þriðjudagur, 30. júní 2009

Vinnumenn, vinnukonur og strákar

Ég fer daglega út á vinnusvæði til að fylgjast með framkvæmdum. Þar eru vinnumenn sem ég stundum tek myndir af.


Þessi flokkur var til dæmis að malbika og þótti mjög gaman að tekin væri mynd af þeim.

Þessa vinnukonu rakst ég á fyrir utan aðalskrifstofuna í öllum herklæðum; með hjálm, öryggisgleraugu og að sjálfsögðu í öryggisskóm. Það er brottrekstrarsök að vera ekki í öryggisklæðum eða að aka hraðar en 40 km/klst á vinnusvæðinum. Þessi vinnukona gerir ekkert slíkt en hún var á leiðinni út á vinnusvæði á "site visit".

Þennan hóp stráka rakst ég líka á í dag. Þeim fannst líka mikið til koma að fá að vera á mynd og ekki síðra að fá að skoða hana á eftir myndatökunni.
Þeir hlógu mikið strákarnir þó það sjáist ekki á þessari mynd

sunnudagur, 28. júní 2009

Stutt helgi

Í gær, laugardag, skruppum við Reynir niður til Almirante eftir vinnu. Ástæðan fyrir ferðinni var að reyna að saxa eitthvað á innkaupalistann sem ég fékk frá Lupé. Ég hafði sagt við hana að hún ætti endilega að láta mig vita ef það vantaði einhverjar hreingerningargræjur. Ég hélt þó að ég væri búin að koma mér upp nægu af slíku. En nei, það vantaði moppu fyrir veröndina, tröppu til að þrífa gluggana að utan, herðatré og brillo bara til að nefna eitthvað. Við fundum svona helminginn á listanum en restin verður að bíða næstu kaupstaðarferðar. Í rápi okkar um bæinn rákumst við á fiskmarkað þar sem við keyptum rækjur. Þeir feðgar skelflettu því rækjur í dag en flestum öðrum en Íslendingum finnst fínna að kaupa þær í skelinni. Rækjurnar voru svo ljúffengar í rækjupasta a la Nanna Rögnvalds í kvöldmatinn.

Í dag stóðum við upp fyrir haus í garðvinnu. Það er heilmikið mál að fá venjulegan garð til að dafna sem hljómar undarlega þegar litið er til gróðursins sem vex hér allt um kring. Til að gras geti lifað þarf að grafa smá áveituskurði í lóðirnar til að veita rigningarvatninu í burtu. Það er líka mikill leir í jarðveginum sem garðplöntur þrífast illa í. Því er algengt að fólk hafi plöntur í pottum helst í skjóli fyrir rigningunni á veröndinni. Við fengum gefins nokkrar slíkar frá fólki sem var að fara heim og máttum líka taka plöntur úr garðinum þeirra. Við sóttum því mold og gróðursettum í potta en nokkrar plöntur fóru beint í garðinn. Þrjár plöntur sóttum við í skóginn hér fyrir neðan en þar fundum við meðal annars „Iðnu Lísu“ sem er vinsælt stofublóm á íslenskum heimilum.


Hluti af afrakstri dagsins

laugardagur, 27. júní 2009

Hljóðin í garðinum

Sídegis og þá sérstaklega rétt fyrir sólarlag heyrist óvenju hátt í "náttúrunni". Við tókum þetta mynd/hljóðband upp í garðinum eitt kvöldið um klukkan 19 þegar sólin var að setjast.

miðvikudagur, 24. júní 2009

Hér búum við

Vinnubúðirnar (camp 2) eru staðsettar í fjallshlíð í um 20 km fjarlægð frá Changuinola og 15 km frá Almirante. Hér búa um 125 manns frá 23 þjóðlöndum. Fyrstu starfsmennirnir fluttu hingað um sl. áramót en fyrir þann tíma bjuggu flestir í Changuinola. Vinnusvæðið er svo í 5 km fjarlægð héðan. Þegar verkinu lýkur ætlar eigandi húsanna að selja eða leigja þau ríkum Ameríkönum sem flykkjast hingað til Panama til að njóta elliáranna.

Næstu fjórar myndir eru teknar fyrir framan íbúðina sem við bjuggum í fyrstu vikurnar.


Litlu fjölskylduhúsin


Fyrir miðri mynd er aðalskrifstofan og við krossgöturnar er varðskýlið


Fyrir miðri mynd er skólinn og læknastofan. Í hægra horninu sést í leikskólann. Bletturinn fyrir framan verður tyrftur í næstu viku.


Hús með einstaklingsíbúðum

Í klúbbhúsinu (Toucan club) er að finna íþróttaaðstöðuna, veitingastaðinn og barinn. Fyrir aftan klúbbhúsið er verönd þar sem notalegt er að borða á kvöldin.


Sundlaugin er líka fyrir aftan klúbbhúsið

Eftirfarandi myndband er tekið úr garðshorninu við húsið okkar. Það byrjar og endar við hús nágrannans. Það sést í húsið okkar rétt áður en hringnum lýkur. Í myndina vantar nýja hengirúmið okkar sem hengt var upp á veröndinni í fyrradag :-)

þriðjudagur, 23. júní 2009

Mímósur – blómin sem þykjast visna



Víða við vegarkantinn má finna mímósur en það eru blóm sem láta blöðin falla saman þegar þau eru snert. Það er mjög gaman að strjúka höndinni yfir dreifina og sjá hvernig blöðin eins og visna undan höndinni. Blöðin breiða svo aftur úr sér innan nokkurra mínútna.




Hægt er að lesa nánar um mímósur á Wikipedia

mánudagur, 22. júní 2009

Mér finnst rigningin góð

Hér rignir oft í viku, sérstaklega á þessum árstíma. Stundum koma bara nokkrir dropar, oft fáum við dembur en stundum rignir bæði ”eldi og brennisteini”. Þá leggst öll útivinna af og fólk leitar sér skjóls þar sem hægt er. Á augabragði breytast smálækir í fljót og vegir fara í sundur eins og þeir væru smáslóðar.



Hér sést hvar einn starfsmaður hefur ekki séð veginn nógu vel og keyrt ofan í ræsi.

Það sem ótrúlegast er við þetta er að hversu fljótt allt er að þorna aftur. Innan við klukkustund er allt orðið þurrt enda hitinn á daginn um 30 stig. Loftrakinn er þó mikill og flestir eru með ”rakagleypi” heima hjá sér. Við hellum 10 lítrum af vatni 1-2 sinnum á sólarhring úr okkar tæki.

sunnudagur, 21. júní 2009

Á ströndinni

Þessi helgi er fríhelgi, þ.e. ekki var unnið í gær, laugardag. Þá bruna hvítu vinnubílarnir af stað með fólk sem vill nota tækifærið til að komast aðeins úr vinnubúðunum. Við vorum engin undantekning og fórum til eyja sem liggja hér rétt fyrir utan meginlandið. Tekinn er báta-strætó frá Almirante og siglt til Bocas sem er vinsæll ferðamannabær.

Báta-strætóstoppistöð í Bocas

Til Bocas flykkist fólk sem vill kafa og "surfa" á brimbretti. Í þessum litla bæ eru tvær búðir sem selja vörur sem eru ómótstæðilegar fyrir túrista, svo sem sænskt hrökkbrauð (keypti tvo pakka), ítalskt pasta, þýskt morgunkorn, danskir ostar og Häagen-Dazs ís (stóðst það alls ekki).


Þaðan lá leiðin með öðrum hraðbát til strandar rauða frosksins (Red Frog Beach) á Bastimento eyju.



Þetta hlýtur að vera ströndin þar sem myndirnar eru teknar fyrir auglýsingabæklingana því aðra eins dýrð höfðum við ekki séð. Hvítur sandur, hreint og hlýtt haf þar sem öldurnar skella manni á bólakaf á fyrstu mínútunum (ég rétt náði að bjarga sólgleraugunum ...).










Á leið heim frá Bastimento eyju

Áður en við sigldum frá Bocas þá fengum við okkur að borða á ítölskum veitingastað.


Birkir aðeins að teygja sig eftir matinn ...

Í dag erum við svolítið bíldótt því eitthvað hefur farist fyrir að strjúka sólarvörninni jafnt yfir. Útsettir staðir eins og ristar, hnésbætur, hálf mjöðm og önnur öxlin hafa því fengið extra umgang af Aloa Vera "Burn Relief Gel" í dag.

Að fara í ána

Fyrir tveimur vikum lukum við við gerð brúar yfir smáfljót sem heitir Rio Risco. Á byggingartímanum var notast við bráðabirgðabrú og hafði fljótinu verið veitt undir hana. Um 100 metrum fyrir neðan brúna er þvotta- og baðaðstaða indíánanna sem búa í grendinni. Vekkaupi okkar sér um öll samskipti við indíánana og ég tilkynnti skilmerkilega um að nú tækjum við nýju brúna í notkun og tímabundin ”mengun” kæmi í ána þegar við flyttum hana og rótuðum í moldinni með gröfum. Okkur var tjáð að þetta væri ekkert mál og þeir mundu tilkynna um þessa röskun en við mættum ekki gera þetta eftir klukkan sex að kvöldi. Það var ekkert mál en ég spurði um ástæðuna og fékk þá skýringu að eftir klukkan sex færu pör saman í ána til að stunda kynlíf. Húsin eru lítil og barnaflokkar allt um kring svo lítið næði er heimavið. Okkur þótti sjálfsagt að verða við þessu þannig að ekkert var rótað í ánni af okkur eftir klukkan sex. Ég er hræddur um að risið yrði heldur lágt á sumum ef nota ætti Elliðaárnar eða Glerána á Akureyri til slíkra leikja.


Þvotta- og baðaðstaða indíána við Rio Risco ána

fimmtudagur, 18. júní 2009

Lupé

Ég verð að viðurkenna að ég er feimin við þjónustufólk. Við Íslendingar erum ekki vön að láta þjóna okkur og alls ekki inni á eigin heimili. En þar sem við fluttum í húsið okkar um síðustu helgi þá þótti tilheyra að við yfirtækjum þjónustustúlku fráfarandi staðarstjóra frá og með þeim degi. Fyrsti dagur Lupé hjá okkur var svo í dag. Hún kom með rútunni frá Almirante rétt fyrir sjö og beið fyrir utan þegar ég kíkti út um eldhúsgluggann um sjöleytið. Ég var til allrar lukku komin í fötin og bauð henni inn. Lupé talar bara spænsku og gafst ekki upp þó skilningur minn væri takmarkaður. Töluverður tími fór því í „umræður“ um hvernig og hversu oft hún ætti að skipta á rúmunum. Ég flýtti mér svo bara í vinnuna og vonaði hið besta ...

Ég kom svo heim um hádegi og þá voru stólar upp á borðum og búið að færa til húsgögn. Áður en ég fór aftur í vinnuna „spurði“ Lupé mig hvort ekki væri allt í lagi að hún væri búin að breyta svolítið til í eldhússkápunum. Mér var nokk sama þó skurðarbrettin væru nú þar sem ruslapokarnir voru áður svo ég sagði bara „si, si“, brosti og fór aftur í vinnuna. Þessi jákvæðu viðbrögð hafa greinilega verið mikil hvatning því þegar við komum heim um fimmleytið var Lupé búin að „endurhanna“ heimilið. Búið var að snúa og búa upp rúmið í gestaherberginu (tilbúið fyrir ykkur kæru gestir), flytja óhreinatauskörfuna, ruslafötuna, raða leirtaui og hnífapörum og síðast en ekki síst brjóta og raða í alla fataskápa og -skúffur, þar með talið nærfataskúffur heimilisins. Ég verð að viðurkenna, við urðum öll svolítið feimin að sjá samanbrotnar nærbuxurnar í skúffunum okkar.

Þið látið mig svo bara vita þegar ég er farin að kvarta yfir „the house maid“ :-)

miðvikudagur, 17. júní 2009

Maurarnir að flytja skóginn

Á göngustíg frá húsinu okkar niður að skrifstofu eru maurarnir á fullu að "flytja skóginn".

Smáu dýrin stóru


Í vindbaði - Einn af daglegum gestum hjá loftkælingunni okkar


Bjöllurnar eru ansi stórar - þessi er að vísu dauð ...


Er þetta fugl eða fiðrildi? Ca 5 cm í þvermál ...


Padda í felulitum.

Hvað erum við að gera?

Við vinnum öll fyrir Changuinola Civil Works Joint Venture (CCWJV) sem er samsteypa fyrirtækjanna Pihl og MT Höjgaard. Verkefnið er bygging Changuinola virkjunarinnar sem er 210 MW vatnsaflsvirkjun ásamt 10MW smávirkjun sem er til komin vegna kröfu um að vatni sé ætíð sleppt í gamla farveg Changuinola fljótsins. Um er að ræða RCC (steinsteypu) stíflu, um 90 metra háa, aðrennslisgöng, stöðvarhús og síðan frárennslisskurð. Virkjunin er staðsett í regnskógi og bara gerð aðkomuvega er feikna verkefni með skógarhöggi, brúargerð og ræsisvinnu. Virkjunin er staðsett Karabíuhafsmegin í Panama. Hér rignir mikið og því mjög rakt en hitastigið er um 30-35 gráður um miðjan dag en lægra á öðrum tíma sólarhringsins.


Yfirlitsmynd yfir vinnusvæðið

Hjá CCWJV vinna um 1.600 manns en þar af eru um 150 útlendingar. Þetta er gríðarlegur fjöldi og bara það að finna út þræði og uppbyggingu verksins er ríkt verkefni. Verkefnið er komið til CCWJW gegnum sænska fyrirtækið Skanska og margir fyrrum starfsmenn þess eru hér. Mjög margir þeirra eru spænskumælandi sem náttúrulega er mikill kostur.

Reynir er einn af þremur framleiðslustjórum og ber ábyrgð á jarðvinnu, vegagerð og efnisvinnslu. Jarðefni eru unnin úr Changuinola fljóti, því ekið upp í steinbrjót og síðan unnið til steypuvinnslu. Að lokum er því ekið í steypustöðvarnar. Alls þarf að framleiða um eina og hálfa milljón rúmmetra af efni.


Unnið að efnistöku úr Changuinola fljóti

Reynir ber líka ábyrgð á allri vegagerð, bæði lagningu varanlegra vega og vinnuvega. Einnig á allri jarðvinnu ofanjarðar þar með talið hreinsun stíflustæðis fyrir stífluvegginn. Að lokum þarf að færa farveg Changuinola fljótsins og gera bráðabirgðastíflur. Fjöldi starfsmanna á þessum verkhluta eru um 300.


Búkollur við vegavinnu

Anna vinnur við kostnaðareftirlit. Það er fullt starf enda verkefnið umfangsmikið. Það hófst árið 2007 og áætluð verklok eru í apríl 2011.

Birkir vinnur á rannsóknarstofunni. Er bæði úti á vinnusvæði að taka sýni af steypu og steinefnum og inn á rannsóknarstofunni að gera mælingar. Hann er sá sem mun læra fyrst spænsku af okkur þremur þar sem nær allir vinnufélagarnir tala einungis spænsku.


Rannsóknarstofan

mánudagur, 15. júní 2009

Indíánar við Changuinola fljótið


sunnudagur, 14. júní 2009

Bleiku húsin

Við Íslendingar þykjum litaglöð þegar litið er til húsinna okkar. Berum þau til dæmis saman við húsin í Danmörku þar sem öll hús eru byggð úr múrsteinum. Þar er aðeins hægt að velja um tvo liti, gulan og rauðan. Hér í Panama myndu Íslendingar þykja íhaldssamir í litavali því hér er "allt" leyfilegt. Ég tek ekki lengur eftir öllum litunum á húsunum hér en bleikum húsum tek ég ennþá eftir. Mér til skemmtunar tók ég eftirfarandi myndir af húsum á leið frá borginni David til Almirante. Bleiki liturinn hefur greinilega ekkert með stéttarskiptingu að gera því allt frá minnstu kofaskriflum í glæsivillur með blómum í stíl fann ég þennan dag. Sjá ...









Letidýrið

Það eru strangar reglur um verndun plöntu- og dýralífs í kringum Changuinola fljótið. Til dæmis eru allar orkídeur sem finnast á vinnusvæðinu fluttar í sérstakan reit. Þetta letidýr var engin undantekning frá reglunni. Það uppgötvaðist einn morguninn á miðjum vegi og var hjálpað yfir veginn. Þetta reyndist vera kvendýr sem átti von á afkvæmi.



Þar sem alls ekki má koma við letidýr vegna sýkingarhættu þá var stiku haldið upp við dýrið þannig að það gat gripið um stikuna eins og því er eðlislægt. Letidýrið komst því heilu og höldnu yfir á hinn vegarhelminginn eins og það ætlaði sér.

Kaupstaðarferð

Changuinola (borið fram Tjanginóla) er í um hálftíma fjarlægð frá staðnum sem við búum. Til að komast þangað keyrum við niður um "fjöll og firnindi", þ.e.a.s. svona krókóttan fjallaveg. Þegar verið er að útskipa bönunum þá keyra stórir gámabílar líka þennan veg því þeir flytja banana frá plantekrunum við Changuinola til hafnarbæjarins Almirante. Þetta eru víst flutningabílar sem ekki ná skoðun lengur í Bandaríkjunum og því í mismunandi ásigkomulagi. Ekki alveg víst alltaf hvort þeir drífi upp lengstu brekkurnar.

Tilgangurinn með kaupstaðarferðinni er að versla. Aðalbúðin á svæðinu heitir Wolf Mall og er svona eins og kaupfélögin í gamla daga þar sem öllu ægir saman. Þarna er fjórhjólum stillt upp við hliðina á karlmannanærbuxum (kannski bara lógískt :-)) og hækjurnar eru hjá íþróttavörunum. Það truflar aðeins Íslendinginn að um leið og komið er inn í búðina þá fylgir manni starfsmaður. Það er sem sagt stelpa sem gengur í humátt á eftir manni (innan við 2 metra fjarlægð) og tekur og heldur á vörunum sem maður vill kaupa (einskonar innkaupakarfa). Þegar maður gefur svo til kynna að innkaupunum sé lokið þá fer hún með vörurnar á kassann og las upp verðin fyrir stúlkuna á kassanum. Þetta telst víst til góðrar þjónustu ... :-)


Götumynd frá Changuinola.

Ferðin út

Ferðalagið til Panama gekk vel en fjögur flug á fjórum dögum er samt ekki eftirsóknarvert. Á föstudegi flugum við Birkir til Kaupmannahafnar en þar hittum við Bassa og Sunnefu. Ítalskur ís í miðbænum og bjór niður við nýja Skuespilhuset við kanalinn (sjá mynd) tilheyrir í eins dags ferð til Köben.



Bassi hljálpaði mömmu sinni að kaupa nýja myndavél. Eftirfarandi mynd af Bassa og Sunnefu er fyrsta myndin sem ég tók á nýju Nikon myndavélina mína.



Sunnudagurinn var tekinn snemma með flugi til Amsterdam og svo seinni partinn áleiðis til Panama City. Það flug eru tæpir 11 tímar en gekk vonum framar. Fín þjónusta og góðar bíómyndir í tækinu. Við vorum þó orðin ansi slæpt þegar við komum inn á El Panama Hotel en þá var kl. tvö eftir miðnætti á dönskum tíma. Þar fengum við svítu sem Birki fannst ekki leiðinlegt að prófa - fannst synd að stoppa svona stutt á svona fínu hóteli :-)

Síðasta flugið var til Changuinola. Það átti að vera um hálf sjö á mánudagsmorguninn en við fengum að vita af 2-3 tíma seinkun þegar við komum á flugvöllinn. Flugvélin var lítil rella sem tók aðeins 20 farþega. Við vorum öll spurð um þyngd því það var eitthvað tvísýnt um hversu mikill farangur kæmist með vélinni. Eitthvað hefur meðalþyngdin verið í þyngra lagi því aðeins helmingurinn af farangrinum komst með. Eftir á að hyggja var það líka smá "scary" að við vorum spurð um nafn og símanúmer nánasta ættingja (next of kin) við innritun í flugið :-)


Við Birkir lent heilu og höldnu í Changuinola.

laugardagur, 13. júní 2009

Hvar erum við eiginlega?

Við, Anna, Reynir og Birkir, fluttum vorið 2009 til Panama.

Við búum í búðum (camp) reistar fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra sem vinna við að reisa vatnsaflsvirkjun við Changuinola fljót. Búðirnar eru upp í fjallshlíð í um 35 km fjarlægð frá Changuinola þorpi, Bocas del Toro héraði.



Panama er í Mið-Ameríku, er eitt af löndunum sem skilur Norður- og Suður-Ameríku. Fyrir norðan Panama er Kosta Ríka og fyrir sunnan Kólumbía. Panama er frekar lítið land (78.200 km2) en tvö höf liggja að því, annars vegar Karabíska hafið og hins vegar Kyrrahafið.

Í landinu búa um 3,3 milljónir manna. Tungumálið er spænska.

Samkvæmt CIA World Factbook þá eru helstu náttúruauðlindir kopar, mahogne skógar, rækjur og vatnsorka.



Loksins, loksins ...

... er ég farin að blogga.

Ég ætla að skrifa hér hugleiðingar og upplifanir mínar á því að búa í Panama, því fjarlæga og framandi landi í huga Íslendingsins.

Mér þætti vænt um að fá línu frá ykkur sem lesið bloggið.