fimmtudagur, 30. júlí 2009

Panama Fried Chicken

Við reynum alltaf að borða saman öll þrjú í hádeginu. Birkir var eitthvað listarlaus í hádeginu í dag, svo mjög að eftir því var tekið. Hann er annars vanur að taka vel til matar síns. Það kom í ljós að Birkir hafði fengið sér “brunch” niður á vinnusvæði klukkan 0930. Hann fékk sér kjúkling og hrísgrjón á bleika veitingastaðnum "PFC".


Panama Fried Chicken

Birkir hafði mörg orð um það hversu svakalega góðir bitar þetta hefðu verið og tækju frændum þeirra frá Kentucky langt fram. Svo mikil var hrifningin að meira að segja Anna hafði á orði að ég gæti nú komið við þarna við tækifæri og sótt "take away". Ég kannaði því staðinn nú síðdegis.


Smellið á myndina og teljið alla kjúklingana

Þetta er eins og sést vinalegur staður þar sem framtíðarmaturinn gengur um á flötinni fyrir utan. Þetta er svona “úr haga í maga” veitingastaður þannig að ég á eftir að koma þarna við einhvern daginn á leiðinni heim úr vinnunni.

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Aumur á mér

Ég get varla lyft vatnsglasinu mínu og hvað þá sest dömulega í stól því ég fór að lyfta lóðum í gær í fyrsta skipti í langan tíma. Allir sem hafa prófað það vita hvað dagarnir á eftir eru sársaukafullir. Það eru reglulegir leikfimitímar í klúbbhúsinu en hingað til hef ég aðeins hlaupið reglulega á hlaupabrettinu. Tímanum í gærkvöldi stjórnaði Marcia hin hollenska sem mig grunar að sé af þýskum ættum, alla vega var ég þakklát fyrir háværa tónlistina sem drekkti stununum frá mér.

Ég er hins vegar nokkuð ánægð með mig á hlaupabrettinu en þar hleyp ég eftir prógramminu góða frá Mörthu hlaupakonu. Í síðustu viku var brekkuæfing samkvæmt prógramminu svo ég hljóp úti. Ég hljóp 10 sinnum upp boulevardið sem húsið okkar stendur við. Það er ágætisbrekka en það var ennþá um 25-27 stiga hiti þó það væri komið undir kvöld. Ég reyndi þó að halda góðum hlaupastíl svona fyrir nágranana sem fylgdust með úr eldhúsgluggunum.

Þar sem ég á hvorki myndir af mér að hlaupa né að stunda aðra líkamsrækt (til allrar hamingju) læt ég hér fylgja eina mynd sem ég tók í fyrradag af körtu sem var óvenju snemma á ferðinni. Körturnar sér maður helst á kvöldin þegar þær koma upp að húsinu. Þær hoppa um á veröndinni og liggja oft við loftkælinguna. Þær sjá greinilega illa því þær klessa gjarnan á það sem fyrir þeim er. Þessa sá ég hjá garðslöngunni þegar ég ætlaði að fara að vökva blómin eftir vinnu.


Karta í sturtu

sunnudagur, 26. júlí 2009

Girðingar

Ég hef heyrt að mikil sala sé í byggingarvörum á Íslandi um þessar mundir. Fólk er greinilega að dytta að húsunum sínum og notfærir sér að nú er hægt að fá iðnaðarmenn til starfa í svona heimadútl.

Það hefur staðið lengi til að girða aftur á Laugateignum en því miður ekki orðið af því ennþá. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar en engin endanleg niðurstaða fengist. Ég hef því lengi verið á útkíkkinu eftir fallegum girðingum. Það er spurning hvort þessi fái hljómgrunn hjá nágrönnunum?



Eða kannski ætti maður að vera svolítið grand á því ...



Það er ekki ofsögum sagt að gróðurinn vaxi hér í hitanum og rakanum. Það má ekki setja spítur í jörðina án þess að þær fari að skjóta rótum. Það er spurning hvort þetta færi vel á Teigunum, t.d. meðfram innkeyrslunni.


Girðingastaurar sem lifnað hafa við

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Umsókn um dvalarleyfi

Eldsnemma í morgun fór Marcella, lögfræðingur fyrirtækisins, með okkur á Útlendingastofnuna í Changuinola til að fá bráðabirgðadvalarleyfi. Hún er þar heimavön enda annan hvern dag þar með fólk í umsóknarferli. Allir útlendir starfsmenn þurfa nefnilega að mæta á staðinn á þriggja mánaða fresti fyrsta árið áður en þeir fá ársdvalarleyfi. Áður en við fórum út sendum við 5 vottorð og 12 myndir á undan okkur. Það var greinilega bara rétt svona til að setja ferlið í gang.

Útlendingastofnunin í Changuinola ásamt embættisbifreið

Eftir stutta bið vorum við kölluð hvert fyrir sig inn á skrifstofu þar sem við vorum spurð spjörunum úr. Svörin voru skrifuð samviskusamlega niður á eyðublað í tvíriti (með kalkipappír á milli). Spurningar um þjóðerni, aldur, hæð, augnlit og tilgang veru komu ekki á óvart en það gerðu hins vegar spurningar um nöfn foreldra, ferðamáta til landsins og nafn flugfélagsins sem við flugum með hingað. Lengst hikaði ég við spurninguna um endanlegan áfangastað (final destination) en starfsmaðurinn tók þá af skarið og skrifaði „Islandia“. Þá vitum við hvar ég ber beinin.

Þegar öllum spurningum var svarað var komið að fingrafaratöku. Ekki þurfti að sverta alla puttana, aðeins hægri þumal. Fingrafarið fór í þar til gerðan ramma efst í hægra horn eyðublaðsins. Ég rúllaði fingrinum yfir blaðið eins og ég væri alvön (enda oft búin að sjá þetta gert í bíó).

Þegar þessu var lokið tók við smá bið en síðan kallaði Marcella á mig inn á aðra skrifstofu þar sem hún tók mynd af mér með vefmyndavél (webcam). Á myndinni er ég ákaflega grannleit sem er kannski bara ágætt. Aftur var ég send fram að bíða en loks kallaði Marcella mig inn aftur og hafði þá tilbúna alla pappírana sem ég þurfti að skrifa undir. Allt var á spænsku svo ég vissi nú lítið hvað ég var að skrifa undir. Ég spurði þó þegar ég var búin að skrifa nafnið mitt níu sinnum og fékk þá stutta kynningu á helstu umsóknum.

Ferlið var svipað hjá okkur Birki en Reyni var skutlað á aðra skrifstofu til að sækja um ökuskírteini. Hann slapp við blóðprufu þar sem hann mundi (svona cirka) í hvaða blóðflokki hann er en blóðflokkur er skráður á ökuskírteinin. Góð hugmynd sem kannski væri hægt að gauka að ríkislögreglustjóranum á Íslandi.

Allt í allt tók þetta nú ekki nema 2-3 tíma sem þykir ekki mikið. Það var búið að vara okkur við því að þetta gæti tekið lungann úr deginum en ætli undirbúningur og sérfræðiþekking Marcellu hafi ekki haft hér eitthvað að segja.


Þessi ritvél var nú ekki notuð í dag en það er víst ekki mörg ár síðan hún var tekin úr notkun.

sunnudagur, 19. júlí 2009

Sunnudagsbíltúrinn



Eftir innihangs laugardagsins ákváðum við í morgun að fara á strönd rauða froskins (Red Frog Beach) en þangað höfum við farið einu sinni áður. Í þetta skipti sáum við froskana sem ströndin heitir eftir. Þeir sem við sáum vorum agnarsmáir, aðeins 2-3 cm.

Á leið okkar niður fjallshlíðina til Almirante rákumst við á þetta letidýr sem var bara ansi sprækt af letidýri að vera. Sýndi okkur listir sínar á meðan við stoppuðum og tókum myndir.



Í Almerante tókum við bátastrætó yfir til Bocas eyju. Það var svolítið hvasst og öldugangur. Ég sat yst og fékk gusurnar yfir mig. Ég var því eins og hundur af sundi eftir sjóferðina. Þornaði þó fljótt aftur en hárgreiðslan var farin fyrir bí þann daginn.

Ströndin er eins og þær gerast bestar. Það var ekki mikil sól í dag en sjórinn volgur og öldurnar stórar. Í fyrri ferð okkar tókum við eftir flækingshundum sem betla mat af strandargestum. Í dag fundu þeir lyktina af samlokunum okkar og settust að hjá okkur. Þessi litli ræfill beið þolinmóður þangað til að samlokurnar voru teknar upp og bita var gaukað að honum.




Á heimleiðinni hafði ég vit á að sitja framarlega og fyrir miðju bátsins ...

Úrhelli

Í gær, laugardag, rigndi svo mikið að við sáum ekki til sólar allan daginn. Rigningin buldi á þakinu þannig að ekki heyrðist mannsins mál í mestu dembunum. Þrumur drundu allan daginn, fyrst í fjarlægð en síðar skóku þær húsið. Eftir að myrkrið skall á, mátti sjá eldingar leika á himninum.

Þetta er í fyrsta skipti síðan ég kom að það hefur rignt svona allan daginn. Þetta er þó eðlilegt fyrir þennan árstíma því í júlí er regntími hér. Meðalúrkoma í mánuðnum er rúmlega 400 mm en til samanburðar þá var úrkoman 51 mm í Reykjavík og 39 á Akureyri í júlí 2008.

Ég veit ekki hvar góða veðrið hefur verið í gær því samkvæmt fréttum geisaði óveður á meginlandi Evrópu og þrumur og eldingar hrelldu sumarbústaðareigendur á Þingvöllum.


Allt á floti í garðinum klukkan átta á laugardagsmorguninn.

miðvikudagur, 15. júlí 2009

Áhætta í vinnunni



Þessi tveggja metra svarta slanga varð á vegi vinnufélaga minna í gær. Hún var að þvælast í útgreftrinum fyrir veginum þegar þeir voru í eftirlitsferð. Snaggaraleg og löng. Hvíldist í polli en tók á sprett upp brekkuna þegar nálgast var. Ég veit ekki hvað hún heitir en við segjum bara að hún sé baneitruð, það er meira spennandi.



Þarna sést slangan snara sér upp nær lóðrétta hlíðina eins og ekkert væri. Hún hvarf síðan sjónum upp í grasið fyrir ofan. Öll dýr og þar með taldar slöngur eru friðaðar hér og á að láta í friði.

Að sjálfsögðu er fólki misvel við þessi dýr. Hér eru menn sem “leika sér” að slöngum og aðrir sem hryllir við þeim. Þær eru hljóðlausar og smjúga um sveitir. Þær fara líka auðveldlega upp súlur og tré og komast víða. Maður lyftir heldur ekki snöggt upp hlutum sem þær geta geymt sig undir.



Þessa mynd fékk ég að láni hjá vinnufélaga. Þetta er rúmlega fjögurra metra Boa kyrkislanga sem var við steypustöðina fyrir nokkrum vikum. Slangan er þarna nýbúin að gleypa stóra rottu, kanínu eða eitthvað annað og var víst mjög ill við áreitnina.

mánudagur, 13. júlí 2009

Sunnudagur til sólar

Sunnudagar eru notalegir dagar. Ég vaknaði um kl. sjö eða um klukkutíma seinna en venjulega. Fékk mér vatn og hrökkbrauð með osti og kíkti á netmiðlana. Sá að það var sól og sumar á öllu Íslandi. Gladdist og hugsaði hvað sólin og sumarið væri gott fyrir þjóðarsálina. Ég tók koddann og krimmann minn út á verönd og lagðist í hengirúmið. Þar ruggaði ég alsæl þangað til meira líf kom í húsið. Ég hafði verið svo heppin að finna bókabúð í Panama City sem seldi enskar bækur þannig að ég notaði tækifærið og birgði mig upp af rómönum og krimmum.

Það sást ekkert til sólar fyrstu tímana en hitinn smá hækkaði. Við höfðum ætlað að sigla upp Changuinola fljót á laugardeginum en urðum að hætta við vegna rigningar. Vatnsyfirborðið hafði hækkað þá um nóttina og fljótið mórautt. Ætlunin var að sigla í 2-3 tíma upp eftir fljótinu og kannski baða en við ákváðum að fresta siglingunni þangað til betur viðraði.

Sólin braust fram úr skýjunum um kl. tíu svo ég ákvað að bregða mér í bikini og leggjast í sólbað á flötinni. Ég þarf greinilega að fá mér sólbekk því að maurarnir í grasinu virtu ekki einkasvæði mitt og flykktust inn á hvíta lakið. Ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt að einbeita mér að sögufléttu bókarinnar á tímabili.

Eftir amerískar pönnukökur í hádeginu skutluðumst við Reynir til Changuinola. Það var orðið eitthvað tómlegt í ísskápnum svo við ákváðum að fara í kaupstaðinn að versla. Verslunina Romero má líkja við 10-11 búðirnar á Íslandi því það er dýr búð sem er opin allan sólarhringinn. Þar verslum við matvörur en stutt frá Romero er Úlfa-kringla (Wolf Mall) þar sem gamla kaupfélagsstemningin er alls ráðandi. Þangað fórum við líka og fundum loks garðstóla og -borð sem við höfum verið að leita að.


Nýju garðhúsgögnin

Þegar við komum heim úr verslunarleiðangrinum tók ég hlaupaæfingu á hlaupabrettinu. Hljóp 15 mín, 2 x 800 m og 8 x 300 m og var ánægð með mig. Er bara að verða ansi góð á brettinu með IPodinn í eyrunum. Kvöldmaturinn var kínverskur „take away“ matur sem við keyptum á kínverskum veitingastað í Changuinola. Sólin fer niður um klukkan sjö og þá færist ró yfir mannskapinn. Við vöskuðum upp og ég setti í tvær þvottavélar, kíktum aðeins á netið en síðan var það bókin og rúmið sem heillaði.

föstudagur, 10. júlí 2009

Hrollurinn

Tveir merkisatburðir urðu í dag, tveimur og hálfum mánuði eftir að ég kom hingað. Þó margt hafi gerst þá er alltaf eitthvað sem gerir daginn eftirminnilegan.

Ég fer snemma á morgnana í vinnuna. Í morgun var klukkan tíu mínútur í sex og sólin var við að koma upp. Mér var svona hrollkalt á leiðinni í bílinn enda snemma morguns. Leit á hitamælinn í bílnum og sá að þetta var nýtt kuldamet hérna, 22° C. Ekki furða að maður sé sleginn hrolli við svona kuldaköst.

Síðari atburðurinn varð rétt fyrir hádegið og var þá mesti hrollurinn farinn. Nema hvað, ég er að aka til baka á skrifstofuna frá vinnusvæðinu þegar eiturslanga “stekkur” fyrir bílinn. Ég næ ekki að stöðva og slangan fer undir bílinn en sleppur við dekkin og smýgur inn í grasið til hliðar við veginn. Það sá ég í baksýnisspeglinum. Þetta var mjó (eins og góður fingur) en löng slanga græn á litinn. Hvað á ég að segja, 1,20-1,40 metrar í minningunni. Örugglega græn Mamba eða eitthvað álíka ægilegt. Þetta er þó fyrsta slangan sem ég sé síðan ég kom.

Það er nú varla meira á mann leggjandi svona á venjulegum föstudegi

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Þök yfir höfuðið

Í Panamalandi þar sem almenningssamgöngur eru ekki svo þróaðar, taka samgöngutækin og aðstaðan á sig ýmsa mynd. Fólk ferðast og þarf að bíða. Við höfum tekið eftir því að biðstöðvarnar fyrir hina einkareknu samgöngustarfsemi eru af ýmiskonar gerð og stærð. Hér koma dæmi um biðstöðvar sem orðið hafa á vegi mínum undanfarið, á leið heim og að heiman.


Við sjáum "leitarstöðvar" og biðstöðvar


Fólk þarf skjól fyrir regni og sólinni þegar hún lætur sjá sig.
Engir kaldir norðanvindar eða áttavilltir vindar. Bara þak.


Það er líka byggt hátimbrað ef þannig ber við


Vitað er að hér býr listin og vitneskjan og hvernig best
er að sitja og bíða eftir henni


Þetta er svo natural módelið - four poles and a roof. Þegar
þangað er komið bíðum við bara og sjáum til......

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Panama skurðurinn

Þessa helgi fórum við fjölskyldan til Panamaborgar en hana höfðum við ekki áður séð í dagsljósi, aðeins stoppað stutt á leið til Changuinola. Við réðum til okkar leiðsögumanninn Óskar sem keyrði og fræddi okkur um borg og bý. Helsti viðkomustaðurinn var auðvitað Panama skurðurinn sem er stórkostlegt mannvirki en einnig helsta tekjulind landsins. Gefur um 700 milljónir USD í tekjur á ári. Hver ferð fyrir fullhlaðið gámaskip kostar um 350 þúsund dollara. Það er þó kostaboð því það kostar um 1 milljón dollara fyrir slíkt skip að sigla lengri leiðina sem tekur tvær vikur.


Við Miraflores skipahólfin. Það eru tvö hólf sitt hvorum megin við húsið.

Það er ótrúlegt en skurðurinn hefur verið í notkun síðan 1914 og hefur lítið breyst á þessum tæplega hundrað árum. Tæknin er hin sama, skipunum er lyft um 26 metra í þremur áföngum. Engar dælur eru notaðar, aðeins vatnsafl. Skipin leggja af stað á morgnanna frá sinn hvorum enda, mætast á miðri leið og sigla svo út hinum megin 8-9 tímum síðar. Rúmlega 40 stór skip fara um skurðinn á daginn en af öryggisástæðum fara aðeins smærri skip um skurðinn á næturnar.

Þegar skipi hefur verið siglt inn í fyrsta skipahólfið og hliðinu lokað, er vatni hleypt frá næsta hólfi. Þegar vatnsyfirborðið er orðið jafn hátt báðum megin er næsta hlið opnað og skipið siglir í gegn. Hverju skipi er þannig lyft þrisvar sinnum bæði þegar það siglir inn og út úr skurðinum. Það fara 100 milljón lítrar af vatni í hvert skipti sem hleypt er í skipahólf. Margfaldið með sex (skipahólf) og svo fjölda skipa (ég kann ekki að skrifa svona stóra tölu). Grundvöllur skipaskurðsins byggist því á rigningunni sem fylgir regnskógunum í kringum Gatún vatnið. Regnskógarnir eru því algerlega verndaðir og stórum svæðum hefur verið breytt í þjóðgarða. Það er eins gott að passa gulleggið sitt.


Hér er eitt stórt skip komið inn í annað skipahólfið við Miraflores. Skipið er bundið við fjóra litla lóðsa svo það rekist ekki í veggina.


Hér er fyrra skipið (fjær) nánast horfið niður fyrir bakkann og næsta skip komið í lóðs.


Fyrra skipið á leið í síðasta skipahólfið áður en það siglir út á Kyrrahafið.


Og að lokum seinna skipið að sigla í gegnum hliðið.

sunnudagur, 5. júlí 2009

Jarðskjálfti

Í fljótu bragði virðist fátt vera líkt með löndunum tveimur, Panama og Íslandi. Það fyrsta sem ég uppgötvaði að löndin ættu sameiginlegt var vatnið. Hér er nóg af vatni líkt og á Íslandi. Lækir, ár, fljót, fossar og gott drykkjarvatn.

Síðan uppgötvaði ég að hér í Panama eru eldfjölll eins og á Íslandi. Á „Cordillera Central“ fjallgarðinum er til dæmis eldfjallið Barú sem okkur langar að skoða.

Síðasta uppgötvunin var gerð í fyrrinótt en þá hentumst við nær fram úr rúmunum okkar þegar jarðskjálfti upp á 6,0 stig á Richter reið yfir Panama. Við vorum stödd á hóteli í Panama City og vorum bara nokkuð ánægð að hafa aðeins verið stödd á annarri en ekki níundu hæð hótelsins. Þetta virkaði þó ekki eins og jarðskjálfti upp á 6 stig (eins og ég viti hvernig það er ...) enda upptök jarðskjálftans 95 km frá borginni. En hann var nógu skarpur til að ég sofnaði ekki alveg strax aftur.


Umfjöllun um jarðskjálftann í blaði dagsins

Helstu staðreyndir um jarðskjálftann á heimasíðu USGS (United States Geological Survey).

föstudagur, 3. júlí 2009

Týnda paradísin



Hver stenst svona skilti? Alla vega ekki ég. Á skiltið rákumst við á leið okkar yfir „Cordillera Central“ fjallgarðinn sem liggur fyrir miðju landinu norðvestast. Við snarstoppuðum bílinn og könnuðum nánar.



Upp frá veginum lá stígur sem var varla meira en slóði. Hann var brattur, blautur og sleipur (og ég á hvítu töflunum mínum) en forvitnin var óþægindunum yfirsterkari.


Fljótlega rakst ég á annað skilti sem sagði mér að við enda stígsins væri „Lost and Found EcoHostel“ sem hljómar eins og umhverfisvænt gistisheimili. Ég ákvað að kíkja á staðinn og hélt áfram upp brattann í um 15 mínútur eða þangað til að ég kom að næsta skilti.



Og síðan að sjálfu gistiheimilinu.



Hvort hér sé að finna hina týndu paradís veit ég ekki en útsýnið frá staðnum var fallegt.



Fyrir ykkur sem eruð að hugsa um að panta herbergi þá fer enginn með venjulega ferðatösku upp slóðann, mesta lagi bakboka.