sunnudagur, 30. ágúst 2009

Playa Bluff

Um þessa helgi gistum við á Playa Bluff sem er lítið hótel við ströndina á Kólon eyju. Hótelið reka hollensk hjón sem hafa búið í Panama í fimm ár. Maðurinn hafði áður atvinnu af því að rækta (eitraða) froska og önnur frumstæð dýr. Hann hefur nú ræktað upp garð þar sem hægt er að skoða körtur í tjörn og froska í girðingu. Eitruðu froskarnir eru svo í glerbúri.





Við tjörnina er lítið garðskýli þar sem gestir borða heimatilbúin mat húsfreyjunnar. Það er engin matseðill heldur spurði húsfreyjan einfaldlega hvað við vildum borða. Við báðum hana að koma okkur á óvart sem hún og gerði með ljúffengum indónesískum mat.



Undir þaki á garðskýlinu hangir pínulítið letidýr sem húsráðendur fundu eitt og yfirgefið í innkeyrslunni. Þegar mamman hafði ekki sótt ungann eftir tvo daga tóku þau hann og hafa alið hann síðan. Þvílíkt krútt hefur maður sjaldan séð.


Hér er litli unginn að teygja sig í blað en hann nærist á laufblöðum, blómum og ávöxtum.

Í gærkveldi þegar dimmt var orðið fór gestgjafinn með okkur niður á strönd ásamt tveimur öðrum gestum. Tilgangurinn var að reyna að finna caiman sem eru dýr svipuð krókódílum. Þau lifa í ferskvatnspollum á ströndinni. Það tókst ekki að góma neinn en í staðinn lentum við í úrhelli þannig að ekki var þurr þráður á okkur eftir augnablik. Mig hefur alltaf langað til að prófa að standa úti í rigningu og verða gegnblaut í stað þess að hlaupa í skjól svo gamall draumur rættist í gærkveldi. Ekki var verra að sturtan var volg. Þar sem við gengum heim með vasaljós til að vísa okkur veginn gengum við fram á litla slöngu. Gestgjafanum fannst það afar merkilegt því hann hafði ekki rekist á þessa tegund á ströndinni fyrr. Hann tók hana upp, setti hana í vasann á buxunum og fór með hana heim. Hann sagði þetta vera eins mánaða gamla Boa kyrkislöngu og ætlaði sleppa henni í garðskýlinu þar sem hún myndi halda í burtu leðurblökum í nokkra daga áður en hún léti sig hverfa.

Bóa kyrkislangan sem við gengum fram á í gærkveldi

Í morgun gengum við á ströndinni. Öldurnar voru of stórar til að við gætum synt svo við tókum langan göngutúr í staðinn. Eftir göngutúrinn hvíldum við okkur í hengirúmi í skugganum.


Hingað þurfum við að koma aftur því hér verpa risa-skjaldbökur eggjum sínum í maí til júní á hverju ári. Það er víst svona Sir David Attenborough dæmi ....

P.S. Það eina neikvæða við helgina var moskítóbitin sem við fengum. Við erum með ca 15 hver, svo það eru bólgur og horn á útsettum stöðum. Líkaminn á víst að mynda mótefni með tímanum og ég vona svo sannarlega að það fari að gerast.

3 ummæli:

  1. Þetta er eitt allsherjarævintýri þarna hjá ykkur. Rosalega hlýtur að vera gaman að sjá svona margt framandi. Virkilega gaman að lesa bloggið.
    Gott að sjá Reyni hvíla sig svona vel :) á milli þess sem hann byggir stórar stíflur! Mínar bestu kveðjur úr haustkuldanum ;) Ruth.

    SvaraEyða
  2. Hæ hæ, þetta er geggjað - Væri alveg til í svo sem eins og eina volga rigningu í stað snjó/sliddu hér á fróni. Þvílíkt skítaveðursumar hér fyrir norðan sem fær mann til að dreyma up paradís með öllum þessum stórskemmtilegum bloggum ykkar.
    Endilega haldið áfram að vera svona skemmtilega dugleg :)
    Mbk. Helgi og Hildur

    SvaraEyða
  3. Oh mikið hljómar þetta allt skemmtilegt og spennandi hjá ykkur :-)
    Alltaf svo gaman að lesa bloggið og brilliant að fá að sjá myndir líka...líst samt ekkert á kyrkislönguna. Góður gestgjafinn að stinga henni bara í vasann eins og ekkert sé!
    Kveðja úr Reykjavíkinni, Anna Margrét jr.

    SvaraEyða