Bananar hafa verið framleiddir hér í Bocas del Toro í yfir 100 ár en í 60 ár á plantekrunni sem við skoðuðum. Ég er ekki með nákvæmar tölur yfir stærð svæðisins en eftirfarandi staðreyndir ættu að gefa nokkra hugmynd um umfangið. Það tekur 9 mánuði fyrir einn bananaklasa að þroskast. Hver plantekra fyllir 1-2 gáma af bönunum á dag. Í einum gámi eru 960 bananakassar. Í hverri viku fara 800-900 gámar í 2-3 skipum frá Almirante áleiðis til annarra heimsálfa.
Hér erum við lögð af stað ásamt leiðsögumönnum. Bláu pokarnir utanum bananaklasana eru til að vernda þá gegn skordýrum.
Hér sést hvernig bananaklasinn er tekinn niður. Stofninn er beygður niður, blái pokinn tekinn af ...
... mjúkar þynnur settar inn á milli bananna til að vernda þá fyrir hnaski og síðan lyftir annar starfsmaðurinn undir með öxlinni og hinn heggur á. Stofninn er svo hogginn niður og nýr stofn vex upp rétt hjá þeim gamla.
Litlir banana "ungar".
Kíkt undir bláan poka. Takið eftir teygjunum sem halda bönunum saman. Það er til að bananarnir vaxi sem þéttast saman.
Hér er verið að setja bláan poka utan um nýjan klasa. Fyrir ofan pokann er bundinn litaður borði sem gefur til kynna hvenær klasinn er fullþroskaður. Nýr litur fyrir hverja viku.
Klasarnir eru hengdir á víra en þessi á gula farartækinu safnar þeim saman og dregur þá í átt að vinnslustöðinni.
Röð af klösum á leið í gegnum fyrsta þvott.
Kátir karlar við stöðina þar sem klasarnir eru taldir og viktaðir. Hver klasi er á bilinu 17-20 kg.
Á leið inn í vinnslustöðina.
Bananarnir skornir niður og settir í vatn. Upp á bandið fara bananar sem ekki uppfylla útlitslegar gæðakröfur en þeir eru seldir matvinnslufyrirtækjum sem gera t.d. barnamat úr þeim.
Um 25% af bönunum standast ekki gæðakröfurnar og lenda hér.
Stúlkurnar skera klasana niður í "hendur" sem verða að hafa fjóra til átta "fingur".
Séð yfir vinnslusalinn.
Hver kannast ekki við Chiquita merkið?
Í pökkuninni voru handtökin snör.
Gæðastjórinn sýnir hvernig gæðaeftirlitið fer fram.
Allir fylgdust með af áhuga.
Kassar á leið upp á pallettu sem síðan fara í gám.
Þrjár pallettur komnar í gáminn og aðeins 17 eftir. Þegar gámurinn er fullur er hann innsiglaður og keyrður til Almirante þar sem skipið bíður.
Fyrir utan vinnslustöðina stóðu þessir vagnar sem eru notaðir til að keyra starfsfólkinu til og frá vinnu. Á hverri plantekru vinna um 250 manns.

Hér er að lokum mynd af gámaskipi í höfninni í Almirante.
Bananarnir eru bæði harðir og grænir þegar þeim er pakkað því það líður um það bil mánuður þangað til þeir eru borðaðir í Evrópu. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá fluttu Íslendingar inn banana fyrir um 707 milljónir króna (fob) á síðasta ári. Þar af kom rúmlega helmingurinn frá Panama og þriðjungur frá nágrannalandinu Costa Rica. Það eru því rúmlega helmingslíkur á því að síðasti bananinn sem þú borðaðir hafi komið af plantekrunum hér í nágrenni við okkur :-)