Í gær, laugardag, rigndi svo mikið að við sáum ekki til sólar allan daginn. Rigningin buldi á þakinu þannig að ekki heyrðist mannsins mál í mestu dembunum. Þrumur drundu allan daginn, fyrst í fjarlægð en síðar skóku þær húsið. Eftir að myrkrið skall á, mátti sjá eldingar leika á himninum.
Þetta er í fyrsta skipti síðan ég kom að það hefur rignt svona allan daginn. Þetta er þó eðlilegt fyrir þennan árstíma því í júlí er regntími hér. Meðalúrkoma í mánuðnum er rúmlega 400 mm en til samanburðar þá var úrkoman 51 mm í Reykjavík og 39 á Akureyri í júlí 2008.
Ég veit ekki hvar góða veðrið hefur verið í gær því samkvæmt fréttum geisaði óveður á meginlandi Evrópu og þrumur og eldingar hrelldu sumarbústaðareigendur á Þingvöllum.
Allt á floti í garðinum klukkan átta á laugardagsmorguninn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli