Það sást ekkert til sólar fyrstu tímana en hitinn smá hækkaði. Við höfðum ætlað að sigla upp Changuinola fljót á laugardeginum en urðum að hætta við vegna rigningar. Vatnsyfirborðið hafði hækkað þá um nóttina og fljótið mórautt. Ætlunin var að sigla í 2-3 tíma upp eftir fljótinu og kannski baða en við ákváðum að fresta siglingunni þangað til betur viðraði.
Sólin braust fram úr skýjunum um kl. tíu svo ég ákvað að bregða mér í bikini og leggjast í sólbað á flötinni. Ég þarf greinilega að fá mér sólbekk því að maurarnir í grasinu virtu ekki einkasvæði mitt og flykktust inn á hvíta lakið. Ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt að einbeita mér að sögufléttu bókarinnar á tímabili.
Eftir amerískar pönnukökur í hádeginu skutluðumst við Reynir til Changuinola. Það var orðið eitthvað tómlegt í ísskápnum svo við ákváðum að fara í kaupstaðinn að versla. Verslunina Romero má líkja við 10-11 búðirnar á Íslandi því það er dýr búð sem er opin allan sólarhringinn. Þar verslum við matvörur en stutt frá Romero er Úlfa-kringla (Wolf Mall) þar sem gamla kaupfélagsstemningin er alls ráðandi. Þangað fórum við líka og fundum loks garðstóla og -borð sem við höfum verið að leita að.
Nýju garðhúsgögnin
Þegar við komum heim úr verslunarleiðangrinum tók ég hlaupaæfingu á hlaupabrettinu. Hljóp 15 mín, 2 x 800 m og 8 x 300 m og var ánægð með mig. Er bara að verða ansi góð á brettinu með IPodinn í eyrunum. Kvöldmaturinn var kínverskur „take away“ matur sem við keyptum á kínverskum veitingastað í Changuinola. Sólin fer niður um klukkan sjö og þá færist ró yfir mannskapinn. Við vöskuðum upp og ég setti í tvær þvottavélar, kíktum aðeins á netið en síðan var það bókin og rúmið sem heillaði.
Mig langar í svona hengirúm en ekki pöddurnar :D
SvaraEyðabestu kveðjur til ykkar
p.s. flott garðhúsgögn