miðvikudagur, 15. júlí 2009

Áhætta í vinnunni



Þessi tveggja metra svarta slanga varð á vegi vinnufélaga minna í gær. Hún var að þvælast í útgreftrinum fyrir veginum þegar þeir voru í eftirlitsferð. Snaggaraleg og löng. Hvíldist í polli en tók á sprett upp brekkuna þegar nálgast var. Ég veit ekki hvað hún heitir en við segjum bara að hún sé baneitruð, það er meira spennandi.



Þarna sést slangan snara sér upp nær lóðrétta hlíðina eins og ekkert væri. Hún hvarf síðan sjónum upp í grasið fyrir ofan. Öll dýr og þar með taldar slöngur eru friðaðar hér og á að láta í friði.

Að sjálfsögðu er fólki misvel við þessi dýr. Hér eru menn sem “leika sér” að slöngum og aðrir sem hryllir við þeim. Þær eru hljóðlausar og smjúga um sveitir. Þær fara líka auðveldlega upp súlur og tré og komast víða. Maður lyftir heldur ekki snöggt upp hlutum sem þær geta geymt sig undir.



Þessa mynd fékk ég að láni hjá vinnufélaga. Þetta er rúmlega fjögurra metra Boa kyrkislanga sem var við steypustöðina fyrir nokkrum vikum. Slangan er þarna nýbúin að gleypa stóra rottu, kanínu eða eitthvað annað og var víst mjög ill við áreitnina.

1 ummæli:

  1. Hæ Brói.

    Ég kíkti á ykkur strax og ég kom í vinnuna í dag og hélt ég fengi að sjá falleg blóm. Kemur þú þá ekki með þessar yndislegu myndir af slöngum! Ekki alveg mín deild og ég hefði sko hert að "hálsinum" á þessari Boa þarna.
    Ég var alveg smá tíma að losna við gæsahúðina.
    Í guðs bænum farið þið varlega. Kveðja, Gígja

    SvaraEyða