mánudagur, 9. nóvember 2009

Toucan fuglar (Quioro)

Við sjáum og heyrum margskonar skrautlega fugla hér í Mið Ameríku. Ein tegundin sem er bæði falleg og áberandi eru svonefndir Toucan fuglar, eða á spænsku Quioro. Þetta eru nokkuð stórir fuglar og afskaplega litskrúðugir á kroppinn og gogginn. Þessir fuglar eru svona einkennisfuglar svæðisins og til dæmis heitir klúbburinn hérna í campnum “The Toucan Club”. Á ferð okkar til Costa Rica nýlega fórum við m.a. í fuglahús og komumst mjög nærri Toucan fuglunum inni í búri þeirra.


Toucan fugl á priki

Toucan fuglar eru útbreiddir og finnast allt frá Hondúras til Columbíu, frá sjávarmáli og upp í 1850 metra hæð. Toucan fuglarnir eru staðbundnir. Þeir éta ávexti, egg annara fugla og jafnvel smádýr.


Reffilegur

Toucan fuglar verpa 2-4 eggjum í hreiður eða yfirgefna spætu holu í lifandi trjám. Bæði karl og kvenfuglinn liggja á en eggin klekjast út á tveimur vikum. Ungarnir eru bæði blindir og sköllóttir þegar þeir klekjast út. Ungarnir eru síðan í umsjá foreldra í 6 vikur. Fuglarnir verða 10 til 15 ára gamlir.


Við heyrum stundum í Toucan fuglum hérna heima við í campnum. Einnig sjáum við þá fljúga um. Þeir ferðast í pörum og setjast í stórt tré hér bakvið hús sérstaklega síðdegis. Gaggið í þeim er hátt og snjallt og er hið spænska nafn þeirra dregið af hljóðinu, “Quioro, quioro, quioro”.

1 ummæli: