Þessa helgi fórum við fjölskyldan til Panamaborgar en hana höfðum við ekki áður séð í dagsljósi, aðeins stoppað stutt á leið til Changuinola. Við réðum til okkar leiðsögumanninn Óskar sem keyrði og fræddi okkur um borg og bý. Helsti viðkomustaðurinn var auðvitað Panama skurðurinn sem er stórkostlegt mannvirki en einnig helsta tekjulind landsins. Gefur um 700 milljónir USD í tekjur á ári. Hver ferð fyrir fullhlaðið gámaskip kostar um 350 þúsund dollara. Það er þó kostaboð því það kostar um 1 milljón dollara fyrir slíkt skip að sigla lengri leiðina sem tekur tvær vikur.

Við Miraflores skipahólfin. Það eru tvö hólf sitt hvorum megin við húsið.
Það er ótrúlegt en skurðurinn hefur verið í notkun síðan 1914 og hefur lítið breyst á þessum tæplega hundrað árum. Tæknin er hin sama, skipunum er lyft um 26 metra í þremur áföngum. Engar dælur eru notaðar, aðeins vatnsafl. Skipin leggja af stað á morgnanna frá sinn hvorum enda, mætast á miðri leið og sigla svo út hinum megin 8-9 tímum síðar. Rúmlega 40 stór skip fara um skurðinn á daginn en af öryggisástæðum fara aðeins smærri skip um skurðinn á næturnar.
Þegar skipi hefur verið siglt inn í fyrsta skipahólfið og hliðinu lokað, er vatni hleypt frá næsta hólfi. Þegar vatnsyfirborðið er orðið jafn hátt báðum megin er næsta hlið opnað og skipið siglir í gegn. Hverju skipi er þannig lyft þrisvar sinnum bæði þegar það siglir inn og út úr skurðinum. Það fara 100 milljón lítrar af vatni í hvert skipti sem hleypt er í skipahólf. Margfaldið með sex (skipahólf) og svo fjölda skipa (ég kann ekki að skrifa svona stóra tölu). Grundvöllur skipaskurðsins byggist því á rigningunni sem fylgir regnskógunum í kringum Gatún vatnið. Regnskógarnir eru því algerlega verndaðir og stórum svæðum hefur verið breytt í þjóðgarða. Það er eins gott að passa gulleggið sitt.

Hér er eitt stórt skip komið inn í annað skipahólfið við Miraflores. Skipið er bundið við fjóra litla lóðsa svo það rekist ekki í veggina.

Hér er fyrra skipið (fjær) nánast horfið niður fyrir bakkann og næsta skip komið í lóðs.

Fyrra skipið á leið í síðasta skipahólfið áður en það siglir út á Kyrrahafið.

Og að lokum seinna skipið að sigla í gegnum hliðið.