sunnudagur, 13. september 2009

Kirkjur

Í einni verslunarferðinni til David í sumar gistum við eina nótt á hóteli. Hótelið stendur við hliðina á kirkju við aðaltorg bæjarins. Eldsnemma á sunnudagsmorgni vöktu kirkjuklukkurnar okkur þegar þær hringdu til morgunmessu. Við vorum því komin út í göngutúr fyrir klukkan níu. Kirkjudyrnar stóðu upp á gátt svo við kíktum inn. Þétt var setið á kirkjubekkjunum og kona talaði úr ræðustól. Um hádegisbil gekk fólk ennþá út og inn um opnar dyrnar svo það virtist ekki vera neinn fastur messutími heldur gat fólk komið og hlustað á guðsorð eins lengi og það vildi.

Á ferðum okkar um sveitir og bæi höfum við tekið eftir mörgum kirkjum, bæði stórum og smáum. Hér eru myndir af nokkrum þeirra.


Kirkja í David


Kirkja á Bocas


Kirkja aðventista


Önnur sæt lítil sveitakirkja


Guðshúsin eru ekki öll íburðarmikil


Þarna er samkomustaður Betels safnaðarins á jarðhæð en íbúð á efri hæðinni. Kannski prestsbústaðurinn?


Biblíulestur fyrir utan kirkju í Almerante. Lesaranum fipaðist aðeins við myndartökuna :-)

Trúfrelsi er í Panama. Engin trú er annarri fremri og öll trúarbrögð eru leyfð. Langflestir eru þó rómversk kaþólskir eða 77% íbúa. Mótmælendur eru 12% og múslimir 4,4%. Þá eru um 3.000 gyðingar, 24.000 búddistar og 9.000 hindúatrúar. Indíánar hafa svo sín eigin trúarbrögð en þau eru víkjandi vegna áhrifa kristinna trúboða.

Hvort fólk er heitttrúað almennt vitum við ekki en kólumbískur samstarfsmaður minn hefur jafnan trúarleg skilaboð á MSN-inu sínu. Í síðustu viku þakkaði hann guði sínum fyrir allar hans gjafir. Amen.

1 ummæli:

  1. Gaman að þessum pistli! Það er víst sama hvar okkur ber niður, trúarbrögð umvefja allt mannlíf. Og þeir sem gefa sig út fyrir að vera trúlausir hafa stundum líka á sér yfirbragð trúmanna, virðast einungis hafa dottið í gildru yfirfærðrar trúarhneigðar með því að festa átrúnað við eitthvað annað en venjuleg trúarbrögð (vísindi, hagkerfi, pólitískt hugmyndakerfi). Homo sapiens virðist hafa verið trúaður alla sína tíð og sama má segja um aðrar manntegundir sem nú eru útdauðar!

    SvaraEyða