miðvikudagur, 17. mars 2010

Skilti við veginn

Þegar við þeytumst um þjóðvegina sjáum við töluvert af skiltum. Fæst eru þó eiginlegir vegvísar svo auðvelt er að villast. Við höfum meira að segja rekist á skilti sem vísaði í aðra átt en þá réttu. Þá vorum við að leita að flugvellinum í David og þóttumst fara vel eftir skiltunum. Eftir nokkurt hringsól datt okkur í hug að láta vísa okkur veginn á annan hátt. Eitt okkar stoppaði leigubíl og bað bílstjórann um að keyra sig á flugvellinn og við hin eltum. Og viti menn, leigubíllinn beygði þar sem skiltið sagði beint áfram ... eða var það öfugt?

Öll þorp við þjóðvegina eru þó velmerkt. Séð með gestsaugum eru sum bæjarheitin skemmtilegri en önnur.


Ætli þessi bær sé vinabær Silicon Valley í Kaliforníu?


Ekki amarlegt að búa í "Nýju paradís"!


Varúðarskiltin eru mörg. Hér er varað við hættulegum beygjum.


Og brekkurnar eru svona brattar ...


Slöngur á ferð.


Eitt af undarlegri skiltum sem við höfum séð. Einhvern veginn heldur maður að það sé sjálfsagt mál að ekki megi skjóta.


Uppáhaldsskiltið mitt - ég ætla að vona að þeir séu betri að fljúga en í ensku :-)

mánudagur, 15. mars 2010

Bæjarferð

Eftir langa vinnulotu (19 daga samfleytt) skilaði ég ársfjórðungslegri kostnaðaráætlun á föstudaginn og við Reynir fórum í helgarfrí til David. Birkir ákvað að vera heima og læra þar sem hann hafði tekið sér þriggja daga frí um síðustu helgi til að fara á tónleika með Metallica í Panamaborg.

David er á stærð við Reykjavík og er í um 160 km fjarlægð frá þorpinu okkar. Það tekur þó rúmlega 3 tíma að keyra til David því yfir stóran fjallgarð er að fara. Venjulega förum við á 6-8 vikna fresti til að kaupa matvöru og aðrar nauðsynjar sem ekki fást í Romero eða Úlfakringlu í Changuinola. Þar sem fátt annað er að gera annað en að versla í David höfum við oftast tekið þetta á einum degi, þ.e. lagt af stað snemma morguns, verslað og svo keyrt heim sama dag. Þetta eru erfiðir dagar og því lítið tilhlökkunarefni. En nú brá svo við að nýtt hótel hafði verið opnað og hinn árlegi markaður (e. fair, s. feria) stóð yfir svo við ákváðum að gista eina nótt og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að geta keypt panamískt handverk.

Hótel Cuidad de David
olli ekki vonbrigðum en það gerði markaðurinn hins vegar. Eitthvað höfum við misskilið hvers lags markaður þetta var því það fyrsta sem við sáum voru traktorar og aðrar landbúnaðarvélar. Lifandi nautgripir og fulltrúar frá landbúnaðarháskólanum staðfestu grunsemdir okkar um að markhópurinn væri ekki útlendingar í leit af minjagripum heldur bændur.


Við innganginn skemmti trúður gestum.


En fljótlega sáum við fyrstu traktorana.


... og síðan kýrnar.


Sitthvað annað var í boði en þá helst eitthvað matarkyns eða skemmtun eins og þetta lukkuhjól.


Mjög algengt er að sjá indjána af Ngöble-Buglé ættflokknum á þessum slóðum en konurnar klæðast oftast hefðbundnum búningi eins og þessi sem ég náði mynd af á markaðnum. Kjólarnir eru allir eins í sniðinu en í mismunandi litum.

Áður en við héldum heim á leið á sunnudaginn versluðum við í þremur stórmörkuðum sem allir hafa sín sérkenni. Sá fyrsti líkist einna helst vöruskemmu og allt selt í stórum pakkningum – ekki minna en 6 pakkar saman í einu. Allt sem keypt er hér endist því í marga mánuði. Annar stórmarkaðurinn líkist einna helst Hagkaupum. Ekkert óvenjulegt við hann en innkaupin þar enda ætíð með nokkrum dollum af Häagen-Dazs ís. Þeim er skellt í kæliboxin og svo ís bæði ofan á og undir. Í síðasta stórmarkaðnum er oft hægt að finna lúxusvöru eins og innflutta osta, kæfur, lambalæri og lax. Það var hér sem við fundum endurnar fyrir jólin.


Lokastoppið í þetta skiptið var hjá þessum ávaxta- og grænmetissala.

fimmtudagur, 4. mars 2010

Jólastemning í mars

Ég frétti að páskaeggin væru komin í verslanir á Íslandi. Ummm, vildi ég væri þar ... þessi númer 1 sem koma í eggjabökkunum eru best. En það var þá ekki seinna vænna að fá síðasta jólakassann sem við fengum í gær. Kassinn fór á flakk og var rúma þrjá mánuði á leiðinni. Fór aftur til Íslands frá Danmörku og svo í sjópóst frá Danmörku til Panama.

Hamingjan var mikil þegar tekið var upp úr kassanum. Fyrst komu upp jólagjafir handa Birki. „Sweet“ var það sem hann sagði þegar hann tók upp pakkana, og trúið mér, það er mjög hástemmt lýsingarorð hjá táningnum svo alveg öruggt er að hann var ánægður með innihald pakkana.

Við hin vorum ekki síður ánægð því upp kom úr kassanum Nóa konfekt, íslensk bók, tónlist og tímarit, Síríus súkkulaði, Apollo lakkrís og Tópas. Best voru samt jólakortin frá fjölskyldunni.

Takk kæra fjölskylda :-)