sunnudagur, 31. janúar 2010

Flúðasiglingar

Síðustu dögum frísins vörðum við fjölskyldan í Boquete. Það skemmtilegasta sem við gerðum þar voru flúðasiglingar með Panama Rafters. Eigandi fyrirtækisins er bandarískur ævintýramaður sem sagði mér að okkur væri óhætt að taka Jaguar ferðina jafnvel þó við værum ekki vön flúðasiglingum. Svo lengi sem við værum venjulegt og heilsuhraust fólk þá væri okkur óhætt. Við sigldum því um 15 km, í tæpa þrjá tíma niður ánna Chrirqui Viejo. Á leiðinni er að finna nokkrar flúðir með erfiðleikastig 4 (fyrir þá sem til þekkja).

Það var mikið á sig lagt því ferðalagið að ánni tók rúma þrjá klukkutíma í lítlli rútu með lélegum höggdeyfum og kúplingu.


Þegar við komumst ekki lengra á bílnum tóku hestar við og báru gúmmíbátana síðasta spölinn að ánni.


Við ánna þurfti að blása bátana upp.


Hér erum við komin með allar græjurnar; hjálma, vesti, skó og árar.


Það tók smá stund að blása upp bátana svo þeir bræður, Bassi og Birkir, notuðu tækifærið og hoppuðu nokkrum sinnum af kletti í ánna.


Þessi ofurhugi á kajaknum fylgdi okkur niður ánna. Hér lætur hann sig gossa af sillu niður í ánna.


Feðgar að hlusta á fyrirlestur fararstjórans um rétt viðbrögð í hættulegum aðstæðum.


Áður en lagt var af stað þá þurftum við að pakka myndavélinni niður í vatnshelda tösku svo þessa mynd tók ofurhuginn á kajaknum. Bassi og Birkir eru fremstir, þá Sunnefa og ég, og loks Reynir og fararstjórinn okkar.

Fararstjórinn stjórnaði með stuttum skipunum og undir það síðasta vorum við orðin eins og einn maður þegar hann öskraði á okkur að róa áfram, afturábak eða henda okkur niður í bátinn þegar hætta var á að detta útbyrðis.

Við fengum reglulega gusurnar yfir okkur en það kom ekki að sök þar sem vatnið var ekki svo (!) kalt. Ferðalagið var þó ekki alveg dramalaust því hinum bátnum hvolfdi. Í honum voru fyrir utan fararstjóra, tveir Kanadamenn og tvær hollenskar stelpur. Önnur þeirra panikaði þegar hún lenti undir bátnum. Hún gleymdi öllu sem fararstjórinn hafði sagt og flaut stjórnlaust niður ánna. Okkar bátur var á undan og þar sem stúlkan flaut framhjá þá náði Reynir að rétta árina að henni svo hún gæti gripið í og síðan komist að landi. Stúlkan var alveg sannfærð um að Reynir hefði bjargað lífi sínu og þakkaði honum oft og mörgum sinnum fyrir lífgjöfina. Reynir var því hetja dagsins :-)

3 ummæli:

  1. Þetta hefur verið gaman :) Og já Reynir þú ert sannkölluð hetja!

    SvaraEyða
  2. Jeiii hvað þetta er gaman hjá ykkur
    bestu kveðjur

    SvaraEyða
  3. Hljómar mjög skemmtilega! Reynir, þú hefur aldeilis staðið þig vel í björgunaraðgerðum! :-)

    SvaraEyða