Hér í Panama hefur þessi féþúfa eða skattstofn verið uppgötvaður og er vel nýttur og plægður í botn – við finnum það nýbúarnir. Þetta er skattlagning hinna ýmsu réttinda. Landvistarleyfi, ökuskírteini, vinnuvélaréttindi og þar fram eftir götum. Það skiptir engu máli þó þú megir keyra jarðýtu heima. Til að nýta réttindin hér þarftu að standa í röð, þegja og borga – ítrekað og reglulega.
Ökuskírteini mitt frá Íslandi sem gildir til sjötugs eða yfir tuttugu ár héðan í frá fyrir mig, gildir í þrjá mánuði í Panama. Eftir það rennur það út og ég er án ökuréttinda. Engin alþjóðaskírteini eða slíkt gilda hér enda ástæðulaust.
Við þurftum að senda okkar íslensku ökuskírteini til ræðismanns Íslands í Panma City til staðfestingar á að þau væru gild. Mánuði seinna fengum við panamískt ökuskírteini sem gildir í 3 mánuði og kostar 5.200 krónur. Við mætum á kontórinn í Changuinola, bíðum, borgum við kassa eitt, tökum heyrnarpróf og sjónpróf og fáum skírteini sem gildir í þrjá mánuði.
Í fyrsta skiptið sem ég fékk panamískt ökuskírteini gekk það áfallalaust fyrir sig en þá var ekki hægt að setja A-ið sem er hluti af vegabréfsnúmerinu á skírteinið. Síðan þá er búið að skipta um kerfi þannig að nú er það hægt. En þá voru góð ráð dýr – númerið á gamla skírteininu var ekki það sama og stóð í vegabréfinu - það vantaði A-ið! Það var því ekki hægt að endurnýja skírteinið þann daginn. Það tók 7 daga að kippa þessu í liðinn og á meðan var ég réttindalaus.

Nýbúar dagsins að bíða eftir próftöku og mælingum. Anna og Birkir eru í öftustu röð.
Sem sagt 5.200 krónur á þriggja mánaða fresti eða 20.800 krónur á ári. Það gera einungis 208 milljónir á ári ef um er að ræða 10.000 nýbúa sem þurfa að aka og halda réttindum sínum. Við þurfum líka að endurnýja landvistarleyfið á sama hátt á þriggja mánaða fresti og borga stórfé fyrir. Er þetta ekki eitthvað fyrir nýja Ísland?
Ég hef áframsent þessa frásögn í fjármálaráðuneytið. Steingrímur verður glaður.
SvaraEyða