sunnudagur, 23. ágúst 2009

Nöfn

Mér hefur alltaf þótt nöfn og nafnavenjur áhugaverðar. Ég er heppin því ég ber bíblíunafnið Anna og lendi því sjaldan í að fólk hiksti á nafninu mínu í útlöndum. Nöfnin Reynir og Birkir eru erfiðari. Útlendingum finnst nafnið Birkir sérstaklega erfitt en Reynir skárra. Hér í Panama gengur nafnið Reynir eins og í sögu því bæði r-ið og ey-ið eru eins á spænsku og íslensku. Það er verra með nafnið Birkir því spænska b-ið er borið fram eins og íslenska v-ið.

Hér hefur fólk tvö eftirnöfn, annað frá föður og hitt frá móður. Eftirnafn föður kemur fyrst á eftir eiginnafni og er venjulega látið nægja. Það er helst þegar eftirnafn föður er algengt að fólk notar bæði eftirnöfnin. Og það þykir ekkert mál að tvítaka eftirnafnið ef foreldrar bera sama eftirnafn (t.d. Carlos Miranda Miranda).

Líkt og á Íslandi taka konur ekki eftirnafn eiginmanns eftir giftingu heldur halda sínum eigin. Börnin fá síðan föður-eftirnöfnin frá foreldrunum.

Í vinnunni sé ég reglulega lista með nöfnum starfsmanna. Þau eru flest fallega suðræn en sum koma spánskt (!) fyrir sjónir.

Dæmi um skemmtileg eiginnöfn eru; Pascual (páskar), Natividad (jól), Bienvenido (velkomin(n)), Liberto (frjáls maður), Oldemar, Genito, Hilario, Sixto, Mynor, Martyr, Angel og Diamantino. Ég hef aðeins rekist á eitt nafn sem var nákvæmlega eins og á íslensku en það var nafnið Einar. Arnulfo komst þó ansi nærri.

Eftirnöfnin eru líka oft skondin, sérstaklega þau sem eru enskuskotin; Casasola (aleinn heima), Guerra (stríð), Viagra, Hooker, Pitty, Quintero Santo (heilagi bóndinn), Robinson Peek, Record Sam, Small Whitaker, Dailey Clair og Brown Rose.

Uppáhaldsnafnið mitt hingað til er: Ignacio Concepcion de Leon sem þýðir (með hjálp þýðingarvélar): Sá sem veit ekki að hann er getinn af ljóni.


Ég veit ekki hvað þessar heita en Reynir rakst á þær á förnum vegi og fékk að taka mynd.

2 ummæli:

  1. Skemmtileg nöfn. En ekki það okkar íslensku nöfn eru mörg hver skrítin og/eða hafa skrítna merkingu.

    SvaraEyða
  2. Hæ Reynir, Anna og Birkir, kveðja frá DTH - hópsmeðlimi, vissi ekki að þið væruð þarna hinumeginn á hnettinum, fínt blogg og fínar myndir, mun fylgjast með þessu áfram, bestu kveðjur Guðrún S. Hilmisdóttir

    SvaraEyða