þriðjudagur, 29. desember 2009

Hvernig voru jólin hér?

Nokkrir hafa spurt mig hvernig það hafi verið að halda jól hér í Langbortistan. Jólin er jú hátíð fjölskyldunnar og við erum hér “ein í útlöndum”. Auðvitað söknum við fjölskyldunnar en það er langt síðan að ég uppgötvaði að jólin koma til okkar hvar sem við erum stödd í heiminum.

Aðfangadagur hófst með hringingu vekjaraklukkunnar kl. sex. Eftir að hafa farið í sturtu og kíkt á netmiðlana bjó ég til botninn í límónuköku kvöldsins. Áður en ég fór til vinnu afhenti ég Lupé jólagjöfina sína sem ég hafði pakkað vandlega inn kvöldið áður. Ásamt henni fékk hún dollara í jólakorti sem þakkir fyrir vel unnin störf á árinu sem er að líða.

Unnið var til hádegis en tíminn leið ljúflega með jólastemninguna á Rás 2 í eyrunum. Um miðjan morguninn héldu starfsmennirnir á skrifstofunni sameiginlega jólaveislu svo ég gekk mett heim á leið rétt fyrir hádegi. Þá var stutt í að kirkjuklukkurnar hringdu jólin inn á Íslandi svo ég hringdi í nokkra fjölskyldumeðlimi með hjálp Skype forritsins og óskaði þeim gleðilegra jóla.

Eftir að ég hafði hrært kremið og sett á límónukökuna var komið að meistarakokknum Reyni og aðstoðakokknum honum Birki að taka yfir eldhúsið og steikja endurnar eftir kúnstarinnar reglum. Ég lét mig hverfa út í sólbað. Dúllaði mér svo við að vökva blómin og áður en ég vissi af var ég farin á kaf ofan í blómabeðin að reita arfa. Þegar mér var orðið óhætt aftur í eldhúsinu, bætti ég síðasta laginu á kökuna og skreytti.

Eftir að hafa lagt á borð, skruppum við Birkir í ræktina, hann hjólaði og ég hljóp 7 km á fínum tíma. Fínt að eiga inni fyrir jólamatnum.

Þá tóku við fastir liðir eins og venjulega, þ.e. jólabaðið, dásamlegur jólamatur á slaginu klukkan sex, uppvask, jólagjafir (sem bárust korteri fyrir jól!), yndisleg jólakort frá vinum og fjölskyldu og íslenskt nammi í skál.


Birkir ánægður með íslenska nammið sem kom upp úr einum jólapakkanum.

Sjálfur jóladagurinn leið eins og vera ber, á náttfötum með bækur og súkkulaði. Seinni partinn var okkur boðið í jólaboð til hollenskra vina okkar ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Þar fengum við dýrindis indónesískan mat.


Gestir og gestgjafar úti á verönd.


Yngsti veislugesturinn var aðeins 2 vikna. Stoltur bróðir og vinkona horfa á litlu Paulinu í fangi Reynis.

P.S. Á öðrum í jólum lá ég við sundlaugina með nýju bókina hans Henning Mankells. Bókin er ekki beint jólaleg en góð er hún.

fimmtudagur, 24. desember 2009

Gleðileg jól!

Kæru vinir og fjölskylda,

Gleðileg jól
og
farsælt komandi ár!

Hafið það sem allra best á þessari hátíð ljóss og friðar. Njótið alls þess sem hún hefur upp á að bjóða; ást og væntumþykju, samveru með fjölskyldunni, jólasteikur, deserta, konfekt, smákökur, jólalög, jólapakka, jólakveðjur og bókalestur fram á nótt.

Jólakveðjur,
Anna, Reynir og Birkir.

þriðjudagur, 22. desember 2009

Innlit - útlit

Í síðustu færslu (20. desember 2009) er mynd af stofunni okkar en tilgangurinn var að sýna nýskreytt jólatréð. Í dag þegar við komum heim úr vinnunni leit stofan svona út:


Hvað finnst ykkur - er stofan betri svona eða var hún betri eins og hún var áður?

Ég hef áður skrifað um Húsbóndann á heimilinu eða Lupé sem er heimilishjálpin okkar. Hún er gull af manni en tekur sig reglulega til og flytur húsgögn og endurraðar í skúffur og skápa. Oftast erum við bara reglulega ánægð með breytingarnar en það kemur líka fyrir að við verðum svolítið tens þegar við finnum hvorki sykurinn né kaffið.

Ég hef þá kenningu að ástæðan fyrir þessum búferlaflutningum sé að Lupé leiðist enda ekki mikið að þrífa eftir þrjár fullorðnar manneskjur. Jafnvel þó hún þrífi húsið reglulega að utan líka. Þetta þekkjum við ekki heima þar sem skiptandi veður sjá alveg um þá deild. Hér er nauðsynlegt að sópa niður kóngulóarvefi og pöddur og skrúbba veröndina þar sem körturnar skilja eftir sig lítil stykki á næturnar.

Nú fara næstu dagar í aðlögun en það er alla vega hreint og fínt hjá okkur :-)

sunnudagur, 20. desember 2009

Jólaundirbúningur

Jæja, þá mega jólin bara fara að koma. Við fórum til Boquete fyrir hálfum mánuði og á leiðinni heim stoppuðum við í David og versluðum fyrir jólin. Okkur til mikillar gleði fundum við tvær amerískar endur í frystinum í súpermarkaðnum svo jólamatnum er reddað. Ég missti mig aðeins í búð sem seldi jólaskraut og keypti eins og fyrir þrjár fjölskyldur. Hjá okkur hefur því verið mjög jólalegt og endahnúturinn hnýttur í dag þegar jólatréð var skreytt. Við höfðum séð lifandi jólatré hjá grænmetissala í Changuinola svo við renndum þangað í dag og keyptum eitt ljómandi fallegt.


Nýskreytt og fínt jólatré í stofunni okkar. Skreytingin á borðinu er í boði Lupé (úr skrauti sem ég hafði keypt).

Það er þó ótrúlegt að í dag sé síðasti sunnudagur í aðventu því himininn var blár og sólin skein svo ég notaði tækifærið og lagðist út í garð í sólbað. Það hef ég annars ekki getað gert í nokkrar vikur vegna regntímans sem er vonandi á undanhaldi núna. En grenilyktin kom mér svo aftur í jólaskapið.

Ég tók eftir því strax í byrjun desember að Panamabúum finnst greinilega eins skemmtilegt að skreyta fyrir jólin og Íslendingum. Það eru bara aðeins færri jólaljós en meira af glitrandi borðum, jólasveinum, hreindýrum, snjókörlum (!) og jafnvel heilu leiksviðin með vitringunum þremur, Jósef, Maríu og nýfæddum Jesú í jötunni.


Þessi mynd er tekin í dag rétt fyrir utan Changuinola. Hér vantar ekkert - meira að segja jólatréð er á sínum stað.


Mér fannst þessar skreytingar líka krúttlegar. Takið eftir að hurðin er klædd með glanspappír. Sjá einnig næstu mynd.




Í Boquete fyrir tveimur vikum.


Fínt hús í David.


Að lokum - ný hugmynd fyrir jólaskreytingar heima?!

fimmtudagur, 17. desember 2009

Ferðin til Kína II

Á síðasta degi ákváðum ég og ferðafélagi minn að skjótast á Kínamúrinn. Rifum okkur upp fyrir allar aldir og tókum leigubíl í tæpa tvo tíma að múrnum. Sem betur fer var sunnudagsmorgunn og lítil umferð. En það var kalt eða mínus 5 stig og við nærri á stutterma og sandölum úr hitasvækju Panama. Ég keypti mér hanska og var í þunnri úlpu sem betur fer. Þetta magnaða mannvirki sem er 8.800 km langt og er heimsótt af milljónum manna ár hvert. Við fórum að Badaling svæðinu sem er fjölsóttasti staðurinn fyrir heimsóknir.


Reynir á Kínamúrnum í desember 2009

Að lokinni heimsókn á Kínamúrinn ákváðum við að fara og sjá hluta af Ólympíumannvirkjunum frá 2008. “Hreiðið” er aðalleikvangurinn í Peking og tekur 91 þúsund manns í sæti. Þetta er talið heimsins stærsta stálvirki eða um 110 þúsund tonn. Stálið er allt framleitt í Kína og þegar mest lét unnu 17 þúsund manns við verkefnið. Óhætt er að segja að “Hreiðrið” er mikið afrek og glæsilegt mannvirki.


Ólympíuleikvangurinn í Peking, "Hreiðrið"

Að öllu þessu loknu hófst ferðin til Panama. Lagt var af stað síðdegis og komið heim eftir 41 tíma ferðalag.

sunnudagur, 13. desember 2009

Jólahlaðborð og Lúsíuhátíð

Í gær hélt fyrirtækið jólahlaðborð fyrir starfsmenn sína eins og svo víða um þessar mundir. Veislan var haldin í klúbbnum en starfsfólkið þar var búið að undirbúa í fleiri daga enda ekki lítið mál að elda ofan í 200 manns. Sérstök matarsending hafði komið frá Danmörku þannig að hægt væri að bjóða upp á hefðbundið danskt / sænskt jólahlaðborð. Á borðum mátti því finna reyktan og grafinn lax, skinku, paté, heita lifrarkæfu, fleskesteg, sænskar kjötbollur, danska osta, ris á l‘amande að ógleymdu jólaglöggi og piparkökum.

Jólahlaðborðið var ekki aðeins fyrir starfsmenn heldur einnig gesti þeirra. Í flestum tilfellum voru það makar og börn en þó mátti sjá mágkonur, tengdamömmur og jafnvel húshjálpina til að hugsa um börnin.

Eftir borðhaldið kom jólasveinninn með gjafir handa börnunum. Með honum voru tvær hjálparsveinur (e. santa's helpers) sem voru sveinka mikil stoð og stytta.


Börnin bíða full eftirvæntingar eftir gjöf frá jólasveininum.


Jólasveinninn með hjálparsveinum.


Flest börnin vildu sitja hjá jólasveinininum.


Þessi börn voru í stærri kantinum ...

Í dag var svo Lúsíuhátíð að sænskum sið. Sætir krakkar sungu falleg lög.



Stoltið leynir sér ekki úr andlitum foreldranna.

föstudagur, 11. desember 2009

Ferðin til Kína I

Ég skrapp sem sagt af bæ og til Kína. Átta daga vinnuferð nú í byrjun desember. Þetta var mikið ferðalag í bókstaflegri merkingu og langt flug héðan frá Panama. Ferðin var farin til að skoða virkjanaframkvæmdir svipaðar því sem við vinnum að hér í Panama. Til að komast til Kína frá Panama þarf að fljúga hálfan hnöttinn. Við flugum frá Panama City til Houston í Texas, síðan til Los Angeles og yfir Kyrrahafið til Peking. Samtals um 18.500 km. Engin hótelgisting á leiðinni, bara dormað í flugvélum. Peking er virkileg stórborg. Nútímaleg borg með margar háar nýjar byggingar en líka margar gamlar og glæsilegar. Mannfjöldinn og umferðin í Peking er gríðarleg. Þó þetta hafi verið langt ferðalag, þá náðum við ýmsu áhugaverðu auk vinnunnar.


Forboðna borgin í Peking

Forboðna borgin í Peking er merkilegur staður. Þarna hafði hirð Kína keisara aðsetur í 5 aldir. Borgin var byggð á árunum 1406 til 1420. Samtals tæplega eitt þúsund byggingar á 7.200 hektara svæði. Borgin forboðna er nú inni í miðri stórborginni Peking. Svæðið og byggingarnar hafa verið safn í tæp 90 ár og er á heimsminjaskrá UNESCO yfir merkilegar tumburbyggingar. Maður gengur í gengum fjöldann allan af torgum og húsum sem öll hafa sína sögu og eru byggð undir einhvern nafngreindan eða ákveðna starfsemi.


Ég fyrir framan innganginn í forboðnu borgina með formanninn í bakgrunni

Mjög vel var tekið á móti okkur og við bornir á höndum. Við flugum til Minyang borgar sem er um tveggja tíma flugferð frá Peking. Minyang er sex milljóna manna borg sem telst ekki mikið í Kína. Þar í nágrenninu er verið að reisa vatnsorkuver og stíflu sem nota á til framleiðslu á rafmagni og til áveitu. Verkefnið er kallað Wudu verkefnið. Okkur var sagt að nú væru yfir 30 þúsund stíflur í Kína. Verið er að reyna að útvega 1,6 milljarði manna vatn til neyslu, landbúnaðar og einnig til rafmagnsframleiðslu. Þetta er tröllvaxið verkefni og var að heyra að gríðarlegar framkvæmdir þurfi til að allir fái sitt.


Yfirlit yfir stíflu og stöðvarhús í Wudu

Við skoðuðum framkvæmdir í stórum hópi fylgdarmanna og jafnvel ljósmyndara. Ekki veit ég af hverju það var en allar viðtökur voru glæsilegar af hálfu heimamanna.

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Í dag kom út fyrsta jólalag Baggalúts á þessari aðventu; "Hvað fæ ég fallegt frá þér?" Ég sit og hlusta á það svona til að komast í jólastuð. Ég get nú ekki sagt að það sé beint jólalegt hér þó það sé bæði vetur og skammdegi á panamískan mælikvarða. Nóvember er sá mánuður sem rignir mest hér. Síðustu tvær vikur hefur rignt á hverjum degi, stundum mikið en aðra daga minna. Nokkra morgna hef ég því farið berfætt í krókódílaskónum mínum (bláir plastskór) og regnslá í vinnuna. Hitinn hefur lækkað, er oft aðeins um 25 gráður. Skammdegi hér þýðir að myrkrið skellur á um klukkan 18 í stað klukkan 19 á sumrin. Eins verður bjart hálftíma til klukkutíma seinna á morgnana eða um klukkan hálf sjö.

Annars er það að frétta af jólaundirbúningi að jólagjafirnar eru í höfn og ef eitthvað er að marka Baggalút þá "snýst þetta allt um pakkana". Ég hafði miklar áhyggjur að þeir kæmust ekki til Íslands fyrir jól en viti menn það tók kassann með jólagjöfunum ekki nema fimm daga með DHL að komast til Reykjavíkur frá Changuinola.

Ég reikna með að baka 2-3 smákökuuppskriftir en jólamaturinn er ennþá óráðinn. Hér fást engar endur svo hinn hefðbundni jólamatur okkar er út úr myndinni. Jólamaturinn er ekki til að spauga með en ætli þetta reddist ekki einhvern veginn og jólin komi þrátt fyrir allt. Ég frétti líka að von væri á gámi með dönskum jólamat sem verður á jólahlaðborði hér í klúbbnum þann 12. desember næst komandi.

Eins og sannir Íslendingar erum við búin að setja upp jólaseríur. Ætli þetta verði ekki fyrsta og eina árið sem við erum fyrst af öllum að setja upp jólaljós. Við keyptum þessar fínu seríur í Úlfakringlu sem að vísu dóu hver af annarri fyrstu dagana þannig að aðeins þrjár af sex eru ennþá lifandi. Ég flýtti mér því að taka mynd af herlegheitunum ef nú líftíminn skyldi aðeins vera talinn í klukkutímum. Ljósin blikka bara „lítið“ svo við vonum að nágrannarnir fái svefnfrið.

Að bregða sér af bæ.....

Ég hef brugðið mér af bæ. Ég mun gera grein fyrir því frekar innan skamms í texta og myndum.

sunnudagur, 22. nóvember 2009

Flogið yfir trjátoppa

Það skemmtilegasta sem við gerðum í Costa Rica var „Canopy tour“. Ég hef ekki fundið neina góða íslenska þýðingu yfir fyrirbærið en málið er að fljúga í frjálsu falli niður fjallshlíð fastur í stálvír. Við fórum í slíka ferð með ævintýrafyrirtækinu Sky Adventure. Myndin hér fyrir neðan sýnir kort af svæðinu. Stöðvarnar eru átta en bæði fjarlægð og hæð er mismunandi á milli stöðva þannig að engin ferð er eins. Á leið sjö er til dæmis stálvírinn 760 m, lækkunin 84 m, hraði 70 km á klukkustund og tíminn sem ferðin tekur 45 sekúndur.


Ferðin milli fyrstu stöðvanna er mjög stutt. Það er til að kynna ferðalöngum fyrirbærið og gefa þeim kost á því að hætta við. Í okkar hópi fór einn „kjúklinga“-gönguna til baka frá stoppistöð númer tvö.


Hér erum við Elísabet komnar í gallann og tilbúnar í slaginn.


Ferðin upp fjallið hófst með 25 mínútna ferð með kláfi upp að fyrstu stöð. Fólki gafst kostur á að taka kláfinn aftur sömu leið niður. Einhver (nefni engin nöfn) hafði á orði að skynsamt fólk gerði einmitt það ...


Útsýnið niður fjallshlíðina og út yfir Arenal vatnið.


Reynir, Anna og Birkir með Arenal eldfjallið í baksýn.


Hér er Birkir næstur í röðinni að leggja af stað í fyrstu löngu salibununa.

Starfsmennirnir voru tveir og greinilega alvanir að koma hópi af mishræddu fólki alla leið niður. Þeir pössuðu að spjalla við alla á meðan þeir festu þá í stálvírinn og hentu þeim síðan af stað.


Og Birkir lagður af stað ...

Birkir gerði þrjár tilraunir til að taka mynd af mér á ferð en tókst ekki (þ.e. hann náði einni af rassinum á mér en hún komst ekki í gegnum ritskoðun). Hér er því að lokum ein af hinum ferðalöngunum að hefja ferð niður leið sjö.



Þetta flug á ógnarhraða yfir trjátoppa var ótrúlega skemmtilegt. Allt frá því að fiðrildin fóru að gera vart við sig í maganum á leið upp með kláfnum, fyrsta hendingskastinu með lokuð augu, til síðustu ferðar þar sem öll skilningarvitin voru galopin að taka inn súsið.

Þetta er auðvitað að öllu hættulaust en ég lenti þó í því að neyðarhemlar fór af stað þegar ég var að koma inn til lendingar á eina stöðina. Í stað þess að renna ljúflega inn á hæfilegum hraða undir stjórn starfsmannsins snarstoppaði ég á miklum hraða (var eins og að lenda á vegg) og hálfrotaðist. Ég slengdist til baka út á vírinn og þurfti að draga mig með höndunum inn á pallinn aftur. Ég gerði auðvitað eins og þegar ég hrundi niður af eldhúskollinum við matarborðið í gamla daga; stóð upp og sagði: „Ég meiddi mig ekki neitt!“ og lét eins og ekkert væri :-)

Sunnudagsmorgunn

Eftir rigningarsama nótt skrapp ég í bíltúr niður á svæði í morgun til að litast um og sjá hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það hefur rignt mikið undanfarna viku eða yfir 100 mm. Allt reyndist í lagi en heldur blautt og lágskýjað. Það er fríhelgi og fáir að vinna.


Verið var að vinna við mölun á efni og lestun. Þarna eru möluð um 6.000 tonn á sólarhring að jafnaði.

Í stíflustæðinu var hópur við ídælingu á sementsgraut undir stífluna en hefjast á handa við uppsteypuna á stíflunni í komandi viku.


Heldur blautt og hráslagalegt í stíflustæðinu en nokkrir karlar við vinnu.

Á meðan á framkvæmdum stendur er vatninu í Changuinola ánni veitt í gegnum hjáveitu. Mikill kraftur og hraði var á vatninu í morgun en engin hætta eða skemmdir.


Vatnsflaumurinn í gegnum hjáveituna.

Þó að hér sé nú "vetur" og blautt, er hitastigið hátt á flesta mælikvarða. Þó að það væri mikil rigning og snemma morguns var hitastigið 25 gráður. Við erum með þetta fallega blóm í garðinum sem blómstrar sem aldrei fyrr. Hvert blóm lifir í einn dag og fellur þá af.


Mikið og tilkomumikið fyrir eins dags líftíma. Blómin frá í gær liggja á jörðinni.

fimmtudagur, 19. nóvember 2009

Virk eldfjöll og heitar uppsprettur

Að morgni þriðja dags okkar á ferðalagi um Costa Rica blasti þessi sjón við okkur. Upp úr virka eldfjallinu Arenal stóð reykjarstrókur en ekkert eldglóandi hraun var þó að sjá eins og túristabæklingarnir höfðu lofað okkur. Eldfjallið er þrettánda virkasta eldfjall heims og hefur verið virkt í rúm fjörtíu ár eða frá því að eldgos hófst árið 1968. Um fjórir metrar bætast við fjallið á hverju ári vegna hrauns og ösku sem koma upp úr gígnum.



Við borguðum dýrum dómum fyrir "herbergi með útsýni" á Hótel Linda Vista Mountain Lodge sem hafði upp á fátt annað að bjóða en einmitt það. Ég var þó ansi hrifin af þessum svönum sem þernurnar brutu handklæðin í.



Eftir miklar keyrslur nutum við þess í botn að slappa af í heitum uppsprettum. Enn eitt sem við Íslendingar gætum lært af. Þarna flæðir heita vatnið upp og einhver snillingurinn bjó til lúxus baðaðstöðu sem einungis hinir efnameiru hafa efni á að heimsækja. Fyrir tæpa 10 þúsund krónur á mann gátum við svamlað í heitum laugum eins og okkur lysti. Staðurinn er kallaður Tabacón Grand Spa Thermal Resort.

Barinn á sínum stað ....

Hér var krafturinn á vatninu svo mikill að ég missti hlýrana á bikini-brjóstahaldaranum niður á mitti. Úps, svona er að vera óvanur ...


Lítur þetta ekki vel út?

Og smá kósí útskot fyrir tvo.


Eftir því sem ofar dró varð vatnið heitara.

Eftir á að hyggja var þetta allra peninganna virði. Sull og busl í heitu vatni úr tærri uppsprettu.

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Friðarfossagarðarnir

La Paz Waterfall Gardens eru norðaustan megin við Poás Volcano National Park. Þar sem garðarnir eru í 1.500 m hæð yfir sjávarmáli rignir mikið og gróðurinn einkennist af því.


Birkir við einn af mörgum fossum í Friðaránni.


Vatnsúðinn náði til okkar þar sem við stóðum á útsýnisbrúnni.


Gróðurinn var einkar fjölskrúðugur.


Eru þessar plöntur ekki kjötætur?

Í görðunum og garðhýsunum voru fuglar, apar, letidýr, fiðrildi, slöngur, froskar og kattardýr.


Þessi fugl sýndi okkur stórkostlegt vænghafið.


Það tók 5 tilraunir að ná kólíbrífugli á mynd!


Auðveldar var að ná letidýrinu á mynd. Sjaldgæft er að sjá þau hreyfa sig en þau klifra víst bara einu sinni í viku niður úr tránum til að gera þarfir sínar.

Að lokum nokkrar myndir úr fiðrildahúsinu. Þar var krökkt af fiðrildum svo við þurftum virkilega að passa okkur að stíga ekki á þau.