sunnudagur, 31. janúar 2010

Flúðasiglingar

Síðustu dögum frísins vörðum við fjölskyldan í Boquete. Það skemmtilegasta sem við gerðum þar voru flúðasiglingar með Panama Rafters. Eigandi fyrirtækisins er bandarískur ævintýramaður sem sagði mér að okkur væri óhætt að taka Jaguar ferðina jafnvel þó við værum ekki vön flúðasiglingum. Svo lengi sem við værum venjulegt og heilsuhraust fólk þá væri okkur óhætt. Við sigldum því um 15 km, í tæpa þrjá tíma niður ánna Chrirqui Viejo. Á leiðinni er að finna nokkrar flúðir með erfiðleikastig 4 (fyrir þá sem til þekkja).

Það var mikið á sig lagt því ferðalagið að ánni tók rúma þrjá klukkutíma í lítlli rútu með lélegum höggdeyfum og kúplingu.


Þegar við komumst ekki lengra á bílnum tóku hestar við og báru gúmmíbátana síðasta spölinn að ánni.


Við ánna þurfti að blása bátana upp.


Hér erum við komin með allar græjurnar; hjálma, vesti, skó og árar.


Það tók smá stund að blása upp bátana svo þeir bræður, Bassi og Birkir, notuðu tækifærið og hoppuðu nokkrum sinnum af kletti í ánna.


Þessi ofurhugi á kajaknum fylgdi okkur niður ánna. Hér lætur hann sig gossa af sillu niður í ánna.


Feðgar að hlusta á fyrirlestur fararstjórans um rétt viðbrögð í hættulegum aðstæðum.


Áður en lagt var af stað þá þurftum við að pakka myndavélinni niður í vatnshelda tösku svo þessa mynd tók ofurhuginn á kajaknum. Bassi og Birkir eru fremstir, þá Sunnefa og ég, og loks Reynir og fararstjórinn okkar.

Fararstjórinn stjórnaði með stuttum skipunum og undir það síðasta vorum við orðin eins og einn maður þegar hann öskraði á okkur að róa áfram, afturábak eða henda okkur niður í bátinn þegar hætta var á að detta útbyrðis.

Við fengum reglulega gusurnar yfir okkur en það kom ekki að sök þar sem vatnið var ekki svo (!) kalt. Ferðalagið var þó ekki alveg dramalaust því hinum bátnum hvolfdi. Í honum voru fyrir utan fararstjóra, tveir Kanadamenn og tvær hollenskar stelpur. Önnur þeirra panikaði þegar hún lenti undir bátnum. Hún gleymdi öllu sem fararstjórinn hafði sagt og flaut stjórnlaust niður ánna. Okkar bátur var á undan og þar sem stúlkan flaut framhjá þá náði Reynir að rétta árina að henni svo hún gæti gripið í og síðan komist að landi. Stúlkan var alveg sannfærð um að Reynir hefði bjargað lífi sínu og þakkaði honum oft og mörgum sinnum fyrir lífgjöfina. Reynir var því hetja dagsins :-)

fimmtudagur, 28. janúar 2010

Karabíska hafið

Eftir dagana í Panamaborg hvíldum við okkur í 2-3 daga en sigldum svo til Bocas sem er stærsti bærinn á eyjaklasanum hér út fyrir ströndinni. Eyjarnar eru vinsæll en afslappaður ferðamannastaður því þangað koma einna helst ungir bakpokaferðalangar. Þar dvöldum við í 2 daga og sigldum, leituðum að höfrungum, busluðum í sjónum og snorkluðum.

Fyrri daginn sigldum við yfir á Bastimentos eyju þar sem strönd hins rauða frosks er að finna. Svæðið er friðað og ótrúlega fallegt.


Feðgarnir á leið á Red Frog Beach.

Seinni daginn leigðum við okkur bát með skipstjóra sem sigldi með okkur á milli eyjanna og fræddi okkur um staðhætti og dýralíf. Fyrst fengum við að sjá krossfiska, ígulker, sæbjúgu og ostrur.


Krossfiskur og ostrur á Mangrove tréi en það eru tré sem vaxa í saltvatni.


Sunnefu kitlaði því ígulkerið "labbaði" í lófanum.


Síðan lá leiðin í Dolphin Bay þar sem við sáum höfrunga að leik.


Þá gaf skipstjórinn í og setti stefnuna á Zapatillas eyjar sem liggja yst í eyjaklasanum. Eyjarnar eru tvær og algjörlega friðaðar.


Zapatillas þýðir skór en eyjarnar líta út eins og tvö fótspor á landakortinu.


Bassi og Sunnefa komin út í sjó við Zapatillas eyjar.


Lokastoppið var í Coral Cay þar sem bræðurnir syntu meðal litríkra fiska og skoðuðu kóralrif.


Hér er það Bassi sem kíkir á fiskana.


Við Reynir og Sunnefa horfðum á.

föstudagur, 22. janúar 2010

Embera indíánar

Í tilefni afmælis Reynis eru Bassi og Sunnefa í heimsókn hjá okkur. Í heila viku höfum við nú ferðast og skemmt okkur saman. Án efa verður heimsókn okkar til Embera indíánana sem búa við Rio San Juan de Pequini minnisstæðust. Embera indíánarnir eru einn af sjö indíánaflokkum í Panama. Árið 1984 var svæðið þar sem indíánarnir búa, gert að þjóðgarði sem gerði það að verkum að þeir máttu ekki lengur stunda landbúnað og veiðar eins og þeir höfðu gert um áraraðir. Til að komast af, bjóða þeir nú ferðamönnum að koma og fræðast um lífshætti sína.

Leiðsögumaður okkar var Anne Gordon, amerísk kona, sem giftist inn í Embera ættflokkinn. Hún sótti okkur á hótelið í Panama borg og keyrði í u.þ.b. klukkustund þangað sem vegurinn endaði við Chagres fljótið. Þá tók við klukkustundar sigling upp fljótið. Báturinn var hogginn trjábolur með öflugum utanborðsmótor.


Ferðalangar að leggja af stað.


Afmælisbarnið

Indíáni í stafni að vísa veginn að litlum fossi.


Þeir bræður að baða í fossinum. Hver er hvor?


Þegar við komum til þorpsins var tekið á móti okkur með tónlist.


Okkur var boðið að valsa um og skoða hús og híbýli.


Þessi litli strákur var örlítið feiminn en leyfði mér samt að taka mynd af sér.


Eitthvað hefur myndasmiðurinn verið fyndinn!


Við gátum keypt handfléttaðar körfur og útskornar styttur.


Hér segir yfirmaður ferðamála frá högum þeirra og búsháttum. Leiðsögumaðurinn túlkar.


Að loknum hádegisverði. Kokkurinn okkar í baksýn. Í boði var kjúklingur og djúpsteiktir bananar.


Eftir hádegisverðinn fengum við leiðsögn um lyfjakistuna, þ.e. næsta nágrenni. Við lærðum um lækningamátt ýmissa plantna og prófuðum m.a. staðdeyfingu í munni sem indíánarnir nota þegar þeir fá tannpínu. Bassi náði þessari mynd af tarantúlu sem var svona auka bónus í þessari ferð.


Við Birkir og Bassi fengum okkur tattoo eins og hinir indíánarnir sem þó endist aðeins í 8-10 daga.


Indíánarnir uppgötvuðu að Birkir talar svolítið í spænsku. Þeir voru jafn forvitnir um hagi okkar eins og við þeirra. Þeir vildu vita innbyrðis tengsl okkar (hver var mamman, pabbinn og hver börn og hvað). Þeir hlógu mikið þegar það uppgötvaðist að Birkir ætti enga kærustu og spurðu hvort hann gæti ekki hugsað sér að eignast eina úr Embera ættflokknum :-)


Að lokum sýndu konurnar hefðbundinn dans sem endaði með þátttöku okkar. Til allrar hamingju er ekki til nein mynd af því ....

miðvikudagur, 13. janúar 2010

Himnarnir opnast

Venjulega er regntími hér í nóvember og fram í desember og svo þurrkatímabil fram í júlí. Og viti menn, síðan fyrir jól hefur verið fínt veður svo á frídögum hef ég getað legið og sólað mig við sundlaugina. Veðrið er þó óútreiknanlegt og aldrei stöðugt lengi í einu. Eftir marga daga með fínt veður gerði úrhellisrigningu á sunnudagskvöldið sem stóð yfir í tvo sólarhringa. Á einum sólarhring var úrkoman 200 mm sem er svona um fimmtungur af ársúrkomu í Reykjavík. Hér fór því allt á flot og vegur sem lá fyrir ofan stíflustæðið skolaðist í burtu.


Fyrir ...


Eftir ...

P.S. Í augnablikinu skín sólin aftur og blómin farin að kíkja upp úr pollunum í garðinum.

mánudagur, 11. janúar 2010

Manntal í Panama

Við Reynir skruppum til fisksalans í Almirante um daginn sem væri ekki í frásögur færandi nema þar sem ég stóð fyrir utan og beið á meðan fisksalinn hjó humrana okkar í tvennt þá sá ég tvær atvinnuauglýsingar sem vöktu athygli mína. Það var verið að auglýsa eftir fólki til að vinna við manntalið í Panama árið 2010. Málið er mér skylt. Allar siðmenntaðar þjóðir gera manntal á tíu ára fresti. Við Íslendingar erum á undanþágu hér eins og svo oft áður svo við gerum manntal aðeins annað slagið. Síðast árið 1981 (ef ég man rétt). Manntal sem því miður var aldrei gefið út. En ég hef áræðanlegar heimildir fyrir því að Hagstofan í samstarfi við nokkrar aðrar stofnanir muni gera manntal árið 2011. Rétt er að taka fram að alls ekki allar þjóðir eiga þjóðskrá sem hefur gert Hagstofunni kleift að birta reglulega tölur um mannfjölda.

Það eru tvær skyldar stofnanir sem eru að auglýsa eftir fólki. Önnur auglýsir eftir verkstjórum en hin almennum starfsmönnum. Talsverður munur er á kröfum um kunnáttu og reynslu. Verkstjórar þurfa að hafa reynslu af vinnu við annað hvort manntal eða kosningar og helst hafa haft mannaforráð. Almennir starfsmenn þurfa að vera orðnir 18 ára og hafa lokið 2. skólastigi. Sameiginlegar kröfur eru hæfni í mannlegum samskiptum, vilji til að vinna um helgar og að lokum þurfa allir sem vilja vinna við manntalið að vera bæði orkumiklir og heilir heilsu.


Auglýsing eftir verkstjórum (tvísmellið til að stækka myndina).


Auglýsing eftir almennum starfsmönnum við manntalið.

Ég er alvarlega að hugsa um að bjóða fram starfskrafta mína sunnudaginn 16. maí nk.

sunnudagur, 3. janúar 2010

Áramót í Panama

Á gamlársdagskvöld var haldið mikið grillpartý með heilsteiktu svíni og lambi auk meðlætis. Diskótek og sprengingar á eftir. Margir fara heim til Evrópu um jól og áramót en þó nokkur hópur var hérna í vinnubúðunum. Ég hitti grillmeistarann um hádegi á gamlársdag. Það var greinilegt að allt var undir kontról enda náið fylgst með og passað. Kveikt var undir svíninu klukkan fjögur aðfararnótt gamlársdags en lambinu um hádegi.


Grillmeistarinn, Henrik Skov Nielsen, með svínið í bakgrunni og lambið í forgrunni. Svínið var grillað og passað í 14 tíma en lambið í 6 tíma. Þetta er svakalega gott kjöt, sem var úðað með saltlegi og olíuborið af natni.


Hér erum við svo ég og Anna Margrét á leið í partýið. Reyndar óskuðum við hvert öðru gleðilegs árs klukkan 19 þegar nýja árið gekk í garð á Íslandi, þó fimm tímar væru til Panama áramótanna. Við endurtókum bara leikinn fimm tímum síðar.