Um síðustu helgi dvöldum við í Boquete sem er bær á stærð við Akureyri og liggur í nánd við eldfjallið Barú. Bærinn liggur í 1.100 m hæð yfir sjávarmáli og loftið því kaldara og jafnframt þurrara en við eigum að venjast. Veðurfarið hentar kaffiræktun einkar vel en yfir 200 kaffiræktendur eru í nágrenni Boquete.
Við bjuggum á Hótel Panamonte sem er gamalt og virðulegt hótel með fallegum garði. Hitinn fór niður í 20 gráður á nóttunni svo við sváfum með opna glugga og án loftkælingar. Yndislegt.

Garðurinn við hótelið. Gengið var inn um hurðina til vinstri inn í Birkis herbergi. Við Reynir vorum í brúðkaupssvítunni á efri hæð aðalbyggingarinnar.
Við fórum í tvær hálfsdags skoðunarferðir, aðra á kaffiplantekru og hina m.a. upp í Skýjaskóg (e. Cloud Forest). Við fórum upp í 1.800 m hæð að inngangi Vulcan Barú þjóðgarðsins en þar eru mjög vinsælar gönguleiðir upp á eldfjallið sem er hæsta fjall landsins, 3.478 m (Hvannadalshnjúkur er 2.110 m).

Reynir í upprenndum jakka við hús þjóðgarðsvarðarins. Til vinstri sést í horn opna jeppans sem við keyrðum í upp fjallið.
Á leiðinni keyrðum við framhjá þessum yfirgefna kastala en sagan segir að Bandaríkjamaður hafi byggt hann handa innfæddri konu sinni. Honum þótti hún svo fögur að ekkert minna en kastali hæfði henni. Þessi prinsessusaga endar þó ekki vel því unga konan dó á vofvægilegan hátt og hefur gengið aftur í kastalanum síðan. Niðurbrotinn eiginmaðurinn flutti í burtu og hefur ekki sést síðan. Sagan er alla vega góð.

Hér er ekki gott að vera á ferð eftir að dimma tekur.
Á leið inn í bæinn aftur heimsóttum við garð sem er í einkaeigu en hefur verið opinn almenningi í 15 ár. Hann er kallaður "mi jardin es su jardin" eða "garðurinn minn er garðurinn þinn" og er mikið listaverk. Það er svo smekksatriði hvort manni finnst vera farið yfir strikið með blómamálaðar kýr og aðrar furðuverur inn á milli blómanna.


Ef vel er gáð er hægt að sjá fegurðardís í sólbaði til hægri við jólatréð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli