fimmtudagur, 1. júlí 2010

Kúba

Það voru blendnar tilfinningar sem bærðust í brjóstum okkar ferðalanganna eftir rúma vikuferð til Kúbu. Við sáum og upplifðum einstaka hluti sem eiga sér varla hliðstæðu annars staðar í heiminum. Sumt var stórkostlegt eins og til dæmis gömlu byggingarnar, fornbílarnir og suðræna tónlistin sem hljómaði á götum úti næstum allan sólarhringinn. Súkkulaðisafnið, kirkjugarðurinn og kabarettinn voru ógleymanleg auk heimsóknanna í vindlaverksmiðjurnar og á tóbaksplantekruna. Og þá má ekki gleyma ófáum hvíldarstundum undir sólhlíf með Cuba Libre, Mojito eða Daiquiri kokteil í hönd.

En afhverju var ferðin þá bara ekki tóm sæla? Vegna þess að við höfum aldrei lent í öðru eins peningaplokki og aldrei borgað eins mikið fyrir eins lítið. Við vorum svo sem búin að fá fyrstu viðvörun áður en við mættum á svæðið þar sem við borguðum hótelið fyrirfram. Við völdum eitt af fínustu hótelunum i Havana sem heitir Ambos Mundos. Það liggur miðsvæðis og er frægt fyrir það að rithöfundurinn Earnest Hemmingway bjó þar á fjórða áratug síðustu aldar. Þar pöntuðum við svítu fyrir um 300 dollara (um 37 þús. krónur) nóttina. Það þarf ekki að hafa mörg orð um “svítuna” en Birkir svaf á bedda bak við þil, húsgögnin voru lúin og leki á baðherberginu sem við náðum að halda í skefjum með þremur 3-4 baðhandklæðum á dag. Lyftan var upprunaleg og virkaði bara stundum. Strax fyrsta kvöldið fengum við að vita að það væri "small problem with the elevator". Þegar hún virkaði þá fylgdi okkur lyftudrengur sem fékk greitt fyrir hverja ferð. Annars voru það 90 þrep upp á fjórðu hæðina ... Útsýnið frá veitingastaðnum á þakinu var frábært en maturinn ekki eins frábær. Og það þýddi ekkert að koma á síðustu stundu í morgunmat því þá var allur matur búinn.

Á Kúbu eru tveir gjaldmiðlar, pesosar og “convertables” sem Reynir kallaði spesíur. Pesosar eru aðeins fyrir heimamenn en spesíur fyrir ferðamenn. Spesíurnar er hins vegar mjög eftirsóttar af heimamönnum og mikið um betl, bæði beint og óbeint. Það er kannski skiljanlegt því laun eru ákaflega lág eða undir 5 þúsundum krónum á mánuði. En máltíð fyrir okkur þrjú á veitingastað kostaði þreföld kúbversk mánaðarlaun.

Mér leið aðeins betur þegar ég heyrði að um 35% af þeim peningum sem ferðamenn eyða á Kúbu eru notaðir til að gera upp gamlar byggingar.

En nóg af tuði - hér meðfylgjandi og á næstu dögum ætla ég að birta nokkrar af þeim aragrúa af myndum sem við tókum í landi Castros.


Dómkirkjan á Plaza de la Catedral.


Hljómsveit við veitingastað á sama torgi.


Ætli hún flokkist ekki undir götulistamann þessi. Takið eftir leyfiskortinu (og vindlinum).


Hótel Ambos Mundos.


Þegar þessi mynd var tekin stóð yfir leikur í heimsmeistara- keppninni í fótbolti. Hér nýtir fólk sér tækifærið til að horfa á sjónvarpið á barnum. Aðeins eru tvö ár síðan Kúbverjum var leyft með lögum að koma inn á hótel ætluðum ferðamönnum.


Séð yfir borgina af þaki hótelsins.


Setustofan og barinn voru opin allan sólarhringinn. Ljúf tónlist var spiluð á flygilinn fram á kvöld.


Virkar lyftan í dag?


La Torre (Turninn) er fínn veitingastaður á 33. hæð í Focsa byggingunni. Hún þótti stórvirki þegar hún var byggð á 6. áratugnum, nokkrum árum fyrir byltinguna. Seinna grotnaði byggingin niður og í lok aldarinnar voru fuglar búnir að hreiðra um sig á efstu hæðunum. Eftir lyftuslys árið 2000 þar sem einn dó (strengur slitnaði) hefur byggingin verið gerð upp innan sem utan.


Frá Turninum er stórkostlegt útsýni yfir Havana borg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli