Aðfangadagur hófst með hringingu vekjaraklukkunnar kl. sex. Eftir að hafa farið í sturtu og kíkt á netmiðlana bjó ég til botninn í límónuköku kvöldsins. Áður en ég fór til vinnu afhenti ég Lupé jólagjöfina sína sem ég hafði pakkað vandlega inn kvöldið áður. Ásamt henni fékk hún dollara í jólakorti sem þakkir fyrir vel unnin störf á árinu sem er að líða.
Unnið var til hádegis en tíminn leið ljúflega með jólastemninguna á Rás 2 í eyrunum. Um miðjan morguninn héldu starfsmennirnir á skrifstofunni sameiginlega jólaveislu svo ég gekk mett heim á leið rétt fyrir hádegi. Þá var stutt í að kirkjuklukkurnar hringdu jólin inn á Íslandi svo ég hringdi í nokkra fjölskyldumeðlimi með hjálp Skype forritsins og óskaði þeim gleðilegra jóla.
Eftir að ég hafði hrært kremið og sett á límónukökuna var komið að meistarakokknum Reyni og aðstoðakokknum honum Birki að taka yfir eldhúsið og steikja endurnar eftir kúnstarinnar reglum. Ég lét mig hverfa út í sólbað. Dúllaði mér svo við að vökva blómin og áður en ég vissi af var ég farin á kaf ofan í blómabeðin að reita arfa. Þegar mér var orðið óhætt aftur í eldhúsinu, bætti ég síðasta laginu á kökuna og skreytti.
Eftir að hafa lagt á borð, skruppum við Birkir í ræktina, hann hjólaði og ég hljóp 7 km á fínum tíma. Fínt að eiga inni fyrir jólamatnum.
Þá tóku við fastir liðir eins og venjulega, þ.e. jólabaðið, dásamlegur jólamatur á slaginu klukkan sex, uppvask, jólagjafir (sem bárust korteri fyrir jól!), yndisleg jólakort frá vinum og fjölskyldu og íslenskt nammi í skál.
![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEgIojOvEVvl6bBQGMQku1zDZeXthRkclSGcca-jlLM1AVAPIama_3_l8WA7x8avHd0eiXOMkCUa1sYd_olo7jgVQ8l7B-uVQ5zycBSXQiMbIrIRj85NDt3Yu1VmBOLKIe6A-ecgFuo5Qpk/s400/Picture+022.jpg)
Birkir ánægður með íslenska nammið sem kom upp úr einum jólapakkanum.
Sjálfur jóladagurinn leið eins og vera ber, á náttfötum með bækur og súkkulaði. Seinni partinn var okkur boðið í jólaboð til hollenskra vina okkar ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Þar fengum við dýrindis indónesískan mat.
![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEiMWtkHqgrDWSpDzWVeo38N9m6IgbL_R8kM9n6rBZDOjCFa1qmjWH2TI6FARRbbZqh67kv66TxF69agFc7rSVfwGI_YkMfAQPYKgb1H3y2vxvOBsupAQL4clRgJGr97c7eYcgShtzKMh_Y/s400/Picture+005.jpg)
Gestir og gestgjafar úti á verönd.
![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEjDL4xoMavFNmgkvHB1Yes6K306QC1ZhET3wAtBPU68YxuR1KXdr-GynT3AQzdu-YCPCqQDHxf3qSbtDjdWjSCJ4ghJs-Lx_dmIMqUtvemTLgF-TSU-sUTWP2JlGsGMWQIXSj6R-fFgx-A/s400/Picture+006.jpg)
Yngsti veislugesturinn var aðeins 2 vikna. Stoltur bróðir og vinkona horfa á litlu Paulinu í fangi Reynis.
P.S. Á öðrum í jólum lá ég við sundlaugina með nýju bókina hans Henning Mankells. Bókin er ekki beint jólaleg en góð er hún.