Við vinnum öll fyrir Changuinola Civil Works Joint Venture (CCWJV) sem er samsteypa fyrirtækjanna Pihl og MT Höjgaard. Verkefnið er bygging Changuinola virkjunarinnar sem er 210 MW vatnsaflsvirkjun ásamt 10MW smávirkjun sem er til komin vegna kröfu um að vatni sé ætíð sleppt í gamla farveg Changuinola fljótsins. Um er að ræða RCC (steinsteypu) stíflu, um 90 metra háa, aðrennslisgöng, stöðvarhús og síðan frárennslisskurð. Virkjunin er staðsett í regnskógi og bara gerð aðkomuvega er feikna verkefni með skógarhöggi, brúargerð og ræsisvinnu. Virkjunin er staðsett Karabíuhafsmegin í Panama. Hér rignir mikið og því mjög rakt en hitastigið er um 30-35 gráður um miðjan dag en lægra á öðrum tíma sólarhringsins.

Yfirlitsmynd yfir vinnusvæðið
Hjá CCWJV vinna um 1.600 manns en þar af eru um 150 útlendingar. Þetta er gríðarlegur fjöldi og bara það að finna út þræði og uppbyggingu verksins er ríkt verkefni. Verkefnið er komið til CCWJW gegnum sænska fyrirtækið Skanska og margir fyrrum starfsmenn þess eru hér. Mjög margir þeirra eru spænskumælandi sem náttúrulega er mikill kostur.
Reynir er einn af þremur framleiðslustjórum og ber ábyrgð á jarðvinnu, vegagerð og efnisvinnslu. Jarðefni eru unnin úr Changuinola fljóti, því ekið upp í steinbrjót og síðan unnið til steypuvinnslu. Að lokum er því ekið í steypustöðvarnar. Alls þarf að framleiða um eina og hálfa milljón rúmmetra af efni.

Unnið að efnistöku úr Changuinola fljóti
Reynir ber líka ábyrgð á allri vegagerð, bæði lagningu varanlegra vega og vinnuvega. Einnig á allri jarðvinnu ofanjarðar þar með talið hreinsun stíflustæðis fyrir stífluvegginn. Að lokum þarf að færa farveg Changuinola fljótsins og gera bráðabirgðastíflur. Fjöldi starfsmanna á þessum verkhluta eru um 300.

Búkollur við vegavinnu
Anna vinnur við kostnaðareftirlit. Það er fullt starf enda verkefnið umfangsmikið. Það hófst árið 2007 og áætluð verklok eru í apríl 2011.
Birkir vinnur á rannsóknarstofunni. Er bæði úti á vinnusvæði að taka sýni af steypu og steinefnum og inn á rannsóknarstofunni að gera mælingar. Hann er sá sem mun læra fyrst spænsku af okkur þremur þar sem nær allir vinnufélagarnir tala einungis spænsku.

Rannsóknarstofan