En auðvitað geta bæði flug og flugvellir verið ánægjulegir. Til dæmis eins og þegar við lögðum á okkur dagsferðalag til að komast til Las Vegas um daginn. Fyrst var það fjögurra tíma flug til Houston og síðan annað þriggja tíma flug til Las Vegas. Á Houston flugvelli biðum við svo í fimm tíma. Þetta hljómar ekki vel en ánægja mín yfir að finna þar hvorki meira né minna en þrjár bókabúðir yfirskyggði allt flugvallaróþol. Opinskáheit Bandaríkjamanna komu strax í ljós í fyrstu bókabúðinni þar sem ég keypti fyrstu átta bækurnar. Afgreiðsludaman spjallaði við mig á meðan ég var að velja mér bækur en spurði svo þegar ég lagði bunkann á borðið: „Ma'am, are you going to read all that?“.

Súkkulaðiverksmiðjan á Houston flugvelli. Súkkulaðimolarnir voru risastórir og afar ljúffengir.

Þeir voru fínir í tauinu sem pússuðu skóna.
Starfsmenn flugvallarins voru margir og virtist flestum þykja gaman í vinnunni. Í öryggishliðinu var til dæmis einn sem fór með öryggisreglurnar með þvílíkum leikrænum tilþrifum að unun var að horfa á. Leikþátturinn náði hámarki sínu þegar hann færði kassana (þessa ljótu gráu) til baka að færibandinu. Eins og uppboðshaldari mærði hann kassana og sagði þá vera eftir nýjustu tísku í bæði litum og lögun. Ég var alveg sérstaklega lengi að klæða mig í skóna til að geta fylgst sem lengst með þessum náunga.
Eins varð ég hissa stuttu seinna þegar strákur sem afgreiddi mig með pizzusneið hrópaði á eftir manni á hlaupum: „Hey man, stop! The pizza is right HERE!“ Og viti menn, maðurinn stoppaði og keypti sér pizzusneið!
Brosið datt þó aðeins niður á meðan við fórum í gegnum útlendingaeftirlitið. Þetta var mín fyrsta heimsókn til Bandaríkjanna og mynda- og fingrafarataka því óumflýjanleg. Starfsmaðurinn var kurteis en vildi vita hver tengsl okkar væru (mamma, pabbi og sonur), hvað við ætluðum að dvelja lengi og hvað við værum með mikið af peningum. Það væri gaman að vita hvort útlendingar þurfi að svara svipuðum spurningum á Keflavíkurflugvelli?
Fyrsta flugið leið tiltölulega fljótt þar sem við skemmtum okkur við lestur á flugritinu SkyMall. Í því er að finna allt það sem við vissum ekki að okkur vantaði. Sérstaka athygli vakti öll njósnatækin en allskonar upptökutæki og agnarsmáar myndavélar er hægt að fá fyrir lítinn pening. Undrameðul og tæki tengd heilsu og útliti voru líka algeng en ennþá fleiri tæki og fylgihlutir fyrir gæludýr. Þar má nefna tröppur fyrir smáhunda til að komast upp í rúm, klósettsetur fyrir kisur til að venja þær á að nota klósett eins og fólk, dyrabjöllur fyrir hunda og tæki sem gefur frá sér hátíðnihljóð þegar hundar gelta. Ekki vantaði heldur hluti fyrir heimilið því þarna mátti finna poppvél (eins og í bíóhúsunum), bjórkrana með 5 lítra tunnu, mannhæðarstór stytta af „bigfoot“ fyrir garðinn, ameríska örninn í fullri stærð til að hengja upp á stofuvegginn og eftirlíkingu af 3.500 ára gömlum stól sem fannst í gröf Tutankhamen faróa í Egyptalandi. Persónulega fannst mér skrínið sem gert var fyrir 24 armbandsúr best :-)