miðvikudagur, 17. febrúar 2010

Las Vegas

Aldrei hefði mér nú dottið í hug að fyrsta ferð mín til Bandaríkjanna yrði til Las Vegas. Tilgangur ferðarinnar var þó ekki að stunda fjárhættuspil heldur að fara á tónleika snillingsins Carlos Santana þar sem hann spilaði í The Joint in Hard Rock Hotel. Tónleikarnir stóðu fullkomlega undir væntingum og alls ferðalagsins virði en einn og hálfan sólarhring tók að komast úr sveitasælunni til borg syndanna.


Útsýnið var flott frá Las Vegas Hilton hótelinu.


Konungur rokksins, Elvis Presley, bjó á hótelinu í 8 ár þar sem hann hélt 837 tónleika og skemmti 2,5 milljónum manna.

Strax fyrsta morguninn gengum við á the Strip sem er aðalgatan og hótelin standa í röðum. Hótelin hafa flest sérstök þema sem tengjast yfirleitt öðrum borgum eða frægum stöðum. Hér er því að finna smækkaðar myndir af New York, París, Feneyjum og Lúxor til að nefna nokkrar.


New York í smækkaðri mynd.


Ljón MGM kvikmyndaversins.


Gondólarnir að sigla á síkjum "Feneyja".


Markúsartorgið í Feneyjum. Hér gæddum við okkur á ekta ítölskum ís á meðan við hlustuðum á óperutónlist. Athugið að himininn er málaður í loftið.

Seinna kvöldið borðuðum við á veitingastaðnum í Eiffel turninum við Parísarhótelið. Turninn er nákvæm eftirlíking Eiffel turnsins í París, bara helmingi lægri. Þaðan var útsýni yfir hina frægu Balagio gosbrunna ... í miðri eyðimörkinni. Það er einkar lýsandi fyrir borgina þar sem allt virðist vera hægt að fá og allt er of stórt og mikið einhvern veginn. Við erum rétt farin að geta lokað munninnum aftur eftir að hafa haft kjálkann meira og minna niður á bringu þessa tvo daga. Við getum þó ekkert sagt frá spilavítunum þar sem við spiluðum aðeins upp á 1 dollara í allri ferðinni (og töpuðum).


Hér er að lokum mynd af Birki með tveimur yngismeyjum sem hössluðu hann af götunni til að taka myndir af honum í vafasömum stellingum og selja honum síðan fyrir "million bucks".

2 ummæli: