þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Flug og flugvellir

Mér leiðast flug og flugvellir alveg voðalega, sérstaklega eftir að öryggismálin fóru úr böndunum og okkur þessu venjulega fólki hefur verið gert að hálfstrippa fyrir hvert flug. Og vei þeim sem gleyma að taka beltið af sér áður en gengið er gegnum öryggishliðið því þá er líkamsleit óumflýjanleg. Sú staðreynd að litið sé á alla ferðamenn sem hugsanlega glæpamenn hefur virkilega slegið á ánægju mína við að ferðast. Það er af sem áður var ... Hver man ekki eftir fyrstu flugferðunum sínum með fiðrildi í maganum af tilhlökkun? Þetta var viðburður sem maður dressaði sig upp fyrir. Nú gildir það að taka alla skartgripi af sér og helst að vera í buxum með plastrennilási.

En auðvitað geta bæði flug og flugvellir verið ánægjulegir. Til dæmis eins og þegar við lögðum á okkur dagsferðalag til að komast til Las Vegas um daginn. Fyrst var það fjögurra tíma flug til Houston og síðan annað þriggja tíma flug til Las Vegas. Á Houston flugvelli biðum við svo í fimm tíma. Þetta hljómar ekki vel en ánægja mín yfir að finna þar hvorki meira né minna en þrjár bókabúðir yfirskyggði allt flugvallaróþol. Opinskáheit Bandaríkjamanna komu strax í ljós í fyrstu bókabúðinni þar sem ég keypti fyrstu átta bækurnar. Afgreiðsludaman spjallaði við mig á meðan ég var að velja mér bækur en spurði svo þegar ég lagði bunkann á borðið: „Ma'am, are you going to read all that?“.


Súkkulaðiverksmiðjan á Houston flugvelli. Súkkulaðimolarnir voru risastórir og afar ljúffengir.


Þeir voru fínir í tauinu sem pússuðu skóna.

Starfsmenn flugvallarins voru margir og virtist flestum þykja gaman í vinnunni. Í öryggishliðinu var til dæmis einn sem fór með öryggisreglurnar með þvílíkum leikrænum tilþrifum að unun var að horfa á. Leikþátturinn náði hámarki sínu þegar hann færði kassana (þessa ljótu gráu) til baka að færibandinu. Eins og uppboðshaldari mærði hann kassana og sagði þá vera eftir nýjustu tísku í bæði litum og lögun. Ég var alveg sérstaklega lengi að klæða mig í skóna til að geta fylgst sem lengst með þessum náunga.

Eins varð ég hissa stuttu seinna þegar strákur sem afgreiddi mig með pizzusneið hrópaði á eftir manni á hlaupum: „Hey man, stop! The pizza is right HERE!“ Og viti menn, maðurinn stoppaði og keypti sér pizzusneið!

Brosið datt þó aðeins niður á meðan við fórum í gegnum útlendingaeftirlitið. Þetta var mín fyrsta heimsókn til Bandaríkjanna og mynda- og fingrafarataka því óumflýjanleg. Starfsmaðurinn var kurteis en vildi vita hver tengsl okkar væru (mamma, pabbi og sonur), hvað við ætluðum að dvelja lengi og hvað við værum með mikið af peningum. Það væri gaman að vita hvort útlendingar þurfi að svara svipuðum spurningum á Keflavíkurflugvelli?

Fyrsta flugið leið tiltölulega fljótt þar sem við skemmtum okkur við lestur á flugritinu SkyMall. Í því er að finna allt það sem við vissum ekki að okkur vantaði. Sérstaka athygli vakti öll njósnatækin en allskonar upptökutæki og agnarsmáar myndavélar er hægt að fá fyrir lítinn pening. Undrameðul og tæki tengd heilsu og útliti voru líka algeng en ennþá fleiri tæki og fylgihlutir fyrir gæludýr. Þar má nefna tröppur fyrir smáhunda til að komast upp í rúm, klósettsetur fyrir kisur til að venja þær á að nota klósett eins og fólk, dyrabjöllur fyrir hunda og tæki sem gefur frá sér hátíðnihljóð þegar hundar gelta. Ekki vantaði heldur hluti fyrir heimilið því þarna mátti finna poppvél (eins og í bíóhúsunum), bjórkrana með 5 lítra tunnu, mannhæðarstór stytta af „bigfoot“ fyrir garðinn, ameríska örninn í fullri stærð til að hengja upp á stofuvegginn og eftirlíkingu af 3.500 ára gömlum stól sem fannst í gröf Tutankhamen faróa í Egyptalandi. Persónulega fannst mér skrínið sem gert var fyrir 24 armbandsúr best :-)

miðvikudagur, 17. febrúar 2010

Las Vegas

Aldrei hefði mér nú dottið í hug að fyrsta ferð mín til Bandaríkjanna yrði til Las Vegas. Tilgangur ferðarinnar var þó ekki að stunda fjárhættuspil heldur að fara á tónleika snillingsins Carlos Santana þar sem hann spilaði í The Joint in Hard Rock Hotel. Tónleikarnir stóðu fullkomlega undir væntingum og alls ferðalagsins virði en einn og hálfan sólarhring tók að komast úr sveitasælunni til borg syndanna.


Útsýnið var flott frá Las Vegas Hilton hótelinu.


Konungur rokksins, Elvis Presley, bjó á hótelinu í 8 ár þar sem hann hélt 837 tónleika og skemmti 2,5 milljónum manna.

Strax fyrsta morguninn gengum við á the Strip sem er aðalgatan og hótelin standa í röðum. Hótelin hafa flest sérstök þema sem tengjast yfirleitt öðrum borgum eða frægum stöðum. Hér er því að finna smækkaðar myndir af New York, París, Feneyjum og Lúxor til að nefna nokkrar.


New York í smækkaðri mynd.


Ljón MGM kvikmyndaversins.


Gondólarnir að sigla á síkjum "Feneyja".


Markúsartorgið í Feneyjum. Hér gæddum við okkur á ekta ítölskum ís á meðan við hlustuðum á óperutónlist. Athugið að himininn er málaður í loftið.

Seinna kvöldið borðuðum við á veitingastaðnum í Eiffel turninum við Parísarhótelið. Turninn er nákvæm eftirlíking Eiffel turnsins í París, bara helmingi lægri. Þaðan var útsýni yfir hina frægu Balagio gosbrunna ... í miðri eyðimörkinni. Það er einkar lýsandi fyrir borgina þar sem allt virðist vera hægt að fá og allt er of stórt og mikið einhvern veginn. Við erum rétt farin að geta lokað munninnum aftur eftir að hafa haft kjálkann meira og minna niður á bringu þessa tvo daga. Við getum þó ekkert sagt frá spilavítunum þar sem við spiluðum aðeins upp á 1 dollara í allri ferðinni (og töpuðum).


Hér er að lokum mynd af Birki með tveimur yngismeyjum sem hössluðu hann af götunni til að taka myndir af honum í vafasömum stellingum og selja honum síðan fyrir "million bucks".

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Afmælispartý

Veisluhöldum vegna afmælisins lauk með partýi í klúbbnum. Þeir kollegar, Reynir og Henrik, urðu báðir fimmtugir í janúar og ákváðu að halda saman upp á 100 ára afmælið. Þeir sömdu við stelpurnar í eldhúsinu um að útbúa mexíkóska smárétti og svo var opin bar og diskótek. Sandra táningur reddaði tónlist frá sjöunda, áttunda og níunda áratugi síðustu aldar þannig að við þessi gömlu fíluðum okkur í botn.


Hér eru allir mjög dannaðir ennþá. Robert, Sophie, Per og Sarah.


Allir komnir út á gólf - örugglega ABBA á fullu.


Frábær sveifla hjá Kent og Evu.


Daisy gat dansað bæði með flöskur og glös á höfðinu. Reynir tilbúinn að bjarga.


Eldhúspartýin (hér inni-partýin) eru alltaf skemmtileg. Aurora (Erítreía), Adrianne (Ástralía), Marica (Holland) og Geniva (Mali).


Lars, einn af framleiðslustjórunum, eftir fyrstu ferð í sundlaugina.


Við skötuhjúin rétt fyrir partýlok.

Með boðinu í afmælisveislunna var sérstaklega tekið fram að allar gjafir til afmælisbarnanna væru afþakkaðar. Þess í stað var tekið á móti frjálsum framlögum sem munu verða notuð til þurfandi hér í grennd. Konur hér í campnum munu sjá til þess að það verði keyptir skólabúningar og skólabækur fyrir þessa 863 dollara sem söfnuðust.

sunnudagur, 7. febrúar 2010

Svipmyndir

Á ferðalögum okkar í janúar tókum við fleiri hundruð myndir og því oft erfitt að velja úr til að setja hér út á bloggið. Eftirfarandi svipmyndir valdi ég vegna þess að mér fannst þær góðar, athyglisverðar eða bara skemmtilegar.


Stórborgin Panama. Háhýsin eru áberandi en mest sjarmerandi borgarhlutinn er gamla franska hverfið Casco Viejo með sínum gömlu húsum í kolonískum stíl.


Hér er eitt þeirra en það eyðilagðist í innrás Bandaríkjamanna árið 1989. Húsið var klúbbhús yfirmanna hersins og hér sat einræðisherrann Manuel Noriega oft með vinum sínum.


Sætar stelpur í þjóðbúningum. Myndin er tekin á Hótel El Panama.


Í borginni er að finna marga afbragsgóða veitingastaði. Hér er kokkurinn að elda fyrir framan okkur á japanska veitingastaðnum Ginza.


Nokkrum dögum seinna mættum við þessum á siglingu okkar í karabíska hafinu.


Í höfrungaflóa.


Uppáhaldsstrákarnir mínir.


Bassi að pósa í blómagarðinum Mi jardin es su jardin í Boquete.


Þetta var ást við fyrstu sýn. Við héldum fyrst að þessi stóra "kisa" í dýraathvarfinu í Boquete hefði verið að urra á okkur en föttuðum síðan að hún var aðeins að mala og vildi láta klappa sér. Birkir strauk henni í gegnum netið og tilkynnti síðan að hann ætlaði að fá sér svona kött "þegar hann yrði stór".


Bassi að stríða litlu sætu Tamarin öpunum.