Mér finnst mikið mál að skipta um hárgreiðslustofu. Geri það í mesta lagi á nokkurra ára fresti því mér finnst svo þægilegt að setjast í stólinn hjá einhverjum sem „þekkir“ hárið mitt. Ég hafði því dregið að fara í klippingu en eftir 4 mánuði var klippingin vægast sagt orðin úr sér gengin og strípurnar komnar niður að eyrum. Ekki hefur rakinn í loftinu hjálpað og greiðslan því yfirleitt verið úfið hár sem stundum hefur þróast út í krullur.
Auðvitað er hægt að fara í klippingu hér í nágrenninu en það er meira svona „allt af“ aðferðin sem er notuð. Um daginn þegar fjölskyldan ákvað að skreppa til Panamaborgar ákvað ég því að reyna að komast í klippingu. Ég hafði heyrt að besta hárgreiðslustofan væri á El Panama hótelinu og "karlmaðurinn" væri bestur að klippa. Ég bað því Joanne, mótttökuritara og allsherjar reddara, að hringja og panta tíma fyrir mig í klippingu og hugsanlega strípur. Það kom í ljós að þeir eru tveir karlmennirnir sem vinna á stofunni, þeir Pascual og Adolfo. Ég vissi ekki hver væri aðalmaðurinn svo ég sagði það ekki skipta máli hvor þeirra myndi klippa mig.
Til að gera langa sögu stutta settumst við hjónin í sinn hvorn stólinn snemma á laugardagsmorgni og létum klippa okkur. Reynir sat mun styttra og kvaddi fljótlega. Adolfo var minn maður en talaði því miður litla sem enga ensku. Eftir nokkurt handapat komumst við að þeirri sameiginlegri niðurstöðu að hann setti í mig „highlights“. Mér varð svolítið órótt þegar hann fór að blanda lit án þess að ráðfæra sig frekar við mig. Ég reyndi þá að nota nokkur af þessum fáu orðum sem ég kann í spænsku og bað um liturinn yrði ekki of ljós. Adolfo sýndi mér þá litakort en fannst litaval mitt greinilega eitthvað ábótavant því hann breytti litablöndunni ekkert í kjölfarið.
Þar sem ég sat í stólnum með krosslagða fingur undir slánni og vonaði hið besta þá kom Pascual, hinn karlmaðurinn, til vinnu. Eftir honum beið viðskiptavinur sem hann heilsaði og kyssti á báðar kinnar. Pascual var með litla hlíf yfir nefinu sem hann tók niður og sýndi viðskiptavininum hróðugur að því virtist nýlagað nef. Eftir handapatinu að dæmi hafði hann látið sprauta í nokkrar hrukkur í leiðinni. Viðskiptavinurinn var lagður í bleyti með næringu í hárinu og á meðan notaði Pascual tímann til að laga hárið og setja á sig andlitið. Fyrst var það dagkrem, síðan litað dagkrem og loks púður. Það var vandað til verksins og allir speglar stofunnar notaðir.
Ég var svo upptekin við að fylgjast með umhverfinu að ég tók ekki eftir að Adolfo hafði tekið upp snyrtidótið og áður en ég vissi af var hann búinn að púðra yfir andlitið. Síðan lagaði hann aðeins varalitinn og setti á mig maskara. Klipping er greinilega ekki bara klipping hér. Áhersluatriðin eru líka ólík því sem ég á að venjast því sjálf klippingin tók ekki nema 3-4 mínútur en blásturinn 15 mínútur!
Tveimur tímum eftir að hafa sest í stólinn gekk ég svo út nýsnyrt með passíuklippingu í lengri kantinum og ágætis strípur :-)
þriðjudagur, 6. október 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli