sunnudagur, 21. júní 2009

Að fara í ána

Fyrir tveimur vikum lukum við við gerð brúar yfir smáfljót sem heitir Rio Risco. Á byggingartímanum var notast við bráðabirgðabrú og hafði fljótinu verið veitt undir hana. Um 100 metrum fyrir neðan brúna er þvotta- og baðaðstaða indíánanna sem búa í grendinni. Vekkaupi okkar sér um öll samskipti við indíánana og ég tilkynnti skilmerkilega um að nú tækjum við nýju brúna í notkun og tímabundin ”mengun” kæmi í ána þegar við flyttum hana og rótuðum í moldinni með gröfum. Okkur var tjáð að þetta væri ekkert mál og þeir mundu tilkynna um þessa röskun en við mættum ekki gera þetta eftir klukkan sex að kvöldi. Það var ekkert mál en ég spurði um ástæðuna og fékk þá skýringu að eftir klukkan sex færu pör saman í ána til að stunda kynlíf. Húsin eru lítil og barnaflokkar allt um kring svo lítið næði er heimavið. Okkur þótti sjálfsagt að verða við þessu þannig að ekkert var rótað í ánni af okkur eftir klukkan sex. Ég er hræddur um að risið yrði heldur lágt á sumum ef nota ætti Elliðaárnar eða Glerána á Akureyri til slíkra leikja.


Þvotta- og baðaðstaða indíána við Rio Risco ána

1 ummæli:

  1. Sniðugt hjá indíánunum og örugglega mjög praktískt við þessar aðstæður að finna sér sæmilegan frið til ástarleikja :)
    Kveðja,
    Stína

    SvaraEyða