fimmtudagur, 29. apríl 2010

Bananar

Eftir að hafa horft á víðáttur af bananatrjám í heilt ár fengum við loks tækifæri til að fræðast um bananaræktun. Skemmtinefndin skipulagði skoðunarferð í samvinnu við Chiquita í Changuinola þannig að eldsnemma á laugardagsmorgni var hópur fólks frá CCWJV mættur á plantekru númer 65 þar sem gæðastjóri Chiquita tók á móti okkur.

Bananar hafa verið framleiddir hér í Bocas del Toro í yfir 100 ár en í 60 ár á plantekrunni sem við skoðuðum. Ég er ekki með nákvæmar tölur yfir stærð svæðisins en eftirfarandi staðreyndir ættu að gefa nokkra hugmynd um umfangið. Það tekur 9 mánuði fyrir einn bananaklasa að þroskast. Hver plantekra fyllir 1-2 gáma af bönunum á dag. Í einum gámi eru 960 bananakassar. Í hverri viku fara 800-900 gámar í 2-3 skipum frá Almirante áleiðis til annarra heimsálfa.


Hér erum við lögð af stað ásamt leiðsögumönnum. Bláu pokarnir utanum bananaklasana eru til að vernda þá gegn skordýrum.


Hér sést hvernig bananaklasinn er tekinn niður. Stofninn er beygður niður, blái pokinn tekinn af ...


... mjúkar þynnur settar inn á milli bananna til að vernda þá fyrir hnaski og síðan lyftir annar starfsmaðurinn undir með öxlinni og hinn heggur á. Stofninn er svo hogginn niður og nýr stofn vex upp rétt hjá þeim gamla.


Litlir banana "ungar".


Kíkt undir bláan poka. Takið eftir teygjunum sem halda bönunum saman. Það er til að bananarnir vaxi sem þéttast saman.


Hér er verið að setja bláan poka utan um nýjan klasa. Fyrir ofan pokann er bundinn litaður borði sem gefur til kynna hvenær klasinn er fullþroskaður. Nýr litur fyrir hverja viku.


Klasarnir eru hengdir á víra en þessi á gula farartækinu safnar þeim saman og dregur þá í átt að vinnslustöðinni.


Röð af klösum á leið í gegnum fyrsta þvott.


Kátir karlar við stöðina þar sem klasarnir eru taldir og viktaðir. Hver klasi er á bilinu 17-20 kg.


Á leið inn í vinnslustöðina.


Bananarnir skornir niður og settir í vatn. Upp á bandið fara bananar sem ekki uppfylla útlitslegar gæðakröfur en þeir eru seldir matvinnslufyrirtækjum sem gera t.d. barnamat úr þeim.


Um 25% af bönunum standast ekki gæðakröfurnar og lenda hér.


Stúlkurnar skera klasana niður í "hendur" sem verða að hafa fjóra til átta "fingur".


Séð yfir vinnslusalinn.


Hver kannast ekki við Chiquita merkið?


Í pökkuninni voru handtökin snör.


Gæðastjórinn sýnir hvernig gæðaeftirlitið fer fram.


Allir fylgdust með af áhuga.


Kassar á leið upp á pallettu sem síðan fara í gám.


Þrjár pallettur komnar í gáminn og aðeins 17 eftir. Þegar gámurinn er fullur er hann innsiglaður og keyrður til Almirante þar sem skipið bíður.


Fyrir utan vinnslustöðina stóðu þessir vagnar sem eru notaðir til að keyra starfsfólkinu til og frá vinnu. Á hverri plantekru vinna um 250 manns.


Hér er að lokum mynd af gámaskipi í höfninni í Almirante.

Bananarnir eru bæði harðir og grænir þegar þeim er pakkað því það líður um það bil mánuður þangað til þeir eru borðaðir í Evrópu. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá fluttu Íslendingar inn banana fyrir um 707 milljónir króna (fob) á síðasta ári. Þar af kom rúmlega helmingurinn frá Panama og þriðjungur frá nágrannalandinu Costa Rica. Það eru því rúmlega helmingslíkur á því að síðasti bananinn sem þú borðaðir hafi komið af plantekrunum hér í nágrenni við okkur :-)

mánudagur, 26. apríl 2010

Talandi um tré

Um síðustu helgi tók Reynir myndir af fjölbýlistré niður á vinnusvæði. Tréð er sérstakt af því leyti að tugir fugla hafa gert sér þar hreiður.

Hér á eftir eru fleiri myndir sem við höfum tekið af trjám á ferðum okkar undanfarið ár. Séð með gestsaugum eru flest trén óvenjuleg en risastór tré í fullum blóma finnast mér alltaf jafn stórkostleg.


Þetta er ein af fyrstu myndunum okkar. Tréð stendur eitt og sér á stórri hæð þannig að við tökum alltaf eftir því þegar við keyrum framhjá.


Fallegt tré í fullum blóma við kirkju í borginni David.


Eucalyptus tré við kaffiplantekru í hlíðunum fyrir ofan Boquete.


Tré með fallegum rauðum blómum.


Þetta tré hef ég séð í kynningarefni um Panama svo ætli það sé ekki dæmigert fyrir landið.


Gult eins og sólin ...


Upp í fjöllunum þrífast furur.


Þetta tré sáum við í Costa Rica. Ef vel er að gáð (smella á mynd) þá má sjá hversu margar aðrar plöntur vaxa á trénu.


Að lokum smá svindl því þetta er ekki tré heldur kaktus! Hann er í garðinum við Hótel Panamonte í Boquete en þar hefur verið hótel í hundrað ár.

sunnudagur, 18. apríl 2010

Fjölbýlistré

Í morgun fór ég minn hefðbundna túr á sunnudagsmorgni niður á vinnusvæði. Þar var unnið af krafti við hreinsun á stíflugrunni. Allt berg þarf að dauðhreinsa, skrá og meta. Einnig þarf að bora holur og dæla sementsgraut niður í bergið. Allar upplýsingar verða að vera til staðar áður en steypt stíflan er byggð.


Vinnusvæðið. Stífluveggurinn í baksýn.

Á leið minni tilbaka frá vinnusvæðinu stoppaði ég við reisulegt og stórt tré sem er við veginn. Það var fyrir svona tveimur vikum að við tókum eftir að mjög margir fuglar voru á fullu við hreiðurbyggingar í trénu. Mér synist að allt að 50 pör hafi ákveðið að hengja hreiður sín í þetta tré nákvæmlega. Þeir hljóta að vita að þetta tré sé best og öruggast til búsetu.

Stórt og mikið tré með mörg hreiður hangandi.

Það var ekkert flugbann hjá íbúum trésins nú í morgun. Mikið um flugtök til allra átta og lendingar úr öllum áttum. Myndasmiðurinn var ekki nægilega snöggur til að ná því.


Hér sjást hengi hreiðrin betur.

Mikið var um háværar samræður íbúa um landsins gagn og nauðsynjar. Greinilega vor í lofti.

mánudagur, 5. apríl 2010

Tveir dagar við Kyrrahafið

Engin páskaegg voru borðuð þetta árið og lítið um páskafrí en við nutum þó lífsins í tvo daga á strönd við Kyrrahafið. Leiðin lá til Las Lajas Beach Resort sem liggur Kyrrahafsmegin í Panama, í tæpra fjögurra klukkustunda akstri frá þorpinu okkar.


Horft heim að hótelinu.


Hér láum við með bók á milli þess sem við kældum okkur í sundlauginni.


Kjeld, Elísabet og William að bíða eftir morgunmatnum.


Reynir að kíkja í tölvuna með Kyrrahafið í baksýn. Öldurnar voru kröftugar en sjórinn heitur sem er ólíkt því sem við eigum að venjast við Karabíska hafið.


Í nágrenninu var þessi veitingastaður. Sagan segir að eigandinn sé Þjóðverji með sítt hár og á matseðlinum fáist vínarsnitsel. Ekkert slíkt var þó að sjá á meðan við vorum þarna.


Eins og sjá má er ekki lagt mikið í innréttingar en lengst til vinstri á myndinni sést í tjald þar sem sýnt er beint frá "Champions League" sem er víst einhver fótboltakeppni.


Það var bara tvennt á páskamatseðlinum, annars vegar fiskur sem er kallaður Corvina (borinn fram heill) og hins vegar smokkfiskur.

Í gær héldum við svo heim á leið enda vinna strax í dag, annan í páskum.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Orlando ... eða þar um kring

Það sem stóð upp úr í mars var að hitta Telmu systur og fjölskyldu nokkra daga í Flórídu Bandaríkjanna.


Eins og sjá má bjuggu þau við sömu götu og "aðþrengdar eiginkonur". Lögreglustjórinn bjó við enda götunnar og golfvöllurinn var fyrir aftan hús.


Fyrsta myndin mín af sjarmatröllinu mínu - á Cheesecake Factory ... mæli með því fyrir alla sem eiga leið til Bandaríkjanna.


Strax á fyrsta degi tókum við túristalestina um St. Augustine - elsta bæjar Bandaríkjanna. Jökull var pínu feiminn fyrst ...


Fyrsta stoppistöðin var gamla fangelsið. Athugið persónur eru bara styttur.


En leiðsögumennirnar voru ekta.


Seinna um daginn fórum við að skoða kródódíla ... og önnur dýr.


Páfagaukar ...


Svartir svanir ...


Og afi gamli ... alla vega lítur hann út fyrir að vera orðinn afi :-)


Og að lokum uppáhaldsfólkið mitt :-)