mánudagur, 31. ágúst 2009

Sprengingin

Jæja, þá er dagur að kveldi kominn. Hjáveituaðgerðin fór fram eins og ætlað var klukkan 1415 í dag. 1.500 kg af dýnamíti voru notuð og 2.500 m3 af klöpp var sprengd úr haftinu. Sprengingin var fest á mynd úr öruggri fjarlægð.

Þetta var mikill áfangi í verkefninu en nú er hægt að snúa sér að þeim næsta.

sunnudagur, 30. ágúst 2009

Playa Bluff

Um þessa helgi gistum við á Playa Bluff sem er lítið hótel við ströndina á Kólon eyju. Hótelið reka hollensk hjón sem hafa búið í Panama í fimm ár. Maðurinn hafði áður atvinnu af því að rækta (eitraða) froska og önnur frumstæð dýr. Hann hefur nú ræktað upp garð þar sem hægt er að skoða körtur í tjörn og froska í girðingu. Eitruðu froskarnir eru svo í glerbúri.





Við tjörnina er lítið garðskýli þar sem gestir borða heimatilbúin mat húsfreyjunnar. Það er engin matseðill heldur spurði húsfreyjan einfaldlega hvað við vildum borða. Við báðum hana að koma okkur á óvart sem hún og gerði með ljúffengum indónesískum mat.



Undir þaki á garðskýlinu hangir pínulítið letidýr sem húsráðendur fundu eitt og yfirgefið í innkeyrslunni. Þegar mamman hafði ekki sótt ungann eftir tvo daga tóku þau hann og hafa alið hann síðan. Þvílíkt krútt hefur maður sjaldan séð.


Hér er litli unginn að teygja sig í blað en hann nærist á laufblöðum, blómum og ávöxtum.

Í gærkveldi þegar dimmt var orðið fór gestgjafinn með okkur niður á strönd ásamt tveimur öðrum gestum. Tilgangurinn var að reyna að finna caiman sem eru dýr svipuð krókódílum. Þau lifa í ferskvatnspollum á ströndinni. Það tókst ekki að góma neinn en í staðinn lentum við í úrhelli þannig að ekki var þurr þráður á okkur eftir augnablik. Mig hefur alltaf langað til að prófa að standa úti í rigningu og verða gegnblaut í stað þess að hlaupa í skjól svo gamall draumur rættist í gærkveldi. Ekki var verra að sturtan var volg. Þar sem við gengum heim með vasaljós til að vísa okkur veginn gengum við fram á litla slöngu. Gestgjafanum fannst það afar merkilegt því hann hafði ekki rekist á þessa tegund á ströndinni fyrr. Hann tók hana upp, setti hana í vasann á buxunum og fór með hana heim. Hann sagði þetta vera eins mánaða gamla Boa kyrkislöngu og ætlaði sleppa henni í garðskýlinu þar sem hún myndi halda í burtu leðurblökum í nokkra daga áður en hún léti sig hverfa.

Bóa kyrkislangan sem við gengum fram á í gærkveldi

Í morgun gengum við á ströndinni. Öldurnar voru of stórar til að við gætum synt svo við tókum langan göngutúr í staðinn. Eftir göngutúrinn hvíldum við okkur í hengirúmi í skugganum.


Hingað þurfum við að koma aftur því hér verpa risa-skjaldbökur eggjum sínum í maí til júní á hverju ári. Það er víst svona Sir David Attenborough dæmi ....

P.S. Það eina neikvæða við helgina var moskítóbitin sem við fengum. Við erum með ca 15 hver, svo það eru bólgur og horn á útsettum stöðum. Líkaminn á víst að mynda mótefni með tímanum og ég vona svo sannarlega að það fari að gerast.

föstudagur, 28. ágúst 2009

Hjáveitan

Næstkomandi mánudag veitum við Changuinola fljótinu í hjáveitu á meðan á stíflubyggingu stendur í 12 mánuði frá desember í ár. Hjáveita er bráðabirgðarfarvegur á meðan stíflað er. Á mánudaginn klukkan eitt verður haftið fyrir miðri mynd (hægra megin við steypta garðinn) sprengt með fimm sprengingum og fljótið breytir um farveg á stuttum kafla.


Copyright: Wilson Cruz (sem vinnur við gæðastjórnun en er frábær ljósmyndari)

Við þurfum grið á verktíma og þess vegna veitum við fljótinu í hjáveitu á meðan við byggjum stífluna. Þegar stífluframkvæmdum lýkur er lokað fyrir hjáveituna og vatnssöfnun hefst.


Steypustöðin sem notuð verður við stíflugerðina - eins og sjá má (að næturlagi) - mikið mannvirki

sunnudagur, 23. ágúst 2009

Nöfn

Mér hefur alltaf þótt nöfn og nafnavenjur áhugaverðar. Ég er heppin því ég ber bíblíunafnið Anna og lendi því sjaldan í að fólk hiksti á nafninu mínu í útlöndum. Nöfnin Reynir og Birkir eru erfiðari. Útlendingum finnst nafnið Birkir sérstaklega erfitt en Reynir skárra. Hér í Panama gengur nafnið Reynir eins og í sögu því bæði r-ið og ey-ið eru eins á spænsku og íslensku. Það er verra með nafnið Birkir því spænska b-ið er borið fram eins og íslenska v-ið.

Hér hefur fólk tvö eftirnöfn, annað frá föður og hitt frá móður. Eftirnafn föður kemur fyrst á eftir eiginnafni og er venjulega látið nægja. Það er helst þegar eftirnafn föður er algengt að fólk notar bæði eftirnöfnin. Og það þykir ekkert mál að tvítaka eftirnafnið ef foreldrar bera sama eftirnafn (t.d. Carlos Miranda Miranda).

Líkt og á Íslandi taka konur ekki eftirnafn eiginmanns eftir giftingu heldur halda sínum eigin. Börnin fá síðan föður-eftirnöfnin frá foreldrunum.

Í vinnunni sé ég reglulega lista með nöfnum starfsmanna. Þau eru flest fallega suðræn en sum koma spánskt (!) fyrir sjónir.

Dæmi um skemmtileg eiginnöfn eru; Pascual (páskar), Natividad (jól), Bienvenido (velkomin(n)), Liberto (frjáls maður), Oldemar, Genito, Hilario, Sixto, Mynor, Martyr, Angel og Diamantino. Ég hef aðeins rekist á eitt nafn sem var nákvæmlega eins og á íslensku en það var nafnið Einar. Arnulfo komst þó ansi nærri.

Eftirnöfnin eru líka oft skondin, sérstaklega þau sem eru enskuskotin; Casasola (aleinn heima), Guerra (stríð), Viagra, Hooker, Pitty, Quintero Santo (heilagi bóndinn), Robinson Peek, Record Sam, Small Whitaker, Dailey Clair og Brown Rose.

Uppáhaldsnafnið mitt hingað til er: Ignacio Concepcion de Leon sem þýðir (með hjálp þýðingarvélar): Sá sem veit ekki að hann er getinn af ljóni.


Ég veit ekki hvað þessar heita en Reynir rakst á þær á förnum vegi og fékk að taka mynd.

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

Trjábúinn og María mey

Þorpið okkar liggur í fjallshlíð þannig að við rennum niður hlíðina þegar við bregðum okkur af bæ og skríðum upp á leið heim. Rétt áður en við komum heim þá tekur þessi trjábúi á móti okkur með opnum örmum. Mér finnst eins og hann gæti verið úr sögu eftir Tolkien.



Hundrað metrum frá trjábúanum er svo þetta líkneski af Maríu mey. Utan um það hefur verið byggt lítið skýli svo það er vel verndað. Við vitum ekki afhverju líkneski af guðsmóðurinni er þarna í vegarkantinum en fallegt er það.


sunnudagur, 16. ágúst 2009

Tíðindalaus helgi

Við, gamla settið, héldum okkur heima við þessa helgi. Birkir fór til Bocas með 8 öðrum ungmennum á föstudaginn og kom sæll og glaður heim í dag. Ungmennin eru Danir og Svíar sem eru rétt skriðnir úr háskóla og vinna sem praktíkantar í hinum ýmsu deildum fyrirtækisins.

Vinnan er alltaf eitthvað að þvælast fyrir okkur svo fyrri part laugardagsins eyddum við á skrifstofunni. Seinni partinn tók garðvinnan við. Reynir olíubar girðinguna og ég potaðist í jörðinni. Við gróðursetum nýjar plöntur fyrir framan hús þar sem hinar fyrri höfðu drukknað. Slakinn hér fyrir ofan hús er frekar eyðimerkurlegur. Við létum því gera holur í hann um daginn og gróðursettum í holurnar plöntu sem breiðir úr sér eins og arfi. Vonumst til að veggurinn verði grænn með tímanum. Eini ókosturinn við að vera svona úti fram undir sólarlag eru moskítóbitin. Við sjáum aldrei kvikindin sjálf heldur finnum aðeins fyrir óþægindunum sem fylgja bitunum. Við fengum eitthvað smyrsli með möndlulykt frá Garcia lækni um daginn en það dugar skammt gegn kláðanum.

Fyrsta blómið í nýju beði í garðinum

Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur, engin rigning aldrei þessu vant. Deginum var því eytt við sundlaugina. Smá lestur, smá dorm, smá sund, smá Canada Dry og svo framvegis ...

Um kvöldið var okkur svo boðið í mat til hollenskra hjóna sem hafa verið hér síðan haustið 2007. Þau hafa unnið að ýmsum verkefnum víðs vegar um heiminn í mörg ár. Þetta virðist verða lífsstíll fyrir marga. Alla vega eru hér margir sem ekki hafa búið í heimalandi sínu í mörg ár, jafnvel áratugi. En við stefnum á að koma heim aftur næsta sumar, ennþá ...

miðvikudagur, 12. ágúst 2009

Fiðrildi og lítill foss

Á leið okkar yfir “Cordillera Central” fjallgarðinn á leiðinni til David stoppuðum við til að skoða lítinn foss og rákumst þá á þessi fiðrildi flögrandi í kringum smáblóm. Smellið á myndirnar til að sjá þær í fullri upplausn.


Bláir og gegnsæir vængir


Blómin heilla


Ef vel er gáð er hægt að sjá tvö fiðrildi flögra efst til vinstri


Þetta er síðan fossinn sem við stoppuðum til að skoða.

sunnudagur, 9. ágúst 2009

Laugardagur til lukku

Í gærmorgun þeystum við Birkir niður fjallshlíðina í átt að Changuinola til að fara í bankann. Útibú HSBC bankans er með fínni húsum í Changuinola og vel varið. Tveir vopnaðir öryggisverðir í skotheldum vestum fengu bæði að sjá skilríki og ofan í töskuna mína áður en okkur var hleypt inn. Auk þess var bannað að fara með vopn, dýr og sólgleraugu inn í bankann. Inni mætti okkur hrollkalt loft en það þykir merki um góða fjárhagsstöðu að geta kælt verulega hjá sér. Aumingja starfsmennirnir voru þó allir í ullarpeysum. Virðuleg kona á háum hælum benti á einn þjónustufulltrúann og sagði: „I would like her to tend to you“. Við settumst því hjá Señoru Inéz sem hjálpaði okkur með erindið sem var að opna bankareikning fyrir Birki. Við vorum vel undirbúin og afhentum Señorunni meðmælabréf undirskrifuðu af skrifstofustjóra CCWJV. Í því var gerð grein fyrir faðerni Birkis og stöðu hans hjá fyrirtækinu auk fagurra orða um ábyrgð Birkis í fjármálum.

Annars gekk þetta bara ágætlega, tók ekki nema 80 mínútur í skýrslutöku og 11 undirskriftir og þá var Birkir komin með debitkort og umsókn um internetaðgang að bankareikningi sínum.

Fyrst við vorum komin í bæinn þá ákváðum við að kíkja í Úlfakringlu (Wolf Mall) en þar fæst allt mögulegt svona í anda gömlu kaupfélaganna. Okkur vantaði handþeytara og fundum einn slíkan eftir stutta leit. Eins og alltaf koma starfsstúlkurnar aðvífandi, taka vörurnar og bera þær fyrir mann að kassanum. Í þetta skipti benti stúlkan mér að koma með sér að næstu innstungu þar sem hún tók þeytarann upp úr kassanum, stakk honum í samband og sýndi mér hreykin að hann virkaði. Þetta kallar maður góða þjónustu!

Eftir matarinnkaup hjá Romero sem er okkar 10-11 búð, þ.e. dýr og opin allan sólarhringinn, þá fórum við til kínverks ávaxtasala. Þar gátum við keypt kókoshnetu og látið fræsa kókosinn úr skelinni í leiðinni. Þetta hafði ég aldrei séð gert áður og fannst algjör snilld.

Þegar heim var komið vígði ég þeytarann góða og bjó til súkkulaðiköku Nigellu sem aldrei svíkur. Ég prófaði líka að gera karamellusósu með því að sjóða dós með niðursoðinni mjólk í klukkutíma. Þessa „uppskrift“ fékk ég hjá samstarfskonu minni í vetur en gat aldrei prófað því dósamjólkin hafði selst upp á Íslandi þegar ég reyndi að kaupa hana. Ég verð nú að segja að ég hef smakkað betri karamellusósu.

Dagurinn endaði svo á dýrindis matarveislu í Klúbbnum. Þjóðhátíðardagur Perú var fyrir stuttu og af því tilefni var boðið upp á perúanskan mat sem reyndist vera ákaflega ljúffengur. Það eru 10-15 manns hér frá Perú en þeir hjálpuðu til við matartilbúninginn í gær og mættu svo allir í fötum í fánalitunum (rauðu og hvítu) um kvöldið. Því miður gleymdum við alveg að taka myndir af því ...

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Húsbóndinn á heimilinu

Okkur Lupé, heimilishjálpinni, kemur mjög vel saman. Hún ræður og ég brosi. Heimilið ljómar af hreinlæti og ekki amarlegt að koma heim úr vinnunni þar sem allt er sjænað hátt og lágt. Það vegur algjörlega upp á móti smá óþægindum við að finna hluti vegna reglulegrar endurskipulagningar á innihaldi skúffa og skápa.

Hún Lupé er sú eina sem er óþreytandi að tala við mig spænsku. Ég er farin að geta boðið henni góðan daginn skammlaust en ekki mikið meira en það. Hún spjallar við mig og ég reyni að skilja eftir bestu getu. Í síðustu viku dró hún mig út á verönd og benti á nokkur blóm og svo á garðinn. Ég held að henni hafi blöskrað fjöldinn af pottaplöntunum á veröndinni (ég missti mig aðeins í innkaupum um daginn ...) og finnist að nú sé tími til kominn að koma einhverju af þessu út í garð.

Eitthvað hefur Lupé verið orðið leið á að halda sig við skúffur og skápa því þegar við komum heim sl. fimmtudag þá vorum við ekki viss um að við værum í réttu húsi því slík var breytingin á innbúinu. Sófinn og innréttingar með sjónvarpi hafði skipt um höfuðátt. Rúmið í gestaherberginu og herbergi Birkis hafði snúist um 90 gráður. Við urðum „svolítið“ hissa yfir breytingunum en sáum fljótlega að þær væru til hins góða. Meira að segja Birkir var hrifinn í þetta skipti (sem ekki er mjög hrifinn af breytingum yfirleitt). Ég veit ekki hvernig Lupé gerir þetta ein því rúm og innréttingar eru engar léttavörur. Reyni finnst orðið nóg um flutningana en ekki ætla ég að reyna að útskýra að frekari flutninga sé ekki óskað.

Ég veit ekki hvort þessi extra þjónusta (flutningarnir) hafi verið undirbúningur fyrir viðskipti, en þegar ég kom heim í gær beið mín katalógur frá Avon og sætt bréf frá Lupé þar sem ég er hvött til að kaupa vörur á tilboði. Það er ekki spurning, ég mun auðvitað kaupa eitthvað þó það sé ekki nema til að gleðja Lupé. Ég stenst ekki bréf sem hefst á: „Mrs Ana, You like to buy Avon, these products are good, as clothing, shoes, after all“ og svo framvegis ...

mánudagur, 3. ágúst 2009

Verslunarmannahelgi

Þessi helgi var löng helgi, þ.e. tveggja daga frí. Eins og svo margir aðrir Íslendingar um Verslunarmannahelgi skruppum við í smá ferðalag. Lögðum af stað á laugardagsmorgni og sigldum til Bocas (hálftími frá Almirante). Við vorum í samfloti með tveimur fjölskyldum og einu pari og leigðum okkur bát fyrir daginn. Eftir klukkutíma siglingu lögðum við að á hvítri strönd þar sem allir syntu (léku) í sjónum eins og þá lysti.


Heilmikið líf var í sjónum, aðallega litlir fiskar og stórir krossfiskar.


Á leið okkar rákumst við á þetta hótel sem er víst svona lúxushótel fyrir nýgifta, alla vega er lítið við að vera nema að synda og njóta útsýnisins af veröndinni.


Eftir síðbúinn hádegismat á Bocas del Drago sigldum við tilbaka í átt að bænum Bocas.

Strandlengjan

Í Bocas tilheyrir að koma við í „Super Gourmet“ sem selur lúxusvörur fyrir Vesturlandabúa. Í þetta skipti keyptum við Bearnaise sósu í bréfi, Digestive kex og hvítt súkkulaði ... mmmm.

Í gönguferð um bæinn sáum við þennan kólíbrífugl sem var að gæða sér á blómasafa. Vængir fuglsins sjást varla á myndinni vegna þess hversu ört hann blakar þeim.



Eins og veðrið hafði verið gott á laugardaginn var það leiðinlegt á sunnudaginn. Það byrjaði að rigna um tíuleytið og rigndi af og til allan daginn. Öllum frekari siglingum var því frestað og flestir héldu af stað heim. Ég var hins vegar búin að taka eftir auglýsingaskilti um nudd fyrir utan köfunarskóla við strandgötuna. Húsnæðið er samnýtt, köfunarskóli á neðri hæðinni með bátahöfn baka til og nuddstofa á efri hæðinni. Og þvílíkt nudd, ég get alveg mælt með hinni ensku Georginu sem tók mig í afslappandi bak-, háls- og höfuðnudd.

Síðustu 10 km sem ég fór þennan ágæta sunnudag voru svo á hlaupabrettinu þegar ég kom heim.