föstudagur, 2. júlí 2010

Drossíur

Gárungarnir segja að það séu til fleiri bandarískir fornbílar á Kúbu en í sjálfum Bandaríkjunum. Ég gæti trúað að það sé rétt því þeir eru stór partur af götumyndinni í Havana. Þeir eru ekki allir í jafn góðu ásigkomulagi en sumir eru sannkallaðar glæsikerrur. Við leigðum okkur eina slíka í hálfan dag ásamt bílstjóra og leiðsögumanni. Við skemmtum okkur vel við að keyra um borgina þrátt fyrir „smá“ vankanta eins og að þurfa hjálp við að opna hurðir og glugga (skrúflykil fyrir það síðar nefnda). Við komumst líka í létta vímu vegna bensínstybbunnar og leiðsögumaðurinn þurfti að kalla úr framsætinu svo við heyrðum í honum vegna hávaðans í vélinni. En drossían var fallega gul og bílstjórinn í skyrtu í stíl :-)


Guli Dodginn ásamt bílstjóra.


Einn rauður og sætur.



Það eru níu mismunandi litir á númeraplötunum á bílunum en litirnir segja til um hverjir eiga bílana. Bíll með gula númeraplötu er í einkaeigu, ljósblá er í eigu ríkisins, dökkgræn hersins o.s.frv. Þegar olíuskorturinn var sem mestur eftir hrun Sovétríkjanna eftir 1990 þá var skylda að stoppa og taka puttalanga upp í ef þú varst á bíl í eigu ríkisins.


Skínandi svartur.


Einn af þeim flottari.


Það var stíll yfir þessum.


Austur evrópskir bílar í röðum.


Þrjú vinsælustu farartæki ferðamanna.


Og svo auðvitað hestvagninn.

Bílarnir voru sem sagt í mjög misjöfnu ásigkomulagi og stundum var maður þeirri stund fegnastur að komast á leiðarenda. Það tókst næstum alltaf. Eitt kvöldið sprakk á dekki leigubíls sem við vorum í og bílstjórinn stoppaði á miðjum gatnamótum og reyndi að skipta um dekk. Reynir sá þó fljótlega að það var borin von að bílstjórinn gæti sett sköllótt varadekkið undir því boltarnir skröltu í gengjunum svo dekkið var laust undir bílnum. Við gengum því af stað og náðum fljótlega í annan leigubíl sem kom okkur heilu og höldnu heim á hótel.


Það var klassi yfir þessum leigubíl. Hurðirnar opnuðust á móti hvor annarri eins og í bresku leigubílunum.


Og hann var flottur að innan líka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli