sunnudagur, 29. nóvember 2009

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Í dag kom út fyrsta jólalag Baggalúts á þessari aðventu; "Hvað fæ ég fallegt frá þér?" Ég sit og hlusta á það svona til að komast í jólastuð. Ég get nú ekki sagt að það sé beint jólalegt hér þó það sé bæði vetur og skammdegi á panamískan mælikvarða. Nóvember er sá mánuður sem rignir mest hér. Síðustu tvær vikur hefur rignt á hverjum degi, stundum mikið en aðra daga minna. Nokkra morgna hef ég því farið berfætt í krókódílaskónum mínum (bláir plastskór) og regnslá í vinnuna. Hitinn hefur lækkað, er oft aðeins um 25 gráður. Skammdegi hér þýðir að myrkrið skellur á um klukkan 18 í stað klukkan 19 á sumrin. Eins verður bjart hálftíma til klukkutíma seinna á morgnana eða um klukkan hálf sjö.

Annars er það að frétta af jólaundirbúningi að jólagjafirnar eru í höfn og ef eitthvað er að marka Baggalút þá "snýst þetta allt um pakkana". Ég hafði miklar áhyggjur að þeir kæmust ekki til Íslands fyrir jól en viti menn það tók kassann með jólagjöfunum ekki nema fimm daga með DHL að komast til Reykjavíkur frá Changuinola.

Ég reikna með að baka 2-3 smákökuuppskriftir en jólamaturinn er ennþá óráðinn. Hér fást engar endur svo hinn hefðbundni jólamatur okkar er út úr myndinni. Jólamaturinn er ekki til að spauga með en ætli þetta reddist ekki einhvern veginn og jólin komi þrátt fyrir allt. Ég frétti líka að von væri á gámi með dönskum jólamat sem verður á jólahlaðborði hér í klúbbnum þann 12. desember næst komandi.

Eins og sannir Íslendingar erum við búin að setja upp jólaseríur. Ætli þetta verði ekki fyrsta og eina árið sem við erum fyrst af öllum að setja upp jólaljós. Við keyptum þessar fínu seríur í Úlfakringlu sem að vísu dóu hver af annarri fyrstu dagana þannig að aðeins þrjár af sex eru ennþá lifandi. Ég flýtti mér því að taka mynd af herlegheitunum ef nú líftíminn skyldi aðeins vera talinn í klukkutímum. Ljósin blikka bara „lítið“ svo við vonum að nágrannarnir fái svefnfrið.

Að bregða sér af bæ.....

Ég hef brugðið mér af bæ. Ég mun gera grein fyrir því frekar innan skamms í texta og myndum.

sunnudagur, 22. nóvember 2009

Flogið yfir trjátoppa

Það skemmtilegasta sem við gerðum í Costa Rica var „Canopy tour“. Ég hef ekki fundið neina góða íslenska þýðingu yfir fyrirbærið en málið er að fljúga í frjálsu falli niður fjallshlíð fastur í stálvír. Við fórum í slíka ferð með ævintýrafyrirtækinu Sky Adventure. Myndin hér fyrir neðan sýnir kort af svæðinu. Stöðvarnar eru átta en bæði fjarlægð og hæð er mismunandi á milli stöðva þannig að engin ferð er eins. Á leið sjö er til dæmis stálvírinn 760 m, lækkunin 84 m, hraði 70 km á klukkustund og tíminn sem ferðin tekur 45 sekúndur.


Ferðin milli fyrstu stöðvanna er mjög stutt. Það er til að kynna ferðalöngum fyrirbærið og gefa þeim kost á því að hætta við. Í okkar hópi fór einn „kjúklinga“-gönguna til baka frá stoppistöð númer tvö.


Hér erum við Elísabet komnar í gallann og tilbúnar í slaginn.


Ferðin upp fjallið hófst með 25 mínútna ferð með kláfi upp að fyrstu stöð. Fólki gafst kostur á að taka kláfinn aftur sömu leið niður. Einhver (nefni engin nöfn) hafði á orði að skynsamt fólk gerði einmitt það ...


Útsýnið niður fjallshlíðina og út yfir Arenal vatnið.


Reynir, Anna og Birkir með Arenal eldfjallið í baksýn.


Hér er Birkir næstur í röðinni að leggja af stað í fyrstu löngu salibununa.

Starfsmennirnir voru tveir og greinilega alvanir að koma hópi af mishræddu fólki alla leið niður. Þeir pössuðu að spjalla við alla á meðan þeir festu þá í stálvírinn og hentu þeim síðan af stað.


Og Birkir lagður af stað ...

Birkir gerði þrjár tilraunir til að taka mynd af mér á ferð en tókst ekki (þ.e. hann náði einni af rassinum á mér en hún komst ekki í gegnum ritskoðun). Hér er því að lokum ein af hinum ferðalöngunum að hefja ferð niður leið sjö.



Þetta flug á ógnarhraða yfir trjátoppa var ótrúlega skemmtilegt. Allt frá því að fiðrildin fóru að gera vart við sig í maganum á leið upp með kláfnum, fyrsta hendingskastinu með lokuð augu, til síðustu ferðar þar sem öll skilningarvitin voru galopin að taka inn súsið.

Þetta er auðvitað að öllu hættulaust en ég lenti þó í því að neyðarhemlar fór af stað þegar ég var að koma inn til lendingar á eina stöðina. Í stað þess að renna ljúflega inn á hæfilegum hraða undir stjórn starfsmannsins snarstoppaði ég á miklum hraða (var eins og að lenda á vegg) og hálfrotaðist. Ég slengdist til baka út á vírinn og þurfti að draga mig með höndunum inn á pallinn aftur. Ég gerði auðvitað eins og þegar ég hrundi niður af eldhúskollinum við matarborðið í gamla daga; stóð upp og sagði: „Ég meiddi mig ekki neitt!“ og lét eins og ekkert væri :-)

Sunnudagsmorgunn

Eftir rigningarsama nótt skrapp ég í bíltúr niður á svæði í morgun til að litast um og sjá hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það hefur rignt mikið undanfarna viku eða yfir 100 mm. Allt reyndist í lagi en heldur blautt og lágskýjað. Það er fríhelgi og fáir að vinna.


Verið var að vinna við mölun á efni og lestun. Þarna eru möluð um 6.000 tonn á sólarhring að jafnaði.

Í stíflustæðinu var hópur við ídælingu á sementsgraut undir stífluna en hefjast á handa við uppsteypuna á stíflunni í komandi viku.


Heldur blautt og hráslagalegt í stíflustæðinu en nokkrir karlar við vinnu.

Á meðan á framkvæmdum stendur er vatninu í Changuinola ánni veitt í gegnum hjáveitu. Mikill kraftur og hraði var á vatninu í morgun en engin hætta eða skemmdir.


Vatnsflaumurinn í gegnum hjáveituna.

Þó að hér sé nú "vetur" og blautt, er hitastigið hátt á flesta mælikvarða. Þó að það væri mikil rigning og snemma morguns var hitastigið 25 gráður. Við erum með þetta fallega blóm í garðinum sem blómstrar sem aldrei fyrr. Hvert blóm lifir í einn dag og fellur þá af.


Mikið og tilkomumikið fyrir eins dags líftíma. Blómin frá í gær liggja á jörðinni.

fimmtudagur, 19. nóvember 2009

Virk eldfjöll og heitar uppsprettur

Að morgni þriðja dags okkar á ferðalagi um Costa Rica blasti þessi sjón við okkur. Upp úr virka eldfjallinu Arenal stóð reykjarstrókur en ekkert eldglóandi hraun var þó að sjá eins og túristabæklingarnir höfðu lofað okkur. Eldfjallið er þrettánda virkasta eldfjall heims og hefur verið virkt í rúm fjörtíu ár eða frá því að eldgos hófst árið 1968. Um fjórir metrar bætast við fjallið á hverju ári vegna hrauns og ösku sem koma upp úr gígnum.



Við borguðum dýrum dómum fyrir "herbergi með útsýni" á Hótel Linda Vista Mountain Lodge sem hafði upp á fátt annað að bjóða en einmitt það. Ég var þó ansi hrifin af þessum svönum sem þernurnar brutu handklæðin í.



Eftir miklar keyrslur nutum við þess í botn að slappa af í heitum uppsprettum. Enn eitt sem við Íslendingar gætum lært af. Þarna flæðir heita vatnið upp og einhver snillingurinn bjó til lúxus baðaðstöðu sem einungis hinir efnameiru hafa efni á að heimsækja. Fyrir tæpa 10 þúsund krónur á mann gátum við svamlað í heitum laugum eins og okkur lysti. Staðurinn er kallaður Tabacón Grand Spa Thermal Resort.

Barinn á sínum stað ....

Hér var krafturinn á vatninu svo mikill að ég missti hlýrana á bikini-brjóstahaldaranum niður á mitti. Úps, svona er að vera óvanur ...


Lítur þetta ekki vel út?

Og smá kósí útskot fyrir tvo.


Eftir því sem ofar dró varð vatnið heitara.

Eftir á að hyggja var þetta allra peninganna virði. Sull og busl í heitu vatni úr tærri uppsprettu.

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Friðarfossagarðarnir

La Paz Waterfall Gardens eru norðaustan megin við Poás Volcano National Park. Þar sem garðarnir eru í 1.500 m hæð yfir sjávarmáli rignir mikið og gróðurinn einkennist af því.


Birkir við einn af mörgum fossum í Friðaránni.


Vatnsúðinn náði til okkar þar sem við stóðum á útsýnisbrúnni.


Gróðurinn var einkar fjölskrúðugur.


Eru þessar plöntur ekki kjötætur?

Í görðunum og garðhýsunum voru fuglar, apar, letidýr, fiðrildi, slöngur, froskar og kattardýr.


Þessi fugl sýndi okkur stórkostlegt vænghafið.


Það tók 5 tilraunir að ná kólíbrífugli á mynd!


Auðveldar var að ná letidýrinu á mynd. Sjaldgæft er að sjá þau hreyfa sig en þau klifra víst bara einu sinni í viku niður úr tránum til að gera þarfir sínar.

Að lokum nokkrar myndir úr fiðrildahúsinu. Þar var krökkt af fiðrildum svo við þurftum virkilega að passa okkur að stíga ekki á þau.







No comment ...

Ágætu vinir.
Við uppgötvuðum seint og um síðir að ekki var lengur hægt að "commentara" á bloggið okkar. Það þykir okkur leitt því okkur þykir eins gaman að lesa kveðjur frá ykkur eins og ykkur finnst gaman að lesa pistlana okkar (vonandi!). Við hættum því ekki fyrr en við fundum út úr vandanum svo nú er aftur hægt að senda okkur kveðju eða athugasemd við hvern pistil.
Okkar bestu kveðjur,
Reynir og Anna

mánudagur, 9. nóvember 2009

Toucan fuglar (Quioro)

Við sjáum og heyrum margskonar skrautlega fugla hér í Mið Ameríku. Ein tegundin sem er bæði falleg og áberandi eru svonefndir Toucan fuglar, eða á spænsku Quioro. Þetta eru nokkuð stórir fuglar og afskaplega litskrúðugir á kroppinn og gogginn. Þessir fuglar eru svona einkennisfuglar svæðisins og til dæmis heitir klúbburinn hérna í campnum “The Toucan Club”. Á ferð okkar til Costa Rica nýlega fórum við m.a. í fuglahús og komumst mjög nærri Toucan fuglunum inni í búri þeirra.


Toucan fugl á priki

Toucan fuglar eru útbreiddir og finnast allt frá Hondúras til Columbíu, frá sjávarmáli og upp í 1850 metra hæð. Toucan fuglarnir eru staðbundnir. Þeir éta ávexti, egg annara fugla og jafnvel smádýr.


Reffilegur

Toucan fuglar verpa 2-4 eggjum í hreiður eða yfirgefna spætu holu í lifandi trjám. Bæði karl og kvenfuglinn liggja á en eggin klekjast út á tveimur vikum. Ungarnir eru bæði blindir og sköllóttir þegar þeir klekjast út. Ungarnir eru síðan í umsjá foreldra í 6 vikur. Fuglarnir verða 10 til 15 ára gamlir.


Við heyrum stundum í Toucan fuglum hérna heima við í campnum. Einnig sjáum við þá fljúga um. Þeir ferðast í pörum og setjast í stórt tré hér bakvið hús sérstaklega síðdegis. Gaggið í þeim er hátt og snjallt og er hið spænska nafn þeirra dregið af hljóðinu, “Quioro, quioro, quioro”.

föstudagur, 6. nóvember 2009

Costa Rica

Í gærkvöldi komum við heim úr fimm daga ferðalagi til Costa Rica sem er nágrannaland Panama í vesturátt. Okkur hafði hlakkað mikið til enda lengsta frí sem við höfum tekið sl. 15 mánuði. Við keyrðum af stað á sunnudagsmorgni niður að landamærunum ásamt annarri þriggja manna fjölskyldu. Við höfðum leigt okkur 11 manna bíl ásamt bílstjóra til þess að keyra okkur um í Costa Rica. Bílstjórinn beið okkar handan landamæranna en mikil skriffinska fylgir því að taka bíl yfir landamærin svo við gengum yfir landamærin með farangurinn okkar.


Landamæri Panama og Costa Rica. Yfir þessa brú fara allir yfir hvort sem þeir eru akandi, hjólandi eða gangandi.


Við vorum heppin því fáir voru á ferli en hér geta myndast langar biðraðir.


Aðstaða landamæralögreglunnar.


Hér erum við komin með stimplana í vegabréfin og lögð af stað yfir brúna.

Fyrsti dagur ferðalagsins fór í að keyra upp á hálendið í átt að Poás Volcano National Park. Þar er virkur eldgígur, Poás gígurinn. Þangað fórum við snemma næsta morgun því best er að sjá gíginn að morgni dags. Eftir klukkan tíu er hann yfirleitt hulinn skýjum.


Poás gígurinn er í 2.574 m hæð yfir sjávarmáli, þvermál hans er 1.320 m, dýpt 300 m og meðalhiti vatnsins er um 40°C.


Er þetta ekki bara eins og í Námaskarði í Mývatnssveit?


Elísabet, Birkir og Reynir að njóta útsýnisins.


Skýin á leið yfir að hylja útsýnið.