laugardagur, 31. október 2009

Hrekkjavaka



Í gær var haldið upp á hrekkjavöku að amerískum sið. Börnin mættu á skrifstofuna í grímubúningum og báðu um nammi. Þau sungu þó ekki líkt og gert er á öskudaginn á Íslandi.

Um kvöldið var hrekkjavaka fyrir hina fullorðnu. Klúbburinn skreyttur og nokkrir í búningum.


Rose (frá Frakklandi), Maria (frá Perú), Aurora (frá Eretríu) og Marcia (frá Hollandi).

Um hrekkjavöku (tekið úr Wikipediu)
Hrekkjavaka er hátíðisdagur ættaður úr keltneskri trú. Drúídar færðu þá þakkir fyrir uppskeruna og boðuðu komu vetursins. Hrekkjavaka er haldin 31. október, kvöldið fyrir Allraheilagramessu.

Mörk heima hinna lifandi og hinna dauðu voru óljós þennan dag og draugar og aðrar óvættir voru taldar sveima um og voru því bálkestir kveiktir til að vernda hina lifandi. Drúídarnir dulbjuggu sig til að þekkjast ekki og buðu óvættunum mat og drykk til að friðþægja þær.

Hrekkjavöku fylgdu ýmsar hefðir, leifar sumra þeirra lifa í hrekkjavöku nútímans þar sem fólk klæðist grímubúningum og sjá má drauga og aðrar óvættir í skreytingum. Börn ganga oft á milli húsa og biðja um nammi, og fái þau það ekki kasta þau oft eggjum í hús þeirra sem ekki gefa þeim.

Féþúfa og skattstofn

Ein er sú féþúfa eða skattstofn sem illa hefur verið nýttur á Íslandi til þessa en það eru sérstakir skattar og gjöld á nýbúa og innflytjendur. Hljómar reyndar heldur illa á skandinavísku. Á Íslandi taka menn andköf þegar og ef á slíkt er minnst eða þegja þunnu hljóði enda stenst þetta ekki ítrustu norrænu staðla.

Hér í Panama hefur þessi féþúfa eða skattstofn verið uppgötvaður og er vel nýttur og plægður í botn – við finnum það nýbúarnir. Þetta er skattlagning hinna ýmsu réttinda. Landvistarleyfi, ökuskírteini, vinnuvélaréttindi og þar fram eftir götum. Það skiptir engu máli þó þú megir keyra jarðýtu heima. Til að nýta réttindin hér þarftu að standa í röð, þegja og borga – ítrekað og reglulega.

Ökuskírteini mitt frá Íslandi sem gildir til sjötugs eða yfir tuttugu ár héðan í frá fyrir mig, gildir í þrjá mánuði í Panama. Eftir það rennur það út og ég er án ökuréttinda. Engin alþjóðaskírteini eða slíkt gilda hér enda ástæðulaust.

Við þurftum að senda okkar íslensku ökuskírteini til ræðismanns Íslands í Panma City til staðfestingar á að þau væru gild. Mánuði seinna fengum við panamískt ökuskírteini sem gildir í 3 mánuði og kostar 5.200 krónur. Við mætum á kontórinn í Changuinola, bíðum, borgum við kassa eitt, tökum heyrnarpróf og sjónpróf og fáum skírteini sem gildir í þrjá mánuði.

Í fyrsta skiptið sem ég fékk panamískt ökuskírteini gekk það áfallalaust fyrir sig en þá var ekki hægt að setja A-ið sem er hluti af vegabréfsnúmerinu á skírteinið. Síðan þá er búið að skipta um kerfi þannig að nú er það hægt. En þá voru góð ráð dýr – númerið á gamla skírteininu var ekki það sama og stóð í vegabréfinu - það vantaði A-ið! Það var því ekki hægt að endurnýja skírteinið þann daginn. Það tók 7 daga að kippa þessu í liðinn og á meðan var ég réttindalaus.


Nýbúar dagsins að bíða eftir próftöku og mælingum. Anna og Birkir eru í öftustu röð.

Sem sagt 5.200 krónur á þriggja mánaða fresti eða 20.800 krónur á ári. Það gera einungis 208 milljónir á ári ef um er að ræða 10.000 nýbúa sem þurfa að aka og halda réttindum sínum. Við þurfum líka að endurnýja landvistarleyfið á sama hátt á þriggja mánaða fresti og borga stórfé fyrir. Er þetta ekki eitthvað fyrir nýja Ísland?

mánudagur, 26. október 2009

Kántrýpartý

Hin nýstofnaða skemmtinefnd sýndi hvers hún er megnug þegar hún skipulagði kántrýpartý á laugardagskvöldi. Undirbúningurinn stóð yfir í marga daga og meira að segja staðarstjóri verkkaupans, sem er Texasbúi í húð og hár, útvegaði uppskriftina af barbeque sósunni.

Allir mættu í sínu fínasta kúrekapússi en þar sem ekki allir geta gengið að kúrekahöttunum vísum upp í skáp renndu nokkrir sér niður fjallshlíðina og fjárfestu í hatti og köflóttri skyrtu í Úlfakringlu (e. Wolf Mall) í Changuinola.



Það er skylda að gera grín af stjórnendum á svona skemmtikvöldum. Þeir voru allir eftirlýstir en mjög mismunandi verðmætir.


Minn maður var dýr.

Það voru hestar fyrir börnin að ríða á og "ótemjur" fyrir fullorðna fólkið.


Að tolla á baki er erfiðara en það lítur út fyrir að vera. Daginn eftir heyrði ég fólk kvarta um eymsli á ýmsum stöðum.


Boðið var upp á dansatriði í anda kvöldsins.

Kvöldinu lauk fyrir suma í sundlauginni en þá vorum við auðvitað löngu farin að sofa ...

miðvikudagur, 21. október 2009

Súkkulaði

Birkir tók sig til fyrir tveimur mánuðum og tíndi kakóbelg af tré niður á vinnusvæði og kom með heim. Hann langaði til að prófa að framleiða súkkulaði. Úr belgnum hreinsaði hann kakóbaunirnar, sem hann hefur síðan geymt og meðhöndlað eftir kúnstarinnar reglum. Upplýsingarnar um ferlið fann hann á netinu.


Hér er Birkir við grillið fyrr í vikunni.

Í tvo mánuði hefur hann síðan meðhöndlað kakóbaunirnar. Fyrst voru þær hreinsaðar úr belgnum og gerjaðar í tvær vikur. Síðan voru baunirnar þurrkaðar og eftir 6 vikur voru baunirnar malaðar í mauk. Í fyrrakvöld tilkynnti Birkir síðan að hann væri búinn að framleiða súkkulaði sem hann leyfði okkur að smakka.


Heimaframleitt 100% súkkulaði.

Frumsúkkulaðið bragðaðist mjög biturt en með klárum súkkulaðikeim. Í gærkveldi var það síðan brætt og í það bætt sykri og rjóma. Miklu af sykri. Við urðum undrandi á hversu miklu af sykri og rjóma þarf að bæta í til að framleiða rjómasúkkulaði.

sunnudagur, 18. október 2009

Dýraathvarfið

Í seinni skoðunarferðinni í Boquete heimsóttum við eina starfandi dýraathvarfið í Panama sem vitað er um. Athvarfið hóf starfsemi sína fyrir nokkrum árum þegar bresk hjón fóru að taka að sér særð dýr eða gæludýr sem eigendur gátu eða vildu ekki eiga lengur.



Í dag er þetta eins og lítill dýragarður sem er rekinn fyrir aðgangseyri og styrki. Þarna eru aðallega fuglar og apar en líka sjaldgæfari dýr eins og Margay sem er af kattarætt.


Lottie var svolítið feimin á meðan við stöldruðum við.

Við öll búrin voru spjöld með upplýsingum um dýrin og sögur þeirra, þ.e. hvernig þau höfðu hafnað í athvarfinu. Smelltu á myndina hér fyrir neðan til að lesa sögu Lottie.




Tamarin aparnir eru litlir og sætir. Þessi hafði sætt illri meðferð sem gæludýr.


Þessir stóru Scarlet Macaw fuglar voru gæfir. Þeir komu til okkar og átu möndlur sem við réttum inn í gegnum fuglanetið. Þeir eru sjaldgæfir þar sem þeir eru mikið veiddir vegna fjaðranna.


Þessir fuglar fannst mér ótrúlega fallegir.

Þó þetta líkist dýragarði þá er megintilgangurinn að bjarga dýrum og fuglum og sleppa þeim aftur út í náttúruna svo fremi það sé hægt.

þriðjudagur, 13. október 2009

Cafe Ruiz

Heimsókn okkar á kaffiplantekru í Boquete var ákaflega skemmtileg. Það var ekki síst leiðsögumanni okkar, Carlosi, að þakka en hann var hafsjór af fróðleik um kaffiræktun enda uppalinn á plantekrunni. Carlos er indjáni af Ngöble-Buglé ættflokknum og byrjaði aðeins tíu ára að tína ber af kaffitrjánum.

Cafe Ruiz er stór vinnustaður þar sem fastir starfsmenn eru um 200 en auk þess vinna um 600 indjánar við berjatínslu frá október til mars á hverju ári. Berin eru handtínd þegar þau eru orðin rauð en það tekur sex mánuði frá því að fyrstu berin roðna þangað til þau síðustu er tínd.


Kaffitré með ber. Hér er aðeins eitt ber orðið rautt.

Þegar berin hafa verið tínd er baununum fyrst smokrað úr aldinkjötinu (sem er sætt og bragðgott), síðan eru baunirnar þvegnar og þurrkaðar. Þær eru látnar eldast í 2-3 mánuði og síðan tvö önnur lög fjarlægð utan af baunum áður en hin endanlegu grænu baunir verða tilbúnar til brennslu. Fyrirtækið framleiðir aðeins lítið magn af fullunnu kaffi sjálft en selur 2.500 tonn af grænum baunum á ári.

Kaffitrén geta orðið tvö hundruð ára gömul og bera fyrstu berin 6 ára. Þau geta orðið 6 metrar á hæð en til að halda þeim í "mannhæð" eru þau snyrt á nokkurra ára fresti.


Indjánar að störfum. Dagslaunin fyrir gott tínslufólk er 18-20 dollarar sem er vel yfir meðallaunum Panamabúa. Börn þurfa að vera orðin 14 ára og mega ekki vinna nema í skólafríum.


Verksmiðjan þar sem baunirnar eru þvegnar, þurrkaðar og flokkaðar.

Það sem kom mest á óvart var hversu mikil áhersla er lögð á lífræna ræktun og virðingu fyrir náttúrunni. Árangurinn er líka heimsins besta kaffi. Þegar Carlos fullyrti þetta, hugsaði ég fyrst: „Já, já, den er god med dig“ eins og maður segir í Danaveldi og hélt að stolt hans á fyrirtækinu væri farið að lita fræðsluna eilítið. En það kom í ljós að kaffið þeirra hafði verið valið besta kaffið á heimsmeistaramóti árið 2001. Þrisvar sinnum síðan hefur panamískt kaffi unnið titilinn svo kannski er eitthvað sérstakt við frjóan jarðveginn í hlíðum Barú eldfjallsins.

En þrátt fyrir mikla hefð og að kjörnar aðstæður til kaffiræktunar í nágrenni Boquete þá hefur framleiðslan minnkað undanfarin ár. Ástæðan er sú að bærinn komst ofarlega á lista í Bandaríkjunum yfir góða staði til að eyða elliárunum. Gamlingjarnir hafa því flykkst til Boguete, keypt land, sest að og eru nú orðnir 30% bæjarbúa. Þeir búa í litlum innilokuðum samfélögum, svokölluðum „gated communities“. Sagan segir að þeir borgi frekar fyrir enskukennslu fyrir þjónustufólkið heldur en að leggja á sig að læra spænsku.


Sveitaklúbbur með hliði.

Ríku Evrópubúarnir loka sig ekki af heldur kaupa sér stór hús. Í þessum kastala búa hollensk hjón.



Að lokum sagði Carlos okkur að hann drykki alltaf kaffið sitt svart og sykurlaust því það hlyti að vera eitthvað að kaffi sem þyrfti að bragðbæta með slíku :-)

mánudagur, 12. október 2009

Boquete

Um síðustu helgi dvöldum við í Boquete sem er bær á stærð við Akureyri og liggur í nánd við eldfjallið Barú. Bærinn liggur í 1.100 m hæð yfir sjávarmáli og loftið því kaldara og jafnframt þurrara en við eigum að venjast. Veðurfarið hentar kaffiræktun einkar vel en yfir 200 kaffiræktendur eru í nágrenni Boquete.


Yfirlitsmynd af Boquete. Greinilegt er hvar áin fór yfir bakka sína í flóðinu í nóvember í fyrra.

Við bjuggum á Hótel Panamonte sem er gamalt og virðulegt hótel með fallegum garði. Hitinn fór niður í 20 gráður á nóttunni svo við sváfum með opna glugga og án loftkælingar. Yndislegt.


Garðurinn við hótelið. Gengið var inn um hurðina til vinstri inn í Birkis herbergi. Við Reynir vorum í brúðkaupssvítunni á efri hæð aðalbyggingarinnar.

Við fórum í tvær hálfsdags skoðunarferðir, aðra á kaffiplantekru og hina m.a. upp í Skýjaskóg (e. Cloud Forest). Við fórum upp í 1.800 m hæð að inngangi Vulcan Barú þjóðgarðsins en þar eru mjög vinsælar gönguleiðir upp á eldfjallið sem er hæsta fjall landsins, 3.478 m (Hvannadalshnjúkur er 2.110 m).


Reynir í upprenndum jakka við hús þjóðgarðsvarðarins. Til vinstri sést í horn opna jeppans sem við keyrðum í upp fjallið.

Á leiðinni keyrðum við framhjá þessum yfirgefna kastala en sagan segir að Bandaríkjamaður hafi byggt hann handa innfæddri konu sinni. Honum þótti hún svo fögur að ekkert minna en kastali hæfði henni. Þessi prinsessusaga endar þó ekki vel því unga konan dó á vofvægilegan hátt og hefur gengið aftur í kastalanum síðan. Niðurbrotinn eiginmaðurinn flutti í burtu og hefur ekki sést síðan. Sagan er alla vega góð.


Hér er ekki gott að vera á ferð eftir að dimma tekur.

Á leið inn í bæinn aftur heimsóttum við garð sem er í einkaeigu en hefur verið opinn almenningi í 15 ár. Hann er kallaður "mi jardin es su jardin" eða "garðurinn minn er garðurinn þinn" og er mikið listaverk. Það er svo smekksatriði hvort manni finnst vera farið yfir strikið með blómamálaðar kýr og aðrar furðuverur inn á milli blómanna.




Ef vel er gáð er hægt að sjá fegurðardís í sólbaði til hægri við jólatréð.

þriðjudagur, 6. október 2009

Á hárgreiðslustofunni

Mér finnst mikið mál að skipta um hárgreiðslustofu. Geri það í mesta lagi á nokkurra ára fresti því mér finnst svo þægilegt að setjast í stólinn hjá einhverjum sem „þekkir“ hárið mitt. Ég hafði því dregið að fara í klippingu en eftir 4 mánuði var klippingin vægast sagt orðin úr sér gengin og strípurnar komnar niður að eyrum. Ekki hefur rakinn í loftinu hjálpað og greiðslan því yfirleitt verið úfið hár sem stundum hefur þróast út í krullur.

Auðvitað er hægt að fara í klippingu hér í nágrenninu en það er meira svona „allt af“ aðferðin sem er notuð. Um daginn þegar fjölskyldan ákvað að skreppa til Panamaborgar ákvað ég því að reyna að komast í klippingu. Ég hafði heyrt að besta hárgreiðslustofan væri á El Panama hótelinu og "karlmaðurinn" væri bestur að klippa. Ég bað því Joanne, mótttökuritara og allsherjar reddara, að hringja og panta tíma fyrir mig í klippingu og hugsanlega strípur. Það kom í ljós að þeir eru tveir karlmennirnir sem vinna á stofunni, þeir Pascual og Adolfo. Ég vissi ekki hver væri aðalmaðurinn svo ég sagði það ekki skipta máli hvor þeirra myndi klippa mig.

Til að gera langa sögu stutta settumst við hjónin í sinn hvorn stólinn snemma á laugardagsmorgni og létum klippa okkur. Reynir sat mun styttra og kvaddi fljótlega. Adolfo var minn maður en talaði því miður litla sem enga ensku. Eftir nokkurt handapat komumst við að þeirri sameiginlegri niðurstöðu að hann setti í mig „highlights“. Mér varð svolítið órótt þegar hann fór að blanda lit án þess að ráðfæra sig frekar við mig. Ég reyndi þá að nota nokkur af þessum fáu orðum sem ég kann í spænsku og bað um liturinn yrði ekki of ljós. Adolfo sýndi mér þá litakort en fannst litaval mitt greinilega eitthvað ábótavant því hann breytti litablöndunni ekkert í kjölfarið.

Þar sem ég sat í stólnum með krosslagða fingur undir slánni og vonaði hið besta þá kom Pascual, hinn karlmaðurinn, til vinnu. Eftir honum beið viðskiptavinur sem hann heilsaði og kyssti á báðar kinnar. Pascual var með litla hlíf yfir nefinu sem hann tók niður og sýndi viðskiptavininum hróðugur að því virtist nýlagað nef. Eftir handapatinu að dæmi hafði hann látið sprauta í nokkrar hrukkur í leiðinni. Viðskiptavinurinn var lagður í bleyti með næringu í hárinu og á meðan notaði Pascual tímann til að laga hárið og setja á sig andlitið. Fyrst var það dagkrem, síðan litað dagkrem og loks púður. Það var vandað til verksins og allir speglar stofunnar notaðir.

Ég var svo upptekin við að fylgjast með umhverfinu að ég tók ekki eftir að Adolfo hafði tekið upp snyrtidótið og áður en ég vissi af var hann búinn að púðra yfir andlitið. Síðan lagaði hann aðeins varalitinn og setti á mig maskara. Klipping er greinilega ekki bara klipping hér. Áhersluatriðin eru líka ólík því sem ég á að venjast því sjálf klippingin tók ekki nema 3-4 mínútur en blásturinn 15 mínútur!

Tveimur tímum eftir að hafa sest í stólinn gekk ég svo út nýsnyrt með passíuklippingu í lengri kantinum og ágætis strípur :-)