sunnudagur, 29. nóvember 2009

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Í dag kom út fyrsta jólalag Baggalúts á þessari aðventu; "Hvað fæ ég fallegt frá þér?" Ég sit og hlusta á það svona til að komast í jólastuð. Ég get nú ekki sagt að það sé beint jólalegt hér þó það sé bæði vetur og skammdegi á panamískan mælikvarða. Nóvember er sá mánuður sem rignir mest hér. Síðustu tvær vikur hefur rignt á hverjum degi, stundum mikið en aðra daga minna. Nokkra morgna hef ég því farið berfætt í krókódílaskónum mínum (bláir plastskór) og regnslá í vinnuna. Hitinn hefur lækkað, er oft aðeins um 25 gráður. Skammdegi hér þýðir að myrkrið skellur á um klukkan 18 í stað klukkan 19 á sumrin. Eins verður bjart hálftíma til klukkutíma seinna á morgnana eða um klukkan hálf sjö.

Annars er það að frétta af jólaundirbúningi að jólagjafirnar eru í höfn og ef eitthvað er að marka Baggalút þá "snýst þetta allt um pakkana". Ég hafði miklar áhyggjur að þeir kæmust ekki til Íslands fyrir jól en viti menn það tók kassann með jólagjöfunum ekki nema fimm daga með DHL að komast til Reykjavíkur frá Changuinola.

Ég reikna með að baka 2-3 smákökuuppskriftir en jólamaturinn er ennþá óráðinn. Hér fást engar endur svo hinn hefðbundni jólamatur okkar er út úr myndinni. Jólamaturinn er ekki til að spauga með en ætli þetta reddist ekki einhvern veginn og jólin komi þrátt fyrir allt. Ég frétti líka að von væri á gámi með dönskum jólamat sem verður á jólahlaðborði hér í klúbbnum þann 12. desember næst komandi.

Eins og sannir Íslendingar erum við búin að setja upp jólaseríur. Ætli þetta verði ekki fyrsta og eina árið sem við erum fyrst af öllum að setja upp jólaljós. Við keyptum þessar fínu seríur í Úlfakringlu sem að vísu dóu hver af annarri fyrstu dagana þannig að aðeins þrjár af sex eru ennþá lifandi. Ég flýtti mér því að taka mynd af herlegheitunum ef nú líftíminn skyldi aðeins vera talinn í klukkutímum. Ljósin blikka bara „lítið“ svo við vonum að nágrannarnir fái svefnfrið.

4 ummæli:

  1. Sæl Anna mín og gleðilega aðventu. Gaman að lesa bloggið þitt! :)
    Hafið það sem allra best.
    p.s: Það er búið að opna Fjallið!

    SvaraEyða
  2. Oh, gleymdi að kvitta
    Inga Þöll :)

    SvaraEyða
  3. Njótið aðventunnar kæru vinir

    SvaraEyða
  4. Þetta er bara aldeilis jólalegt hjá ykkur.
    Njótið aðventunnar sem best. Við borðum eina önd
    extra svona fyrir ykkur!
    Kærar kveðjur frá Gígju.

    SvaraEyða