þriðjudagur, 29. september 2009

Ariel Ultra+

Lupé kom úr fríi í dag. Það var gott. Hún hefur verið í burtu í tvær vikur og allskonar aukavinnu hefur þurft að vinna þann tíma á heimilinu. Uppvask og tiltekt, þvottar (reyndar ekkert lent á mér) og annað slíkt sem maður hefur nærri komist hjá. Það skal sérstaklega tekið fram að við erum ekki með uppþvottavél svo uppvaskið er frekar umfangsmikið á þessum bæ.
Ég sá það um leið og ég kom úr vinnunni seinnipartinn að Lupé hafði verið á vaktinni í dag. 10 kg kassinn af Ariel Ultra hafði verið tæmdur í þvottefnisfötuna og líka notað óspart á föt heimamanna. Húsið angaði eins og gott vor. Fleiri og meiri hreinlætisvörur hafa verið notaðar hér í dag en á góðum degi í venjulegu fjölbýlishúsi. Lyktin var yndisleg. Smellið á myndina til að finna blómailminn.


Myndin er sett inn með “Google scent” prógramminu. Smelltu á myndina og finndu ilminn. Ef þú finnur ekki ilminn, er tölvan þín biluð.

Þegar inn í húsið komið virtist allt í fyrstu við það sama, en þó ekki. Hvítur stormsveipur hafði verið á ferðinni. Hjónarúmið sneri eins og í morgun en rúmi Birkis hafði verið snúið 90 gráður. Rúminu í gestaherberginu sömuleiðis. Minna getur maður nú ekki vænst eftir svo langt frí. Blómailmur um allt hús. Það var líka mjög notalegt að sjá að búið var að brjóta saman allar nærbuxur mínar í skúffunni. Maður er klárari í slaginn eftir svona heimkomu.

mánudagur, 28. september 2009

Gamboa

Ef ekið er 45 mínútur í norður frá Panamaborg þá kemur maður til Gamboa sem liggur við mynni árinnar Chagris. Áin rennur í Gatún vatn sem er tilbúið vatn í Panamaskurðinum. Í gær notuðum við daginn til að fræðast um og skoða regnskóginn sem er að finna í Gamboa. Dagurinn var tekinn snemma og byrjaði með ferð með kláfi upp í gegnum regnskóginn. Leiðsögumaðurinn okkar, Eduardo, var ótrúlega fróður og skemmtilegur. Hann sagði okkur allt um hvernig indíánar nýttu skóginn til að byggja sér hús þannig að hvorki slöngur né önnur óvelkomin dýr kæmust inn. Einnig um þekkingu þeirra á lækningamætti plantna og auðvitað á eitri úr náttúrunni sem þeir notuðu til veiða.


Kláfurinn sem við ferðuðumst í gegnum regnskóginn.


Feðgarnir og leiðsögumaðurinn okkar í útsýnisturni á endastöðinni.

Það er auðvelt að sjá hvaðan "Varablómið" fær heitið sitt.

Eftir ferðina í gegnum regnskóginn gekk leiðsögumaðurinn með okkur í gegnum sýningarsvæði þar sem hægt var að skoða eftirlíkingu af indíánaþorpi, fiska, krókódíla, skjaldbökur, slöngur, fiðrildi og orkídeur.


Indíánahús. Ef tröppunni (til vinstri) er snúið við þá þýðir það að gestir séu ekki velkomnir.


Indíánakona að flétta körfu.


Krókódílar geta orðið hundrað ára og geta verið án matar í 6 mánuði. Það eina sem þeir þurfa er hiti því þeir hafa kalt blóð.

Uglufiðrildið er eitt af 30 tegundum sem er að finna í Gamboa.

Þjóðarblóm Panama er dúfu-orkídean. Ef vel er að gáð má sjá "dúfu" í miðju blómsins.

Seinni partinn sigldum við svo niður Chagris ánna og inn á Panamaskurðinn. Þar mættum við stóru gámaskipi á ferð sinni til frá Karabíska hafinu til Kyrrahafsins. Við sigldum til apaeyju (e. Monkey Island) þar sem við sáum bæði öskurapa og bræður þeirra, apana með hvítu andlitin. Við vorum heppin og sáum einnig letidýr, íguana og leðurblökur.


Það byrjaði að rigna á leiðinni heim frá apaeyju. Regnslár voru hluti af þjónustunni svo við blotnuðum lítið sem ekkert :-)

miðvikudagur, 23. september 2009

Opið vinnurými

Fyrir 2-3 árum tók ég þátt í umræðu um kosti og galla opins vinnurýmis á vinnustað. Ég hafði þá litla sem enga reynslu af opnu vinnurými og gat því lítið tjáð mig um málið. Fannst bara notaleg tilhugsun að geta lokað mig af ef mig vantaði næði. Hallaðist því að þeirri skoðun að betra væri að sitja ein í lítilli kytru með möguleika á að loka að sér heldur en í stærra rými með fullt af öðru fólki. Og nú er ég reynslunni ríkari.

Síðastliðnu mánuði hefur vinnuaðstaða mín verið í bás í einni af þremur álmum aðalskrifstofunnar. Í minni álmu sitja um 20 manns í opnu vinnurými. Innst sitja nokkrir starfsmenn undirverktaka í rými sem hægt er að loka. Það er þó aldrei gert og aðeins fundarherberginu er lokað annað slagið.

Þegar ég mæti til vinnu klukkan átta á morgnana hafa flestir vinnufélagarnir verið í vinnunni í einn og hálfan tíma. Einn er þó iðulega mættur og búinn að kveikja á kaffikönnunni upp úr klukkan fimm. Hann fer heim um klukkan hálf átta á kvöldin og vinnur oft um helgar líka. Svonalagað gefur hugtakinu vinnualki alveg nýja merkingu. Þetta er lítill og snaggaralegur Svíi á miðjum aldri sem á filipínska konu og uppkomin börn í Svíþjóð. Hann hefur umsjón með öllum samningum verksins sem er ekkert smámál. Helsta samstarfskona hans er tungumálaséní frá Perú. Þau hafa unnið saman í mörg ár og kemur einkar vel saman en rífast reglulega eins og gömul hjón um orðalag bréfa. Hann talar sænsku, ensku og spænsku á víxl og veigrar sér ekkert við að skammast yfir allt vinnurýmið þegar honum sýnist svo. Hann blótar þó aðeins í hljóði en samt nógu hátt til að ég heyri. Undanfarið hef ég því lært að samtvinna sænskum blótsyrðum með þessum fína skánska hreim.

Hinum megin við mig situr annar Svíi sem alltaf hefur minnt mig á stóran bangsa. Áður en hann fór heim í sumarfrí sást ekki í hárlausan blett nema ennið, augnlokin og nefið. Hann kom þó nýklipptur og snyrtilegri tilbaka í ágúst. Maðurinn er doktor og hefur unnið við hönnun í fjölmörgum verkefnum um allan heim. Hann er eldklár og finnst gaman að tala en er einn af þeim sem heldur að það þurfi að hækka röddina þegar talað er í síma. Hann talar yfirleitt hátt og mikið en ég veit alltaf hvenær hann er að tala við konuna sína í Svíþjóð því þá breytist röddin, verður mýkri og símtölin enda alltaf á „hej då, puss puss“ sem samsvarar kveðju og kossum á okkar ylhýra.

Það hlýtur að vera tilviljun að tveir málglöðustu starfsmennirnir sitja sitt hvorum megin við mig en flestir aðrir starfsmenn grúfa sig niður í vinnuna. Þeir láta ekki einu sinni konuna sem þrífur drulluna sem kemur með starfsmönnum utan af vinnusvæði trufla sig. Það er greinilega ekki alls staðar þar sem tíðkast að taka smá pásu frá vinnunni til að spjalla og fá sér jafnvel súkkulaði og ég tala nú ekki um afmæliskökur og morgunverði með bakarísbrauði. Sigh ...

sunnudagur, 20. september 2009

Skordýr og einn froskur


Við erum enn jafn hissa að sjá stærðina á fiðrildunum hérna en sum þeirra eru stærri en minnstu fuglarnir.


Þetta er víst líka fiðrildi ...


Einmana engispretta

Í húsinu okkar er glerhurð út á verönd. Þessi stóra kónguló var á leið upp gluggapóstinn einn morguninn þegar ég vaknaði. Hún var til allrar hamingju utan á en ég fór hringinn í kringum húsið til að taka myndina.

Í síðustu viku náðum við mynd af þessum litla og sæta froski við grillið okkar. Hann er eitraður og heitir á fagmáli Dendrobates auratus.

miðvikudagur, 16. september 2009

Fjólan

Við erum hérna í Panama til að byggja vatnsaflvirkjun. Í virkjunina verða notaðir um 1.000.000 m3 af steinsteypu í stíflu, göng, stöðvarhús og önnur mannvirki virkjunarinnar. Þetta er mikið magn steinsteypu og langstærsta mannvirkið er 650 metra löng og allt að 100 metra há steypt stíflan sem byggð verður á milli tveggja hæðardraga. Ef við gefum okkur að í einbýlishús fari um 150 m3 af steinsteypu þá ætlum við að byggja sem svarar til 6666 slíkra húsa hérna. Ef þrír búa í hverju húsi, jafngildir það 20 þúsund manna byggð, sem er fjölmennara en Akureyrarborg með úthverfum.


Drago flóinn fyrir utan Almirante í Panama

Í 1.000.000 m3 af steinsteypu þarf mikið af sementi. Eða um 220.000 tonn. Til þess að koma því magni á verkstað hér upp í sveit hefur verið ákveðið að staðsetja pramma í höfninni í Almirante, næsta hafnarbæ við verkstaðinn. Síðan á að fylla í prammann sementi úr tankskipum sem sigla til Almirante. Síðan er notað þrýstiloft til að blása sementinu í tanka í landi. Úr tönkunum er sementið lestað í tankbíla. Síðan er ekið sem leið liggur 25 km upp á vinnusvæði virkunarinnar. Þegar mest gengur á verða 15 stórir trukkar að aka sementi allan sólarhringinn. Prammi er reyndar rangnefni um þetta mannvirki, því notuð eru ensku orðin “floating teminal” um fyrirbærið. Vélarlaust geymslurými sem flýtur og ber nafnið La Violette eða Fjólan. Hún kom hingað á svæðið síðastliðinn föstudag 11. september.


Fjólan dregin inn til Almirante

Fjólan er 150 metra langur fljótandi tankur. Rýmir 23.000 tonn af sementi sem nægir í byggingu um 500 einbýlishúsa.


Fjólan í Almirante og allir gámarnir með bönunum á bakvið!

Fjólan er keypt notuð í Kanada. Hún var toguð til Costa Rica þar sem hún var löguð og endurbætt. Frá Limon í Costa Rica var hún toguð til Almirante í Panama og liggur nú hér fyrir utan. Þegar allt kemst í gang, mun Fjólan taka við um 9.000 tonnum af sementi á viku. Sementið verður flutt hingað í tankskipum frá Florida í Bandaríkjunum.

sunnudagur, 13. september 2009

Kirkjur

Í einni verslunarferðinni til David í sumar gistum við eina nótt á hóteli. Hótelið stendur við hliðina á kirkju við aðaltorg bæjarins. Eldsnemma á sunnudagsmorgni vöktu kirkjuklukkurnar okkur þegar þær hringdu til morgunmessu. Við vorum því komin út í göngutúr fyrir klukkan níu. Kirkjudyrnar stóðu upp á gátt svo við kíktum inn. Þétt var setið á kirkjubekkjunum og kona talaði úr ræðustól. Um hádegisbil gekk fólk ennþá út og inn um opnar dyrnar svo það virtist ekki vera neinn fastur messutími heldur gat fólk komið og hlustað á guðsorð eins lengi og það vildi.

Á ferðum okkar um sveitir og bæi höfum við tekið eftir mörgum kirkjum, bæði stórum og smáum. Hér eru myndir af nokkrum þeirra.


Kirkja í David


Kirkja á Bocas


Kirkja aðventista


Önnur sæt lítil sveitakirkja


Guðshúsin eru ekki öll íburðarmikil


Þarna er samkomustaður Betels safnaðarins á jarðhæð en íbúð á efri hæðinni. Kannski prestsbústaðurinn?


Biblíulestur fyrir utan kirkju í Almerante. Lesaranum fipaðist aðeins við myndartökuna :-)

Trúfrelsi er í Panama. Engin trú er annarri fremri og öll trúarbrögð eru leyfð. Langflestir eru þó rómversk kaþólskir eða 77% íbúa. Mótmælendur eru 12% og múslimir 4,4%. Þá eru um 3.000 gyðingar, 24.000 búddistar og 9.000 hindúatrúar. Indíánar hafa svo sín eigin trúarbrögð en þau eru víkjandi vegna áhrifa kristinna trúboða.

Hvort fólk er heitttrúað almennt vitum við ekki en kólumbískur samstarfsmaður minn hefur jafnan trúarleg skilaboð á MSN-inu sínu. Í síðustu viku þakkaði hann guði sínum fyrir allar hans gjafir. Amen.

mánudagur, 7. september 2009

Stutt helgi

Síðastliðin helgi var stutt, þ.e. einungis frí á sunnudeginum. Hún var þó sýnu styttri hjá Önnu sem stendur í stórræðum í vinnunni og vann allan sunnudaginn. Ég skrapp aðeins í vinnuna um morguninn, kláraði viðvik, hringdi í systur mína og fór síðan heim og lagði mig. Ég er nú búinn að vera hérna í rúma fjóra mánuði. Tíminn líður hratt. Ég var að fara í gegnum myndir og rakst á þessa sem ég tók um daginn af bananaknippi sem ég keypti við veginn og hengdi út. Þetta eru svona "mini" bananar sem gott er að taka með sér í nesti á morgnana.


Grænir "mini" bananar sem þroskast á nokkrum dögum í hitanum

Ég eldaði marókóskan pottrétt að hætti Nönnu Rögnvalds á sunnudagskvöldið. Þurfti aðeins að breyta honum því ég á ekki allt samkvæmt uppskriftinni. Engin hætta var þó á ferðum og enginn dó. Við erum að rækta kryddjurtir í garðinum og ég gat sótt myntu og rósmarín út í garð. Það skemmir ekki. Við kaupum grænmeti og ávexti í áskrift og fáum afhent vikulega.


Vikurskammtur af grænmeti og ávöxtum. Þetta gula til neðst til vinstri eru ástaraldin sem verða krumpuð með tímanum.

sunnudagur, 6. september 2009

Hrægammar og fleiri fuglar

Hér eru hvorki þrestir né starrar, hvað þá lóur og spóar en við sjáum og heyrum í fuglum á hverjum degi. Mikið er um alls konar smáfugla sem eru margir hverjir minni en stærstu pöddurnar. Kólíbrífuglar eru sjaldséðir hér í fjallshlíðinni en algeng sjón á eyjunum hér fyrir utan. Páfagauka og spætur höfum við séð í garðinum og stöku sinnum Toucan fugla sem eru litskrúðugir með stórt nef. Þeir eru illa fleygir og ferðast sjaldnast einir svo við sjáum þá hoppa saman tvo og tvo á milli trjáa. Mikilfenglegastir eru ernirnir sem leika sér í loftuppstreyminu hér fyrir aftan hús á morgnana. Þeir eru stórir með mikið vænghaf og svífa hljóðlaust um.

Þessa hrægamma keyrðum við fram á um daginn. Þeir voru að gæða sér á dauðri slöngu á miðjum veginum.



Ég stökk út úr bílnum og gekk eins nálægt þeim og ég þorði. Ég var svo upptekin af myndatökunni að ég sá ekki vinina á girðingarstaurunum og hrökk í kút þegar þeir krúnkuðu til hliðar við mig.