Ég sá það um leið og ég kom úr vinnunni seinnipartinn að Lupé hafði verið á vaktinni í dag. 10 kg kassinn af Ariel Ultra hafði verið tæmdur í þvottefnisfötuna og líka notað óspart á föt heimamanna. Húsið angaði eins og gott vor. Fleiri og meiri hreinlætisvörur hafa verið notaðar hér í dag en á góðum degi í venjulegu fjölbýlishúsi. Lyktin var yndisleg. Smellið á myndina til að finna blómailminn.

Myndin er sett inn með “Google scent” prógramminu. Smelltu á myndina og finndu ilminn. Ef þú finnur ekki ilminn, er tölvan þín biluð.
Þegar inn í húsið komið virtist allt í fyrstu við það sama, en þó ekki. Hvítur stormsveipur hafði verið á ferðinni. Hjónarúmið sneri eins og í morgun en rúmi Birkis hafði verið snúið 90 gráður. Rúminu í gestaherberginu sömuleiðis. Minna getur maður nú ekki vænst eftir svo langt frí. Blómailmur um allt hús. Það var líka mjög notalegt að sjá að búið var að brjóta saman allar nærbuxur mínar í skúffunni. Maður er klárari í slaginn eftir svona heimkomu.