miðvikudagur, 23. september 2009

Opið vinnurými

Fyrir 2-3 árum tók ég þátt í umræðu um kosti og galla opins vinnurýmis á vinnustað. Ég hafði þá litla sem enga reynslu af opnu vinnurými og gat því lítið tjáð mig um málið. Fannst bara notaleg tilhugsun að geta lokað mig af ef mig vantaði næði. Hallaðist því að þeirri skoðun að betra væri að sitja ein í lítilli kytru með möguleika á að loka að sér heldur en í stærra rými með fullt af öðru fólki. Og nú er ég reynslunni ríkari.

Síðastliðnu mánuði hefur vinnuaðstaða mín verið í bás í einni af þremur álmum aðalskrifstofunnar. Í minni álmu sitja um 20 manns í opnu vinnurými. Innst sitja nokkrir starfsmenn undirverktaka í rými sem hægt er að loka. Það er þó aldrei gert og aðeins fundarherberginu er lokað annað slagið.

Þegar ég mæti til vinnu klukkan átta á morgnana hafa flestir vinnufélagarnir verið í vinnunni í einn og hálfan tíma. Einn er þó iðulega mættur og búinn að kveikja á kaffikönnunni upp úr klukkan fimm. Hann fer heim um klukkan hálf átta á kvöldin og vinnur oft um helgar líka. Svonalagað gefur hugtakinu vinnualki alveg nýja merkingu. Þetta er lítill og snaggaralegur Svíi á miðjum aldri sem á filipínska konu og uppkomin börn í Svíþjóð. Hann hefur umsjón með öllum samningum verksins sem er ekkert smámál. Helsta samstarfskona hans er tungumálaséní frá Perú. Þau hafa unnið saman í mörg ár og kemur einkar vel saman en rífast reglulega eins og gömul hjón um orðalag bréfa. Hann talar sænsku, ensku og spænsku á víxl og veigrar sér ekkert við að skammast yfir allt vinnurýmið þegar honum sýnist svo. Hann blótar þó aðeins í hljóði en samt nógu hátt til að ég heyri. Undanfarið hef ég því lært að samtvinna sænskum blótsyrðum með þessum fína skánska hreim.

Hinum megin við mig situr annar Svíi sem alltaf hefur minnt mig á stóran bangsa. Áður en hann fór heim í sumarfrí sást ekki í hárlausan blett nema ennið, augnlokin og nefið. Hann kom þó nýklipptur og snyrtilegri tilbaka í ágúst. Maðurinn er doktor og hefur unnið við hönnun í fjölmörgum verkefnum um allan heim. Hann er eldklár og finnst gaman að tala en er einn af þeim sem heldur að það þurfi að hækka röddina þegar talað er í síma. Hann talar yfirleitt hátt og mikið en ég veit alltaf hvenær hann er að tala við konuna sína í Svíþjóð því þá breytist röddin, verður mýkri og símtölin enda alltaf á „hej då, puss puss“ sem samsvarar kveðju og kossum á okkar ylhýra.

Það hlýtur að vera tilviljun að tveir málglöðustu starfsmennirnir sitja sitt hvorum megin við mig en flestir aðrir starfsmenn grúfa sig niður í vinnuna. Þeir láta ekki einu sinni konuna sem þrífur drulluna sem kemur með starfsmönnum utan af vinnusvæði trufla sig. Það er greinilega ekki alls staðar þar sem tíðkast að taka smá pásu frá vinnunni til að spjalla og fá sér jafnvel súkkulaði og ég tala nú ekki um afmæliskökur og morgunverði með bakarísbrauði. Sigh ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli