni
Boquete þá hefur framleiðslan minnkað undanfarin ár. Ástæðan er sú að bærinn komst ofarlega á lista í Bandaríkjunum yfir góða staði til að eyða elliárunum. Gamlingjarnir hafa því flykkst til
Boguete, keypt land, sest að og eru nú orðnir 30% bæjarbúa. Þeir búa í litlum innilokuðum samfélögum, svokölluðum „gated communities“. Sagan segir að þeir borgi frekar fyrir enskukennslu fyrir þjónustufólkið heldur en að leggja á sig að læra spænsku.

Sveitaklúbbur með hliði.
Ríku Evrópubúarnir loka sig ekki af heldur kaupa sér stór hús. Í þessum kastala búa hollensk hjón.
Að lokum sagði Carlos okkur að hann drykki alltaf kaffið sitt svart og sykurlaust því það hlyti að vera eitthvað að kaffi sem þyrfti að bragðbæta með slíku :-)