
Drago flóinn fyrir utan Almirante í Panama
Í 1.000.000 m3 af steinsteypu þarf mikið af sementi. Eða um 220.000 tonn. Til þess að koma því magni á verkstað hér upp í sveit hefur verið ákveðið að staðsetja pramma í höfninni í Almirante, næsta hafnarbæ við verkstaðinn. Síðan á að fylla í prammann sementi úr tankskipum sem sigla til Almirante. Síðan er notað þrýstiloft til að blása sementinu í tanka í landi. Úr tönkunum er sementið lestað í tankbíla. Síðan er ekið sem leið liggur 25 km upp á vinnusvæði virkunarinnar. Þegar mest gengur á verða 15 stórir trukkar að aka sementi allan sólarhringinn. Prammi er reyndar rangnefni um þetta mannvirki, því notuð eru ensku orðin “floating teminal” um fyrirbærið. Vélarlaust geymslurými sem flýtur og ber nafnið La Violette eða Fjólan. Hún kom hingað á svæðið síðastliðinn föstudag 11. september.
Fjólan er 150 metra langur fljótandi tankur. Rýmir 23.000 tonn af sementi sem nægir í byggingu um 500 einbýlishúsa.
Fjólan í Almirante og allir gámarnir með bönunum á bakvið!
Fjólan er keypt notuð í Kanada. Hún var toguð til Costa Rica þar sem hún var löguð og endurbætt. Frá Limon í Costa Rica var hún toguð til Almirante í Panama og liggur nú hér fyrir utan. Þegar allt kemst í gang, mun Fjólan taka við um 9.000 tonnum af sementi á viku. Sementið verður flutt hingað í tankskipum frá Florida í Bandaríkjunum.
Mjög áhugavert og gaman að lesa þessa pistla þína um framkvæmdina, Reynir. Maður veit svo lítið um slíkar framkvæmdir og mannvirki. Skemmtilegt að setja þetta í samhengi við byggingu 6666 einbýlishúsa og 20 þús mannaþorps.
SvaraEyða