Það skemmtilegasta sem við gerðum í Costa Rica var „Canopy tour“. Ég hef ekki fundið neina góða íslenska þýðingu yfir fyrirbærið en málið er að fljúga í frjálsu falli niður fjallshlíð fastur í stálvír. Við fórum í slíka ferð með ævintýrafyrirtækinu
Sky Adventure. Myndin hér fyrir neðan sýnir kort af svæðinu. Stöðvarnar eru átta en bæði fjarlægð og hæð er mismunandi á milli stöðva þannig að engin ferð er eins. Á leið sjö er til dæmis stálvírinn 760 m, lækkunin 84 m, hraði 70 km á klukkustund og tíminn sem ferðin tekur 45 sekúndur.

Ferðin milli fyrstu stöðvanna er mjög stutt. Það er til að kynna ferðalöngum fyrirbærið og gefa þeim kost á því að hætta við. Í okkar hópi fór einn „kjúklinga“-gönguna til baka frá stoppistöð númer tvö.

Hér erum við Elísabet komnar í gallann og tilbúnar í slaginn.

Ferðin upp fjallið hófst með 25 mínútna ferð með kláfi upp að fyrstu stöð. Fólki gafst kostur á að taka kláfinn aftur sömu leið niður. Einhver (nefni engin nöfn) hafði á orði að skynsamt fólk gerði einmitt það ...

Útsýnið niður fjallshlíðina og út yfir Arenal vatnið.

Reynir, Anna og Birkir með
Arenal eldfjallið í baksýn.

Hér er Birkir næstur í röðinni að leggja af stað í fyrstu löngu salibununa.
Starfsmennirnir voru tveir og greinilega alvanir að koma hópi af mishræddu fólki alla leið niður. Þeir pössuðu að spjalla við alla á meðan þeir festu þá í stálvírinn og hentu þeim síðan af stað.

Og Birkir lagður af stað ...
Birkir gerði þrjár tilraunir til að taka mynd af mér á ferð en tókst ekki (þ.e. hann náði einni af rassinum á mér en hún komst ekki í gegnum ritskoðun). Hér er því að lokum ein af hinum ferðalöngunum að hefja ferð niður leið sjö.

Þetta flug á ógnarhraða yfir trjátoppa var ótrúlega skemmtilegt. Allt frá því að fiðrildin fóru að gera vart við sig í maganum á leið upp með kláfnum, fyrsta hendingskastinu með lokuð augu, til síðustu ferðar þar sem öll skilningarvitin voru galopin að taka inn súsið.
Þetta er auðvitað að öllu hættulaust en ég lenti þó í því að neyðarhemlar fór af stað þegar ég var að koma inn til lendingar á eina stöðina. Í stað þess að renna ljúflega inn á hæfilegum hraða undir stjórn starfsmannsins snarstoppaði ég á miklum hraða (var eins og að lenda á vegg) og hálfrotaðist. Ég slengdist til baka út á vírinn og þurfti að draga mig með höndunum inn á pallinn aftur. Ég gerði auðvitað eins og þegar ég hrundi niður af eldhúskollinum við matarborðið í gamla daga; stóð upp og sagði: „Ég meiddi mig ekki neitt!“ og lét eins og ekkert væri :-)